fbpx
Miðvikudagur 25.desember 2024
Fókus

Bókaspjall: Merkilegar sannsögur og dýrlegt smásagnasafn

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 9. nóvember 2024 16:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég átta mig ekki á hvort ég fer seint af stað í þessu jólabókaflóði miðað við síðasta haust en staðan er sú þann 8. nóvember að ég er búinn að lesa þrjár nýútkomnar bækur. Þær voru ekki valdar með nein tengsl í huga en tvær þeirra eru þó á vissan hátt nátengdar en um leið eins ólíkar og tvær bækur geta verið.

Bók Rúnars Helga Vignissonar, Þú ringlaði karlmaður, hefur vakið mikla athygli og umtal. Undirtitillinn er „Tilraun til kerfisuppfærsluׅ“ og rekur bókin ferðalag karlmannsvitundar í gegnum lendur femínískrar hugmyndafræði. Þetta er annars vegar saga Rúnars sjálfs þar sem hann mátar sig við karlmennskuhugmyndir fortíðar og nútíðar á hinum ýmsu æviskeiðum og hins vegar fróðlegt og gott yfirlit yfir samtímalega feminíska hugsun enda hefur höfundur unnið heimavinnuna sína og lesið sér til gagns.

Hvatinn til að skrifa bókina var einskonar sjálfsmyndarkreppa sem höfundur glímdi við í metoo-byltingunni en áfellandi reynslusögur kvenna af ofbeldi og yfirgangi karlmanna tók hann til sín persónulega, að einhverju leyti. Bókin orkar á mann sem óvissuferð í gegnum lönd feminískrar hugmyndafræði og sú tilfinning er áleitin hjá lesanda að rannsóknir, lestur og sjálfskoðun höfundar hafi gert hann að meiri femínista en hann var fyrir.

Þú ringlaði karlmaður er í senn ákaflega læsileg bók og þrauthugsað rit. Einn stærsti kostur hennar er sá að hún tekur fyrir á skipulegan og yfirvegaðan hátt áleitin umræðuefni um jafnrétti kynjanna sem oft eru viðfangsefni mjög tætingslegrar umræðu á samfélagsmiðlum. Hún færir þá umræðu upp á hærra plan.

Margslungin eftirköst ofbeldis

Það er vart hægt að hugsa sér ólíkari höfunda en Rúnar Helga Vignisson og Þórdísi Þúfu, höfund sannsögunnar Þín eru sárin. Akademísk hugsun í bland við skáldlegt orðfæri einkenna skrif Rúnars Helga en texti Þórdísar er blátt áfram og jaðrar á köflum við að vera næfur (naív) án þess að það spilli verki hennar hið minnsta.

En viðfangsefni beggja verka tengjast sterkum böndum. Frásögn Þórdísar sprettur af kynferðisbroti sem hún varð fyrir árið 2018. Í kynningu á bókinni hefur hún tekið af öll tvímæli um að verkið sé sannsögulegt. Hins vegar er nöfnum breytt í sögunni, þar á meðal nafni aðalsöguhetjunnar. Mér er ókunnugt um að hve miklu leyti hún tekur sér skáldaleyfi en frásögnin hefur öll á sér yfirbragð sannrar sögu.

Árið 2018 réðst maður á Þórdísi er hún var úti við með 16 mánaða gamla dóttur sína í vagni, skammt frá heimili þeirra, um miðja nótt, og reyndi að nauðga henni. Meðal þess sem árásin hafði í för með sér var að magna upp minningar um nauðgun sem Þórdís varð fyrir sem unglingur.

