Lopapeysan Flateyri sem hönnuð er af Ásu Steinars ljósmyndara vakti mikla lukku á opnunarviðburði sem 66°Norður hélt í verslun sinni á Laugavegi á dögunum. Ása hannar lopapeysuna í samstarfi við útivistarmerkið.
Lopapeysan seldist nánast upp á viðburðinum en samkvæmt upplýsingum frá 66°Norður er þó enn eitthvað til af peysunni í versluninni á Laugavegi og á vefverslun fyrirtækisins.
Ása er að vonum afar ánægð með viðtökurnar en hún segir það lengi hafa verið draum sinn að hanna lopapeysu. Peysan er úr 100% íslenskri ull, er innblásin af uppáhaldsstaðnum hennar á Vestfjörðum, Flateyri, og bleiku vetrarsólarlögum sem eru regluleg þar.
,,Ullarpeysur hafa alltaf verið stór hluti af lífinu mínu í útivistinni, enda hlýjasta flík sem maður getur klæðst. Íslenska ullin okkar er einstök. Lopapeysan er hlýjasta og notalegasta flíkin í fataskápnum mínum akkúratt núna og mun vera það áfram, enda endast ullarpeysur í mörg mörg ár og frábær í komandi vetur. Mig langaði að gefa lopapeysunum nútímalegri blæ með bjartari lit en hefðbundnir jarðlitir eins og hvítur, brúnn eða grár. Mér finnst mikilvægt að bæta fallegum litum í útivistarfatnaðinn. Svo er blandað við tíglamunstur sem er oft sýnilegt í fatnaði 66°Norður,” segir Ása.
Verið er að reyna að framleiða meira magn af lopapeysunni til að anna eftirspurn og líklegt er að fleiri eintök verði í boði um miðjan desember.
Sigríður Margrét tók myndirnar á viðburðinum.