Ljóð Hlínar Leifsdóttur „Raddbandaharpa“ (e. Harp of Vocal Cords) sem myndsett er af gríska leikstjórunum Alkistis Kafetzi og Maríu Salouvardou sigraði í keppninni “Il Premio Hombres Videopoesia 2024” sem nýlokið er í Pereto á Ítalíu. Í kvikmyndinni með ljóðinu les Hlín sjálf ljóð sitt á íslensku.
180 keppendur frá 21 landi tóku þátt í keppninni. Kvikmyndin var valin besta ljóðkvikmyndin (enska: filmpoetry, videopoetry) en það er sérstakt listform kvikmynda sem eru spunnar út frá ljóðum.
Ljóð Hlínar var jafnframt valið besta ljóðið og tónlistin við myndina var valin besta hljóðrásin. Eru þetta þrjár af fimm viðurkenningum sem veittar eru sem verður að teljast mjög góður árangur, en tvær aðrar kvikmyndir hlutu viðurkenningu, önnur fyrir bestu kvikmyndatökuna og hin fyrir besta kvikmyndaleikinn.
Ljóðmyndin “Harp of Vocal Cords” var upprunalega sýnd á International Video Poetry Festival í Emprosleikhúsinu í Aþenu, við lifandi flutning ljóðskáldsins og tónskáldsins, en þar blandaði Hlín söng saman við flutninginn, en hún starfar sem óperusöngkona í Aþenu. Verkið hlaut frábærar undirtektir áhorfanda.
Myndin var síðan valin til sýningar á Bloomsday Film Festival, sem haldin er á sérstökum degi bókmennta á Írlandi og var hún sýnd í James Joyce Centre í Dublin.
Raddbandaharpa hefst á orðunum:
„Strengdu hörpu úr sundurskornum raddböndum
Sláðu
Leyfðu laginu að blæða fram“
Ljóðið gerir ólgandi fjarveru raddar kvenna í gegnum söguna skil. Kona sem hefur verið svipt rödd sinni endurheimtir hana með að búa til að hörpu úr sundurskornum raddböndunum. Hún heitir að hætta aldrei að spila, þótt blæði úr fingurgómunum, svo ólgandi þöggunin sem býr milli tónanna nái ekki að brjótast fram aftur úr skjóli kúgunarafla aldanna. Þegar háir tónar kvenraddarinnar, sem hefur verið úthýst um aldir, berast frá hörpunni megna þeir ekki aðeins að brjóta gler (eins og goðsögnin segir að sópranröddinni sé fært), heldur sjálft glerþakið. Það reynist vera sjálfur himininn og óskastjörnur hrapa til jarðarinnar fullar af ókönnuðum möguleikum.
Tónlistin í myndinni er samin af gríska tónskáldinu Vasilis Chountas (betur þekktur undir listamannsnöfnunum Whodoes og Morton). Hún var fyrst gefin út sem tónaljóð (e. spoken word) á plötunni Andrými á vegum dúettsins “Hlín Leifsdóttir & Morton.” Útgefandi plötunnar er Institute for Experimental Arts í Aþenu. Í heimi þar sem menn hafa áhyggjur af stöðu ljóðsins og íslenskunnar kynni einhverjum að koma á óvart að árið 2023 var þetta tónaljóð dúettsins sem einnig heyrist í kvikmyndinni, flutt á íslensku, valið eitt af bestu nýju tónlistinni í Grikklandi að mati þarlends tónlistartímarits að nafni Lung fanzine og gefið út á hljómdisk á vegum blaðsins. Hljómur íslenskrar tungu er tónskáldinu hugleikinn og var honum sérstakur innblástur ásamt ljóðinu.
Kvikmyndina og ljóð Hlínar lesið af henni sjálfri við myndræna túlkun Alkistis Kafetzi og Maria Salouvardou (sem einnig er leikkona myndarinnar) og tónræna túlkun Vasilis Chountas (Whodoes/Morton) má finna hér.
Hlín Leifsdóttir hefur búið á Grikklandi undanfarin ár og lagt jöfnum höndum stund á söng og ritstörf. Hefur hún hlotið margskonar viðurkenningu fyrir söng sinn í Grikklandi og víðar.