fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fókus

Hann var kappaksturinn holdi klæddur

Jakob Snævar Ólafsson
Sunnudaginn 1. desember 2024 21:00

Ayrton Senna íklæddur einu af sínum helstu einkennistáknum, gula keppnishjálminum. Mynd: Skjáskot/Youtube

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Síðastliðinn föstudag frumsýndi Netflix leikna þáttaröð í 6 þáttum sem fjallar um Brasilíumanninn Ayrton Senna, einn af bestu kappakstursökuþórum allra tíma. Þótt flestir afreksíþróttamenn leggi oftast allt í sölurnar til að ná á toppinn í sinni íþrótt eru fáir þeirra sem hafa í raun tengst íþrótt sinni jafn sterkum böndum og Senna. Þekktur blaðamaður lýsti Senna þannig að hann keppti í kappakstri og þess vegna væri hann til. Það var eins og kappakstursbrautin beinlínis kallaði á hann. Ævi Senna var full af efniviði í dramatíska kvikmynd eða þáttaröð. Á kappakstursferli hans var nóg af atvikum og afrekum sem rötuðu í sögubækurnar en auk afreka hans einkenndist ævi Senna meðal annars af illdeilum og átökum en ástin var ekki langt undan.

Ayrton Senna. Mynd: Instituo Ayrton Senna – Flickr, CC BY 2.0, Wikimedia Commons

Senna fæddist í São Paulo 1960 og ólst þar upp. Hann byrjaði að keppa í Go-kart kappakstri þegar hann var 13 ára og varð á endanum Suður-Ameríkumeistari og tvisvar vann hann silfrið í heimsmeistarakeppninni. Metnaður Senna stóð hins vegar til þess að keppa á stærri og kraftmeiri kappakstursbílum. Hann vildi komast í þá kappakstursmótaröð sem var og er fremst allra í heiminum, Formúla 1.

Náði settu marki

Senna flutti þess vegna til Englands 1981 og fór að keppa í breskum kappakstursmótaröðum og sigraði í þeim öllum. Nú var hann farinn að vekja verulegan áhuga hjá keppnisliðum Formúlu 1.

Svo fór að hann samdi við lið sem hét Toleman og hóf Senna keppni í Formúlu 1 keppnistímabilið 1984. Bílar Toleman þóttu standa bílum bestu liðanna töluvert að baki og ljóst að við ramman reip yrði að draga fyrir Brasilíumanninn. Hann vakti hins strax athygli fyrir frammistöðu sína ekki síst í keppninni í Mónakó í hellirigningu en þá sýndi Senna yfirburða leikni sína í slíkum aðstæðum og var kominn á fremsta hlunn með að vinna keppnina, áður en hún var stöðvuð.

Frammistaða Senna hjá Toleman varð til þess að hann komst í betri bíl hjá Lotus-liðinu. Hjá Lotus vann hann sínar fyrstu keppnir og varð í fyrsta sinn fremstur í tímatökum, sem ákvarða rásröð ökumanna í sjálfum kappakstrinum.

Tindurinn

Senna var hjá Lotus á árunum 1985-1987. Fyrir keppnistímabilið 1988 færði hann sig yfir til eins af bestu liðum Formúlu 1, McLaren. Það ár vann Senna sinn fyrsta heimsmeistaratitil og bætti síðan tveimur við 1990 og 1991. Fyrir hjá McLaren var franski ökuþórinn Alain Prost sem hafði áður en Senna kom til liðsins unnið tvo heimsmeistaratitla. Þeir áttu eftir að há marga hildi.

Senna í keppnisbíl McLaren í belgíska kappakstrinum 1991. Mynd: George Voudouris – CC BY-SA 4.0, Wikimedia Commons

Senna keppti fyrir McLaren út keppnistímabilið 1993 en færði sig síðan yfir til Williams keppnisliðsins en bílar þess voru þá orðnir þeir bestu í Formúlu 1. Keppnistímabilið 1994 varð hins vegar það síðasta fyrir Senna. Í þriðju keppni ársins sem fram fór á Imola kappakstursbrautinni á Ítalíu brotnaði stýrisstöngin í bíl Senna þegar hann var á 305 kílómetra hraða á klukkustund, rétt áður en hann kom að beygju en beint framundan var veggur. Á tveimur sekúndum náði Senna að lækka hraðann niður í 211 kílómetra hraða á klukkustund áður en hann skall á veggnum. Höggið var slíkt að hann lifði það því miður ekki af.

Ástríðan

Senna var öllum kappakstursheiminum mikill harmdauði enda hafði hinn þrefaldi heimsmeistari sett mikinn svip á Formúlu 1, hátind kappakstursins. Mestur var þó harmur fjölskyldu Senna og brasilísku þjóðarinnar.