Lesandinn fylgir aðalpersónunni eftir í hversdagslífi hennar í kjölfar árásarinnar, hún stendur í flutningum, er í góðu og traustu sambandi við barnsföður sinn, sem styður hana í gegnum þessar hremmingar, á í flóknara og erfiðra sambandi við foreldra sína; við sjáum hana í vinnunni, hlutastarfi í nýaldarverslun; hún hitar sér te og matreiðir. Og hún glímir við erfiðar hugsanir og þunga minninganna. Ritstíll Þórdísar er sérkennilegur, virkar stundum barnslega saklaus og smáatriðasamur en með hverri blaðsíðu verður frásögnin meira sannfærandi og áhrifaríkari, uns byggst hefur upp margslungin, mjög persónuleg mynd, af afleiðingum kynbundins ofbeldis. Lesandinn fyllist aðdáun yfir þrautseigju og hugrekki persónunnar við að takast á við afleiðingar ofbeldisins og vinna sig í gegnum hremmingarnar.

Ég sagði að bók Þórdísar væri margslungin og sú tilfinning vex eftir því sem líður á lesturinn og við upplifum meðal annars hvernig ofbeldið hefur litað samskipti hennar við fjölskyldu og nána vini.

Þegar upp er staðið er Þín eru sárin býsna áhrifamikil og sterk saga um mjög áleitið þjóðfélagsvandamál, kynbundið ofbeldi.

Dýrleg skemmtun

Það er vekjandi og forvitnilegt að lesa bækur Rúnars Helga og Þórdísar en þó að einnig megi stimpla smásagnasafnið Krydd lífsins, eftir Einar Örn Gunnarsson, með slíkum merkingum er bókin þó umfram allt skemmtun. Sjaldgæft er að ég hlægi jafn oft upphátt við lestur skáldverka eins og ég gerði við lestur þessara 12 smásagna sem spanna hátt í 300 blaðsíður á bók.

Sögurnar fjalla oftar en ekki um menntað millistéttarfólk, oft búsett í þekktum borgum sem stundum leika áþreifanlegt hluverk í frásögninni. Höfundur sýnir breyskleika mannfólksins í afar spaugilegu ljósi og hann kann þá list að hæðast að persónum og sýna þeim væntumþykju á sama tíma. Þó að húmorinn sé oft býsna napur er hér enga tómhyggjulega kaldhæðni að finna heldur djúpa samkennd með harmrænum örlögum þó að þau séu sýnd í spaugilegu ljósi.

Sögurnar eru mjög hefðbundnar að formi og það sem endurtekur sig í sögu eftir sögu eru óvænt endalok og óvæntar vendingar inni í sögum. Þetta eykur mjög á skemmtigildi verksins, það er gaman að láta koma sér á óvart. Óvæntu vendingarnar og óvæntu endalokin varpa ljósi á þá tilhneigingu okkar mannanna að gefa okkur hvernig hlutirnir æxlist og átta okkur ekki á því hvað tilveran getur verið óútreiknanleg.

Samantekið hefur þetta verið ánægjuleg byrjun á jólabókaflóðinu en næst ætla ég að lesa tvær spennusögur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Gunnar Máni og fjölskylda misstu heimili sitt í Grindavík – Hálfu ári síðar missti hann vinnuna vegna eldsvoðans í Kringlunni

Gunnar Máni og fjölskylda misstu heimili sitt í Grindavík – Hálfu ári síðar missti hann vinnuna vegna eldsvoðans í Kringlunni
Fókus
Fyrir 3 dögum

Blake Lively kærir Baldoni fyrir kynferðislega áreitni á tökustað – Vildi ekki fleiri kynlífsatriði

Blake Lively kærir Baldoni fyrir kynferðislega áreitni á tökustað – Vildi ekki fleiri kynlífsatriði
Fókus
Fyrir 4 dögum

Kolbrún syrgir bróður sinn

Kolbrún syrgir bróður sinn
Fókus
Fyrir 5 dögum

Dennis Rodman með yfirlýsingu eftir að dóttir hans varpaði sprengju

Dennis Rodman með yfirlýsingu eftir að dóttir hans varpaði sprengju
Fókus
Fyrir 5 dögum

Kristín og Árni nýtt stjörnupar

Kristín og Árni nýtt stjörnupar
Fókus
Fyrir 5 dögum

Unnur birti tvær myndir – Önnur tekin fyrir ári síðan og sýnir ótrúlegan mun

Unnur birti tvær myndir – Önnur tekin fyrir ári síðan og sýnir ótrúlegan mun