fbpx
Mánudagur 04.nóvember 2024
Fókus

Frægt fólk í framboði – Skrautfjaðrir eða þarfir þegnar?

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 3. nóvember 2024 10:30

Glás af frægu fólki á framboðslistum.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eins og gefur að skilja má finna fjölbreytta flóru fólks á framboðslistum til alþingiskosninga. Þar á meðal fólk sem er þekkt fyrir allt annað en þátttöku í stjórnmálum. Sjaldan eða aldrei hafa verið fleiri þjóðþekktir einstaklingar á listunum eins og nú. DV leit yfir sviðið.

Brynja Dan skellir sér í landsmálin. Mynd/Garðabær

Framsóknarflokkurinn

Mikla athygli vakti þegar orkumálastjórinn Halla Hrund Logadóttir (1 S) tók að sér að leiða lista Framsóknarmanna en hún náði góðum árangri í sumar í forsetakosningunum. Á sama lista má finna palestínsku athafnakonuna Fida Abu Libdeh (4 S) og Geir Jón Þórisson (8 S) lögreglustjóra úr búsáhaldabyltingunni, en hann sat áður sem varaþingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Framsóknarmenn tefla einnig fram lagahöfundinum, umboðsmanninum og hlaðvarpsstjórnandanum Einari Bárðarsyni (2 RS) ofarlega á lista sem og áhrifavaldinum Brynju Dan Gunnarsdóttur (3 RN).

En stjörnufansinum er þar með ekki lokið. Neðar má meðal annars finna leikkonuna Svandísi Dóru Einarsdóttur (6 SV) sem sló rækilega í gegn í þáttunum Afturelding sem og leikstjórann Friðrik Þór Friðriksson.

Brandur með Guðna forseta. Mynd/Forseti Íslands

Samfylkingin

Engu minni stjörnur skipa lista hjá Samfylkingunni. Helst ber að nefna landlækninn Ölmu D. Möller (1 SV) og lögreglumanninn Víði Reynisson (1 S) sem voru daglega á skjám landsmanna á meðan covid faraldrinum stóð.

Samfylking teflir einnig fram Kristjáni Þórði Snæbjarnarsyni (3 RS) sem hefur stýrt Rafiðnaðarsambandinu og um tíma Alþýðusambandinu við góðan róm og Guðmundi Inga Þóroddssyni sem hefur barist fyrir réttindum fanga í Afstöðu.

Þórður Snær Júlíusson (3 RN) fyrrverandi ritstjóri Kjarnans og Heimildarinnar er á lista. Einnig Vanda Sigurgeirsdóttir, fyrrverandi formaður KSÍ.

Tónlistarmaðurinn Sverrir Bergmann Magnússon (3 S) sem söng lag Bon Jovi svo eftirminnilega um árið er mættur í landsmálin eins og annar tónlistarmaður, Birgir Þórarinsson (6 RS) sem betur er þekktur sem Biggi Veira, plötusnúður danssveitarinnar Gus Gus.

Þá má ekki gleyma listamanninum og ofurhuganum Brandi Bryndísarsyni Karlssyni (9 RN) sem barist hefur fyrir réttindum fatlaðra.

Sesar A, representar aðeins það feitasta.

Sósíalistaflokkurinn

Sósíalistar náðu ekki inn manni á þing í sínum fyrstu kosningum en vilja bæta úr því núna. Meðal annars með því að stilla upp þekktu fólki á lista. Í oddvitasætum má sjá séra Davíð Þór Jónsson (1 SV), fyrrverandi leikara, ritstjóra, útvarpsmann og grínista úr Radíusbræðrum. Einnig Guðmund Hrafn Arngrímsson (1 NV) hinn skelegga og drífandi formann Leigjendasamtakanna.

Á listum Sósíalista má einnig finna fræga bræður. Það eru rappararnir Erpur Þórólfur (10 SV) og Eyjólfur Bergur Eyvindarsynir (10 RN). En betur eru þeir þekktir sem Blaz Rocha og Sesar A.

Uppljóstrarinn Bára Halldórsdóttir (9 RS) er á lista, sem er kannski áhyggjuefni fyrir Klausturkarlanna hjá Miðflokknum, sem eru allir mættir aftur.

Sólborg Guðbrandsdóttir er á lista.

Viðreisn

Jón Gnarr (2 RS), fyrrverandi borgarstjóri og forsetaframbjóðandi, er kannski ekki óþekkt stærð í pólitík en hann er þó ólíkindatól og fyrst og fremst þekktur fyrir feril sinn sem leikari og grínisti. Gnarr er á meðal fjölmargra þekktra sem finnast á listum Viðreisnar í Reykjavík

Þar má finna áhrifavaldana Berglindi Guðmundsdóttur (14 RN) og Sólborgu Guðbrandsdóttur (16 RN) en hin síðarnefnda er dóttir Guðbrands Einarssonar þingmanns flokksins.

Grímur Grímsson (3 RN), þekktasti lögreglumaður landsins er á lista sem og einn frægasti læknirinn, Ragnar Freyr Ingvarsson (10 RS), sjálfur læknirinn í eldhúsinu. Einnig Aðalsteinn Leifsson (3 RS) fyrrverandi ríkissáttasemjari sem háði harð rimmu við Sólveigu Önnu Jónsdóttur í Eflingu, sem einmitt er á lista hjá Sósíalistaflokknum.