Senna fagnar sigri á heimavelli í Brasilíu 1993. Mynd: Instituto Ayrton Senna – Ayrton Senna Interlagos, CC BY 2.0, Wikimedia Commons.

Ástríða Senna fyrir kappakstri þótti birtast mjög vel í akstursstíl hans á brautinni. Hann var mjög ákveðinn ökumaður og keyrði yfirleitt af eins miklum krafti og mögulegt var. Hann þótti útsjónarsamari og næmari en flestir ökuþórar og var með þeim vinnusömustu. Það þótti einnig til marks um hversu góður Senna var að hann stóð öllum keppinautum sínum framar í rigningu eða eins og hann sagði sjálfur:

„Rigningin jafnar leikinn á milli bílanna en ekki ökumannanna.“

Leikni og færni Senna í kappakstursbílnum þótti birtast einna best í því hversu oft hann varð fyrstur í tímatökum í Formúlu 1. Fyrir þau sem ekki vita þá snúast tímatökurnar um að ná að aka einn hring á viðkomandi keppnisbraut á sem skemmstum tíma til að ná að vera sem fremst í rásröðinni í kappakstrinum sjálfum. Tímatökurnar útheimtu mikla leikni og hæfileika til að ná sem mestu út úr bílnum á einum hring. Þegar Senna lést hafði hann orðið oftast allra fyrstur í tímatökum í Formúlu 1, 65 sinnum.

Metið stóð til 2006 þegar Michael Schumacher sló það í sinni 233. tímatöku en alls voru tímatökurnar hjá Senna 165. Lewis Hamilton átti svo eftir að slá þeim báðum við í sinni 200. tilraun 2017 og hefur síðan þá bætt metið töluvert.

Ástríðan gat verið galli

Ástríða Senna og árangurinn sem hún skilaði aflaði honum aðdáenda ekki bara í Brasilíu heldur um heim allan. Hún gat hins vegar verið galli líka. Óseðjandi löngunin til að enda fyrstur í hverri einustu keppni ýtti stundum taktískri hugsun til hliðar. Í sumum keppnum ofgerði Senna bílnum sem endaði með bilun þegar kannski hefði verið mögulegt að aka af aðeins minni krafti og sætta sig þá jafnvel við annað eða þriðja sæti en hann einfaldlega gat ekki annað en gefið allt í hvern kappakstur.

Þetta átti sinn þátt í að sigrar hans í keppnum, alls 41, urðu nokkuð færri en fremstu sætin í rásröðinni.

Ayrton Senna fagnar einum af 41 sigrum sínum í Formúlu 1. Mynd: Skjáskot/Youtube.

Fáir ef nokkrir ökumenn í sögu Formúlu 1 hafa sýnt af sér jafn oft frammistöðu sem hefur verið með þeim hætti að hún er greypt í minni kappakstursáhugamanna. Hér er aðeins hægt að nefna örfá dæmi.

Áður hefur verið minnst á frammistöðuna í hellirigningu í Mónakó 1984. Einnig má minnast á evrópska kappaksturinn, í rigningu, á Donington Park brautinni í Bretlandi, sem var þriðja keppni ársins 1993. Senna var fjórði í rásröðinni, datt niður í fimmta sæti á fyrsta hring en á næsta hring ók hann snarlega fram úr fjórum fremstum bílunum og vann keppnina með yfirburðum.

Einna hæst reis frammistaðan á heimavelli í brasilíska kappakstrinum 1991. Þegar þarna var komið við sögu hafði Senna unnið tvo heimsmeistaratitla en aldrei unnið keppnina í Brasilíu. Senna var í forystu nánast alla keppnina en þegar nokkuð var liðið á hana byrjaði gírkassinn að bila og á endanum virkaði aðeins sjötti gír. Senna þurfti að berjast af öllum kröftum við að halda bílnum á brautinni en um leið keyra nógu hratt til að halda fyrsta sætinu. Það tókst og fögnuðurinn hjá honum og áhorfendum var gríðarlegur. Líkamlega átakið var hins vegar svo mikið að Senna gat vart lyft handleggjunum þegar hann stöðvaði bíl sinn.

Hér má sjá myndband með merkum augnablikum frá keppnisferli Senna.

Þess vegna var hann

Breski blaðamaðurinn Nigel Roebuck hefur skrifað um Formúlu 1 frá áttunda áratugar síðustu aldar. Í bók sinni Chasing the Title frá 1999, sem kom út 2001 í íslenskri þýðingu Ólafs Bjarna Guðnasonar undir titlinum Barist um bikarinn, tileinkaði hann Senna kafla sem bar á íslensku titilinn Ég keppi, þess vegna er ég til.

