Miðar á tónleika sænsku þungarokkshljómsveitarinnar In Flames eru uppseldir. Miðasala hófst á mánudagsmorgun.
Óhætt er að segja að miðar á tónleika In Flames hafi selst eins og heitar lummur. Tilkynnt var um tónleikana í síðustu viku og miðasala hófst klukkan 10 á mánudagsmorgun. Í lok dags í gær voru miðarnir uppseldir.
Tónleikur ehf, sem stendur að tónleikunum sem fram fara í Silfurbergi í Hörpu þann 24. júní næstkomandi, greindi frá því á sunnudag að 1150 miðar væru í boði. Ekki væri hægt að bæta við aukatónleikum.
In Flames, sem hafa verið leiðandi í svokölluðu Gautaborgarrokki eða melódísku dauðarokki, hafa gefið út 14 hljóðversplötur á um 30 ára ferli og eru í dag með rúmlega 2 milljónir mánaðarlega hlustendur á streymisveitunni Spotify.
Þetta eru aðrir þungarokkstónleikar sem haldnir eru í Silfurbergi sem seljast upp á skömmum tíma. En í sumar seldust upp tónleikar bandarísku sveitarinnar Manowar sem fram fara þann 1. febrúar næstkomandi.