Ljóðabókin Veður í æðum, eftir Ragnheiði Lárusdóttur, er nýútkomin. Útgefandi er Bjartur. Er þetta fjórða ljóðabók höfundar en Ragnheiður hefur fengið góða dóma fyrir verk sín og hlaut árið 2020 Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir bókina 1900 og eitthvað.
„Bókin er nokkurs konar flétta af ljóðum um fíkn dóttur annars vegar, ásamt þeim vanda sem fylgir að vera móðir sem horfir á eftir efnilegri og velgerðri dóttur í undirheima, og dásemdum lífsins hins vegar. Í miðri bók er svo ljóð um formæður mínar, sem er eins og kjarni bókarinnar. Þannig skiptast á erfið málefni og svo gleðin yfir að vera lifandi manneskja í náttúru og samfélagi. Eins og segir í texta á baksíðu bókarinnar er ljóðmálið beinskeytt og gengur ef til vill nærri sumum en það er þó hægt að anda og slaka á inni á milli,“ segir Ragnheiður í stuttu spjalli við DV.
Fyrri þrjár ljóðabækur Ragnheiðar fylgja síðan með í þessari. Fyrsta bókin 1900 og eitthvað kom út 2020. Sú bók er að stórum hluta bernskuminningar og uppvaxtarsaga. Næsta bók, Glerflísakriður, kom út 2021. Þar yrkir Ragnheiður um Alzheimer-veika móður sína og um erfiðan skilnað sem hún sjálf gekk í gegnum. Þriðja bókin Kona/spendýr er um kvenhlutverkið, hlutverk konu í heimi sem er hannaður af körlum fyrir karla.
Sjá einnig hér.