Senna var einmitt þannig. Roebuck segir að blaðamenn sem skrifuðu um Formúlu 1 hafi skrifað einna mest um Senna af öllum ökuþórum. Það gustaði af honum og fáir ökumenn voru hreinskilnari á blaðamannafundum.

Senna á eftirminnilegri keppnishelgi í Mónakó 1988. Mynd: Skjáskot/Youtube

Senna var trúaður og það var eins og í kappakstrinum kæmist hann í nánari tengsl við eitthvað annað tilverustig. Það var eins og hann væri alltaf að reyna að víkka út mörk hins mögulega í þessari lífshættulegu íþrótt. Eitt besta dæmið um þetta er tímatakan fyrir Mónakó kappaksturinn 1988. Senna var þar fremstur og það með yfirburðum. Þótt hann væri þegar með besta tímann hélt hann stöðugt áfram að bæta sig. Hann sagði um tímatökuna:

„Ég gerði mér skyndilega grein fyrir því að ég var ekki lengur meðvitaður um aksturinn … Ég var í annarri vídd og ég áttaði mig á að ég var kominn fram úr mínum eigin skilningi.“

Illdeilur

Senna var þó ekki fullkominn. Hann gerði mistök, lenti í illdeilum og hagaði sér stundum á vafasaman hátt.

Frægar eru illdeilur hans við áðurnefndan Alain Prost en þeir voru liðsfélagar hjá McLaren árin 1988 og 1989. Síðara árið varð árekstur á milli þeirra í næstsíðustu keppni tímabilsins í Japan sem varð til þess að Prost vann heimsmeistaratitilinn og Senna varð í öðru sæti í stigakeppninni. Áreksturinn varð þegar Senna reyndi að komast fram úr en Prost lokaði á hann. Hann kenndi Prost um slysið en margir með reynslu úr Formúlu 1 sögðu að Senna hefði einfaldlega tekið áhættu og tapað á því.

Árið 1990 var Prost kominn yfir til Ferrari liðsins og aftur varð árekstur milli hans og Senna í Japan en í það skipti þýddi það að sá síðarnefndi varð heimsmeistari.

Senna hafði krafðist þess að ráspólinn, rásstaður ökumanns sem orðið hefði fremstur í tímatökum, yrði færður vinstra megin á brautina þar sem þar var besta aksturslínan til að verða fyrstur í fyrstu beygju eftir ræsingu. Því var neitað og Senna þótti hann vera beittur miklum órétti og lýsti því yfir að hann myndi fara af stað úr rásmarkinu á fullri ferð og ekki gefa neitt eftir þótt Prost, sem var annar í rásröðinni, yrði á undan honum í beygjuna.

Hann stóð við það og keyrði beint í hlið bíl Prost með þeim afleiðingum að þeir voru báðir úr leik á fyrsta hring.

Mörgum þótti hegðun Senna hafa gengið allt of langt. Áðurnefndur Nigel Roebuck sagði í bók sinni þetta vera eitt skammarlegasta atvikið í sögu Formúlu 1. Myndband af því og öðrum atvikum sem upp komu milli þessara skæðu keppinauta má sjá hér og skjáskot af því hér fyrir neðan:

Senna ekur á bíl Prost í Japan 1990. Skjáskot/Youtube

Prost sagði um Senna að hann hefði fundið hjá sér mikla þörf fyrir að gjörsigra hann. Senna færi í raun eftir sínum eigin reglum og hefði ekki áttað sig hreinlega á því að stundum gæti hann haft rangt fyrir sér.

Deilur Senna við Prost fléttuðust inn í deilur hans við Alþjóðaakstursíþróttasambandið, sem hafði yfirumsjón með Formúlu 1, og þó einkum forseta þess, sem var eins og Prost franskur.

Senna sagði fyrst málið snúast um að kappakstursökumenn gætu ekki annað en reynt að nýta sér rými sem væri til staðar til að komast fram úr keppinautum en mörgum þótti það ljóst að rýmið í þessu tilfelli hefði verið allan tímann augljóslega of lítið.

Hann gerði loks upp atvikið í þaula á tilfinningaþrungnum og dramatískum blaðamannafundi eftir kappaksturinn í Japan 1991. Hann sagðist einfaldlega hafa verið þvingaður til að aka með þessum hætti vegna þess óréttlætis sem hann hefði orðið fyrir þegar ráspólinn var ekki færður eins og hann hafði krafist.

Það lýsir kannski Senna ágætlega að eftir að Prost hætti keppni 1993 þá gjörbreyttist viðhorf hans til fjandvinar síns. Hann fór að kalla Prost vin sinn en það var einfaldlega engin þörf lengur til staðar til að beina hinum óþrjótandi metnaði að því að gjörsigra einn helsta keppinautinn.