Árni er þekktur spéfugl úr hlaðvarpinu Hismið. Mynd/Valli

Sjálfstæðisflokkurinn

Á listum Sjálfstæðisflokksins má finna nokkuð af fólki úr íþróttaheiminum. Meðal annars kylfinginn Birgi Leif Hafþórsson (15 SV) og kraftlyftingamanninn Júlían Jóhann Karl Jóhannsson (13 RS), en hinn síðarnefndi var valinn íþróttamaður ársins árið 2019. Tómas Þór Þórðarson (5 RS) íþróttafréttamaður er einnig á lista.

Sjálfstæðisflokkurinn er þó ekki alveg menningarsnauður því á lista má einnig finna nafn Árna Helgasonar (6 SV), lögmanns og annars helmings hlaðvarpsins vinsæla Hismisins.

Fjölnir Sæmundsson berst fyrir löggurnar. Mynd/Ernir

Vinstri græn

Vinstri græn eru kannski í útrýmingarhættu samkvæmt skoðanakönnunum en þar á bæ er ávallt glás af frægu fólki á framboðslistum. Séra Sindri Geir Óskarsson (1 NA) á Akureyri leiðir lista VG fyrir norðan.

Sunnan lands má finna nöfn veðurfræðingsins Elínar Bjarkar Jónasdóttur (7 RN), læknisins Sveins Rúnars Haukssonar (4 RN) og menningarblaðamannsins Árna Matthíassonar (20 SV).

Einnig þekkts fólks úr kjarabaráttunni eins og Fjölnis Sæmundssonar (6 SV), formanns Landssambands lögreglumanna, og Þuríðar Hörpu Sigurðardóttur (10 RN), fyrrverandi formanns ÖBÍ.

Ugla Stefanía vill á þing.

Píratar

Pírata skortir vanalega ekki frægt fólk á framboðslista. Í ár leiða Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir (1 NV), trans baráttu kona, og Týr Þórarinsson (1 S), áður þekktur sem Mummi í Mótorsmiðjunni, framboðslista á landsbyggðinni.

Viktor Traustason (3 NA) sem heillaði þjóðina í forsetakosningunum í sumar er á lista sem og Hörður Torfason (28 SV), baráttumaður fyrir réttindum hinsegin fólks og skipuleggjandi búsáhaldabyltingarinnar.

Björn Þorláksson blaðamaður.

Flokkur fólksins

Það kom mörgum á óvart þegar opinberað var að Ragnar Þór Ingólfsson (1 RN), formaður VR, myndi leiða lista Flokks fólksins. Hann var þó áður oddviti Dögunar í Suðvesturkjördæmi árið 2016, og ekki munaði mjög miklu að hann kæmist þá inn á þing.

Á sama lista má finna blaðamanninn og rithöfundinn Björn Þorláksson (3 RN). Í Suðurkjördæmi er Sigurður Helgi Pálmason (2 S), safnari, sem hefur slegið í gegn í þáttunum Fyrir alla muni á RÚV ásamt Viktoríu Hermannsdóttur.

Sundmaðurinn Anton Sveinn. Skjáskot/Youtube

Miðflokkurinn

Snorri Másson (1 RS) leiðir lista Miðflokksins í Reykjavík. Í borginni má einnig sjá Jón Sigurðsson (9 RN), „Fimmhundruðkallinn“ úr Idol stjörnuleit. Þá gekk sundmaðurinn Anton Sveinn McKee (4 SV) nýlega til liðs við flokkinn.

Guðmundur Emil er á lista Lýðræðisflokksins. Skjáskot/Youtube

Lýðræðisflokkurinn

Enginn annar en Geir Ólafsson (11 RN), stórsöngvari, prýðir lista Lýðræðisflokksins. Einnig áhrifavaldurinn og einkaþjálfarinn Guðmundur Emil Jóhannsson (8 RS) og Hildur Þórðardóttir (2 RN), sem bauð sig fram til forseta árið 2016.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 dögum

Netflix-serían sem er sögð vera bara fyrir fólk með háa greindarvísitölu

Netflix-serían sem er sögð vera bara fyrir fólk með háa greindarvísitölu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Þorvaldur missti föður og tengdaföður með nokkurra mánaða millibili – „Ekki enn búinn að ná að fara í gegnum sorgina almennilega“

Þorvaldur missti föður og tengdaföður með nokkurra mánaða millibili – „Ekki enn búinn að ná að fara í gegnum sorgina almennilega“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Uppnám varð þegar stórstjarnan mætti í eigin tvífarakeppni

Uppnám varð þegar stórstjarnan mætti í eigin tvífarakeppni
Fókus
Fyrir 5 dögum

Segja dönsku drottninguna hafa tárast þegar konungurinn daðraði við Þórdísi – „Hún er mjög svo týpan hans“

Segja dönsku drottninguna hafa tárast þegar konungurinn daðraði við Þórdísi – „Hún er mjög svo týpan hans“