„Æskan mín var góð og ég á bestu foreldra í heimi. Mér leið vel, held ég, þangað til ég var átta eða níu ára en þá dó uppáhalds frændi minn. Eftir það varð ég mjög kvíðin,“ segir hún.
Sólveig segir að það hafi verið mjög erfitt að vekja hana og koma henni í skólann, svo erfitt að það varð að barnaverndarmáli.
„Ég man hvað það var erfitt að mæta svo seint í skólann og öll athyglin var á mér þar sem allir kommentuðu á mig. Það jók á kvíðann.“
Ung var Sólveig farin að sýna fíknihegðun í mat og var þung sem barn. Það hafði mikil áhrif á hennar sjálfsmynd og líðan.
„Ellefu ára byrjaði ég að rúlla upp A4 blöðum og þykjast reykja þau. Stuttu seinna byrjaði ég að reykja,“ segir hún.
Í unglingadeild kynntist hún strák sem gaf henni gras. Eftir það var ekki aftur snúið.
Sólveig flutti tímabundið með foreldrum sínum til Frakklands eftir grunnskóla og komst þar strax í kynni við fólk sem gat útvegað henni efni. Eftir heimkomu fór neyslan að breytast og þróast.
„Ég man að mig langaði að prófa að sprauta mig, ég veit ekki einu sinni af hverju. Ég var með vinkonu minni heima hjá manni og þau voru að nota. Hún sagði nei við mig og ég er þakklát henni fyrir það.“
Þetta frestaði neyslunni í æð um nokkurt skeið. Á þessum árum fór hún einnig í nokkrar innlagnir á Vog en braut reglur, nýtti sér ekki úrræðið og fór út að nota aftur.
„Ég fór fyrst á Vog átján ára og fannst gaman. Ég eignaðist kærasta, var að sofa hjá þarna inni og nota. Allt sem þú átt ekki að gera,“ segir hún.
Sólveig hefur upplifað margt á tíu árum í neyslu. Ofbeldi, misnotkun, nauðganir og sjálf hefur hún komið sér í vandræði.
„Ég sótti pakka á pósthúsið sem átti að vera með veip vökva. Ég fékk 20 þúsund krónur fyrir að sækja pakkann. Nokkrum klukkustundum síðar kom löggan heim og þá hafði ég sótt 3,7 lítra af amfetamínbasa, sem ég hafði ekki hugmynd um,“ segir hún.
Hún bætir við að ef hún hefði vitað hvað væri í pakkanum hefði hún ekki samþykkt þessa greiðslu fyrir, eðlilega.
Í dag er Sólveig á lokastigi fíknisjúkdóms þar sem hún er ein inni í herbergi og notar vímuefni í æð alla daga.
„Ég á einn séns eftir. Ég fer til Danmerkur í meðferð í byrjun desember og verð í nokkra mánuði, jafnvel ár. Ég ætla að gera allt, ég get ekki meira af þessu lífi,“ segir hún.