fbpx
Þriðjudagur 03.desember 2024
Fókus

„Ég er skrýtinn gaur með sérstök áhugamál og ástríðu fyrir óvenjulegum hlutum“

Ragna Gestsdóttir
Mánudaginn 2. desember 2024 21:00

Bergþór Másson Mynd: Ísak Hinriksson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bergþór Másson hlaðvarpsstjórnandi og frumkvöðull segist hafa tengst líkama sínum algjörlega upp á nýtt eftir að hafa eingöngu borðað kjöt, egg og smjör í hálft ár. Bergþór, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar, segir að líkami sinn hafi hreinsast af alls kyns hlutum á þessu tímabili og honum hefur aldrei fundist hann jafn skýr líkamlega, vitsmunalega og andlega.

„Ég hef aldrei getað hlustað jafnvel á líkama minn eins og eftir þetta tímabil. Það tók mig 2-3 mánuði að ná alvöru hlustun á líkamann. Eftir að það kom fór ég að finna mjög skýrt hvað líkami minn vill og hvað hann vill ekki. Líkaminn sendir okkur stöðugt skilaboð, en við erum ekki sérlega góð í að hlusta. Það hvað þú setur ofan í líkama þinn er að búa til líkamann. Ég hafði ekki áttað mig á því svona skýrt fyrr en eftir að ég tók þessa róttæku ákvörðun. Ég hef afstíflast mjög mikið og alls kyns spennur og stíflur hafa farið úr líkamanum á mér. Það er alls kyns djöfulgangur að eiga sér stað í líkamanum á okkur flestum sem við erum farin að horfa á sem eðlilegan hlut. En það er ekki eðlilegt og náttúrulegt að vera uppfullur af spennu, verkjum og stíflum. Það að vera á svona hreinu matarræði hefur hjálpað mér að sjá það og skilja á alveg nýjan hátt. En þeirri vegferð er hvergi nærri lokið og á einhvern hátt er það ævilangt ferðalag að hreinsa líkamann og orkustöðvarnar,” segir Bergþór, sem segist ekki síst hafa fengið mikið út úr því að heitbinda sig þeirri róttæku ákvörðun að mæta sjálfum sér með þessum hætti.

,,Ég er maður sem hefur mjög gaman af djúpum róttækum innri ákvörðunum og að geta heitbundið sig í að standa við eitthvað yfir lengri tíma. Ég hef gaman að einbeitingu og aga og óhefðbundnum leiðum í lífinu. Bara það að losa líkamann við öll aukaefni, slæmar olíur, sykur og fleira gerir magnaða hluti. Þetta er í raun algjört detox. En ofan á þetta hugleiði ég líka mikið, geri öndunaræfingar, hreyfi mig, iðka þakklæti og geri mitt besta til að vera alltaf heiðarlegur við bæði sjálfan mig og annað fólk.”

Bergþór tekur það fram að hann sé einlæglega þeirrar trúar að hver og einn eigi að hlusta á sjálfan sig og það sé ekki eitthvað eitt rétt fyrir alla.

,,Ég trúi því að ekkert eitt sé rétt, heldur séu allir með sinn líkama, sinn huga, þarfir og venjur. Hver og einn þarf að prófa hvað virkar fyrir sig. Hvort sem fólk borðar bara kjöt eða bara vegan hráfæði er það eitt og sér að losa út aukaefni og sykur og standa við heitbindingu við sjálfan sig eitthvað sem hreinsar líkamann og hugann. Ég myndi aldrei predika að eitthvað eitt sé rétt fyrir alla.”

Í þættinum ræða Sölvi og Bergþór um samfélagsmál, múgsefjun, dyggðaskreytingar og fleira.
,,Ég er ekki fyrir massann og hef aldrei upplifað mig sem hluti af massanum. Ég var alinn upp þannig að ég er á einhvern hátt ekki hluti af alþýðumenningu og ég er skrýtinn gaur með sérstök áhugamál og mikla ástríðu fyrir hlutum sem flestir eru ekkert sérlega spenntir fyrir. Það væru miklar villigötur fyrir mig að fara að reyna að vera eitthvað sem ég er ekki,” segir Bergþór, sem er ekki sérlega hrifinn af þeirri þróun að fólk dyggðaskreyti sig og þurfi að auglýsa góðmennsku sína. Hann er á því að við séum að stíga inn í öld einstaklingsins og tíma þar sem heiðarleiki verður vinsælli en dyggðaskreytingar.

,,Ég ætla ekki að segja öðrum hvernig þeir eiga að vera en persónulega er ég hrifinn af því að æfa sig bara í að vera góður og halda því fyrir sjálfan sig ef maður gerir góða hluti. Það er alvöru góð orka og fegurð. Við erum að stíga inn í öld einstaklingins, en mér finnst stundum eins og Ísland sé ekki alveg tilbúið í það ennþá. Það sem er að gerast í Bandaríkjunum er merkilegt. Trump er stærri en Hvíta Húsið, Elon Musk er stærri en Nasa og Joe Rogan er stærri en New York Times. Þetta eru einstaklingar sem hafa verið þeir sjálfir og bæði verið breyskir og snillingar á sama tíma. En þeir hafa þorað að vera einstaklingar alla leið og eru orðnir stærri en kerfin. Þetta er afleiðing af tækninni. Á Íslandi er staðan enn sú að kerfið er stærra en einstaklingarnir. Kerfið er á einhvern hátt mjög djúpt í okkur Íslendingum. En sjáum hvað setur, kannski er farin af stað þróun í heiminum sem verður ekki tekin til baka.”

Hægt er að nálgast viðtalið við Bergþór og öll viðtöl og podköst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Keyrði hættulegasta veg á Íslandi – Er undir sjávarmáli á kafla

Keyrði hættulegasta veg á Íslandi – Er undir sjávarmáli á kafla
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ef þú færð mörg stig á þessu nostalgíuprófi gæti aldurinn verið farinn að segja til sín

Ef þú færð mörg stig á þessu nostalgíuprófi gæti aldurinn verið farinn að segja til sín