Óörugg framtíð

Þegar líða tók á feril hins ástríðufulla Senna, sem hafði verið sakaður um vítaverðan akstur, var eins og óöryggi hans hefði farið vaxandi. Hann fór að sýna því aukinn áhuga að öryggiskröfur í Formúlu 1 yrðu hertar. Senna sýndi störfum Sid Watkins vinar síns og yfirlæknis Formúlu 1 sömuleiðis meiri áhuga og nýtti það sem hann lærði af lækninum til að koma öðrum ökumanni sem lent hafði í slysi á æfingu fyrir belgíska kappaksturinn til hjálpar.

Á keppnishelginni örlagaríku á Imola 1994 þegar Ruben Barrichello landi Senna slasaðist illa á æfingu á föstudegi og Austurríkismaðurinn Roland Ratzenberger lést eftir slys í tímatökunum á laugardegi var óöryggi Senna komið í sögulegt hámark. Sid Watkins hvatti hann til að hætta keppni samstundis, hann hefði ekkert jú að sanna lengur eftir þrjá heimsmeistaratitla. Kall kappakstursbrautarinnar var hins vegar enn of hávært og Senna sagðist ekki geta hætt á þessari stundu. Þar með fór sem fór.

Ást þjóðar

Auk þess umdeilda og átakanna í lífi Senna upplifði hann mikla ást ekki síst frá þjóð sinni en það verður vart orðum aukið hversu dáður hann var í Brasilíu. Taugar hans til heimalandsins voru sterkar og þjóðin var afar stolt af honum. Hann gaf einnig háar fjárhæðir til góðgerðarmála í Brasilíu en hélt því lengi vel leyndu. Staða Senna var slík að hann fékk opinbera útför í fullum skrúða brasilíska hersins og um 500.000 manns fylgdu honum til grafar.

Hermenn bera líkkistu Senna. Skjáskot úr heimildamyndinni Senna. Youtube.

Af hverju lifir minningin svo sterkt?

Senna giftist einu sinni en batt enda á hjónabandið þegar hann flutti til Englands til að einbeita sér að kappakstrinum. Önnur ástarsambönd hans entust ekki en hann var í sambandi með löndu sinni Adriane Galisteau þegar hann lést. Senna eignaðist aldrei nein börn.

Senna var almennt lofaður eftir dauða sinn en ekki er hægt að líta fram hjá því að hann var á köflum umdeildur í lifanda lífi. Hvað sem mönnum kann að hafa fundist um hann þá er samt staðreyndin sú að Senna  setti svo mikinn svip á kappakstursíþróttina og var, þegar best lét, nánast íþróttin sjálf holdi klædd. Það er þess vegna sem minning hans lifir enn svo sterkt meðal kappakstursáhugamanna, þetta löngu eftir dauða hans. Ævi hans litaðist af ástum, átökum, afrekum og vafasömum tilburðum. Þess vegna þótti tilefni til að gera þáttaröð um hann og frumsýna hana 30 árum eftir andlátið.

Í kynningu á þeirri þáttaröð segir að Formúla 1 hafi aldrei orðið söm eftir að Senna kom til sögunnar. Það á bæði við um áhrif hans á mótaröðina og að eftir dauðsfallið voru allar öryggiskröfur hertar til muna.

Þegar systir hans Viviane minntist bróður síns fyrr á þessu ári, í tilefni af því að 30 ár voru frá banaslysinu á Imola, sagði hún meðal annars:

„Hann og bíllinn voru eitt.“

Hún minnist helst augnsvips bróður síns sem sjá má mynd af efst í þessari samantekt:

„Þetta var bæði augnsvipur ljúflings og stríðsmanns.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Aftur sektaðir af KSÍ
Fókus
Í gær

Einkaspæjari afhjúpar nýja leið hvernig makar fela framhjáhald – Forrit sem er í öllum iPhone símum og vekur engar grunsemdir

Einkaspæjari afhjúpar nýja leið hvernig makar fela framhjáhald – Forrit sem er í öllum iPhone símum og vekur engar grunsemdir
Fókus
Í gær

Vill að RÚV geri samning við Vesturport

Vill að RÚV geri samning við Vesturport
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sérstæð vinátta ræstingakonu og kolkrabba hefur heillað heimsbyggðina

Sérstæð vinátta ræstingakonu og kolkrabba hefur heillað heimsbyggðina
Fókus
Fyrir 3 dögum

Framkvæmdastjórinn í Paradís flytur sig um set

Framkvæmdastjórinn í Paradís flytur sig um set