fbpx
Þriðjudagur 21.janúar 2025
Fókus

Aron um áfallið sem breytti lífi hans – „Það er svo vont að vera þessi gaur sem er að burðast með allan heiminn“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Fimmtudaginn 28. nóvember 2024 11:59

Aron Mímir Gylfason er gestur vikunnar í Fókus.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Aron Mímir Gylfason er gestur vikunnar í Fókus, spjallþætti DV. Hann er annar helmingur vinsæla hlaðvarpsins Götustrákar.

Aron hefur alltaf verið opinn um sína fortíð og hvernig hann gekk í gegnum dimma dali til að komast á þann stað sem hann er í dag.

„Maður verður að taka sér eins og maður er. Maður er búinn að vinna fullt í sér og gera fullt af hlutum til að vera frjáls frá þessu,“ segir Aron og bætir við að hann segi sína sögu í von um að geta hjálpað einhverjum.

Hægt er að horfa á þáttinn hér að neðan eða hlusta á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsveitum.

video
play-sharp-fill

Í þættinum ræðir Aron um æskuna, upphaf neyslunnar og vítahringinn sem hann festist í mörg ár. Þegar hann var tvítugur átti hann von á barni og var spenntur fyrir  föðurhlutverkinu. Barnið fæddist andvana eftir tuttugustu viku og var það mikið áfall. Í kjölfarið fór hann að deyfa sig með áfengi og fíkniefnum og við tók fjögurra ára dagneysla.

Honum tókst síðar að vera edrú en örlagrík ferð til Tenerife varð til þess að hann féll að nýju. Í þættinum ræðir hann um dópsenuna á Tenerife, steranotkun ungra drengja á Íslandi og hvernig allt breyttist eftir að hann sótti sér sálfræðiaðstoðar og vann í sínum málum.

Í dag leikur lífið við Aron sem mun fagna þriggja ára edrúafmæli í desember og á von á barni í janúar með kærustu sinni.

Aron Mímir Gylfason.

Missti áhuga á skóla

Aron bjó í Breiðholti fyrstu árin og flutti síðan í Grafarvoginn. Hann segir æskuna hafa verið venjulega og að heimilislífið hafi verið gott.

„Seinna meir var ég alltaf að athuga hvað ég kæmist upp með,“ segir hann. Um ellefu, tólf ára aldurinn missti hann áhuga á skólanum.

„Ég hafði engan áhuga á þessu, sama hvað mamma reyndi. Tölvan fór að taka yfir og ég fór að einangra mig og hætti að mæta í skólann. Ég lenti í einhverju einelti líka þegar ég var átta til tíu ára og það hafði mikil áhrif á mig. Ég var feiminn fyrir og mikið inni í mér. Ég man ég þurfti að ráðast á einhvern svo það myndi stoppa.“

Aron Mímir Gylfason.

„Ég var oft mjög reiður“

Í menntaskóla kynntist Aron fólki sem var að nota kannabis og amfetamín og byrjaði sjálfur að prófa sig áfram.

„Ég var oft mjög reiður, mér leið illa. Ég fann að mig langaði að deyfa eitthvað, frá því að ég drakk í fyrsta skipti þá fann ég eitthvað frelsi. Mér leið ótrúlega vel, ég þorði að haga mér eins og ég vildi. Ég var ekki svona feiminn lengur. Það voru ótrúlegir hlutir sem gerðust þegar ég drakk í fyrsta skipti, eitthvað magnað,“ segir hann og rifjar upp þegar hann hringdi í vini sína og spurði hvort þeim hafi ekki þótt þetta jafn sturlað, sem þeim þótti ekki.

Í dag sér hann að þarna var hann farinn að sýna skýr merki um alkóhólisma. „Fyrst var þetta gaman en mjög fljótt hafði þetta mikil áhrif á líf mitt og þeirra í kringum mig. Ég fór kannski út á fimmtudegi og kom heim seint á sunnudagskvöldi, átján ára gamall,“ segir hann.

„Maður endaði oft í Breiðholtinu í einhverri íbúð þar kannski, maður var þrjá daga samfleytt að drekka og fá sér í nefið og manni fannst þetta ekki vera skrýtið […] Núna, ef ég myndi vita til þess að 18 ára frændi minn hafi verið frá heimilinu í fjóra daga myndi ég vera bara: „Hvað er í gangi? Ætlar enginn að grípa inn í?““

Aron fór að átta sig á því að hann ætti við vandamál að stríða. „Maður áttar sig alveg á því að maður er eitthvað öðruvísi, maður sér það þegar maður er með venjulegu fólki að drekka. Ég þarf alltaf meira og meira, þau eru kannski að drekka einn bjór í 40 mín meðan ég slurka í mig einum á þremur mínútum,“ segir hann.

Örugglega það erfiðasta sem ég hef gengið í gegnum

Neysla Arons versnaði eftir að hann gekk í gegnum áðurnefnda áfallið. „Ég var í öðru sambandi þegar ég var tvítugur, var byrjaður að róa mig niður og drakk miklu minna og var minna að nota efni. Við áttum von á barni en svo kom í ljós að barnið var með klofinn hrygg og vatnshöfuð og hefði ekki átt gott líf,“ segir hann.

Þetta var eftir 20 vikna sónarinn og voru þau bæði orðin spennt fyrir framtíðinni. „Ég var farinn að setja mig í hlutverkið, ímynda mér hvernig lífið yrði, sjá fyrir mér að verða faðir. Það var það versta við það, maður var farinn að sjá fyrir sér þetta fallega fjölskyldulíf og síðan var það tekið frá manni,“ segir hann.

Barnið fæddist andvana. „Þetta hafði mikil áhrif á mig en ég vildi ekki viðurkenna það og deyfði mig með áfengi og fíkniefnum. Ég get ekki ímyndað mér hvernig þetta var fyrir hana, að deyfa sig ekki með neinu og  takast á við tilfinningarnar full-on. Ég hélt að ég væri svo sterkur og mikill töffari að ekkert gæti brotið mig, en þetta var örugglega það erfiðasta sem ég hef gengið í gegnum. Upp frá þessu fór ég í dagneyslu í fjögur ár samfleytt.“

Aron Mímir heldur úti vinsæla hlaðvarpinu Götustrákar ásamt Bjarka Viðarssyni.

Sótti sér aðstoðar

Eftir að Aron varð edrú í seinna skiptið sótti hann sér aðstoðar. „Ég fór í áfallameðferð, EMDR-meðferð. Það hjálpaði mér ótrúlega mikið því ég gat ekki talað um þetta,“ segir hann.

„Í byrjun þessarar edrúmennsku [fyrir um þremur árum] gat ég ekki talað um þetta, ef einhver minntist á þetta fór ég í kerfi. Ég talaði við sálfræðing og hann sagði að þetta hafi verið mikið áfall og ég þurfti að setja mig aftur inn í þessar aðstæður í EMDR-meðferðinni, sem var mjög erfitt en hefði ég ekki gert það þá veit ég ekki hvað… ég var kannski ekki að deyja úr þunglyndi eða eitthvað þannig en þetta hafði alveg mikil áhrif á mig andlega. Þetta rústaði mér alveg að miklu leyti, en að vinna úr þessu og fá hjálp breytti öllu. Ég gat farið að tala um þetta,“ segir hann.

„Ef maður vinnur í áföllunum lærir maður að lifa með þeim, maður hættir að skaða sjálfan sig. Það er svo vont að vera þessi gaur sem er að burðast með allan heiminn.“

Aron hvetur aðra í sömu stöðu að sækja sér aðstoðar og tala við ástvini. „Ég held að þetta hafi bjargað mér mest núna, að byrja að tala um hluti. Það eru töfrar í því,“ segir hann brosandi.

Aron Mímir og Auður Ester eiga von á barni.

Erfitt að kveðja

Aron segir að það sé erfitt að vera hluti af edrúsamfélaginu þar sem margir falla frá á hverju ári.

„Einn vinur okkar, Ólafur Helgi, féll frá fyrir tveimur árum. Við fórum allir vinirnir í jarðarförina og það var mjög erfitt. Maður gleymir aldrei að sjá aðstandendur og fjölskyldu þess sem féll frá með þessum hætti, það situr eftir í manni,“ segir hann.

„Að vera edrú og að vera partur af þessu samfélagi, ég myndi segja að það sé það neikvæðasta við að vera edrú, hvað maður kynnist mörgum sem falla frá og hvað maður heyrir af mörgum sem falla frá, og hvað það eru margir sem láta lífið án þess að gefa því séns,“ segir hann.

„Það er hrikalega sorglegt, það eru sumir sem fá aldrei að upplifa að eignast barn eða eignast kærustu. Það er svo mikið af þessum litlu hlutum sem eru sjálfsagðir í huga margra, en þessir einstaklingar fá aldrei að upplifa það og það er gríðarlega sorglegt. Deyrð án þess að hafa upplifað sanna ást eða eignast barn.“

Um tíma óttaðist Aron hver hans örlög yrðu en nú er framtíðin björt. Í desember mun hann fagna þriggja ára edrúafmæli og í janúar eiga hann og kærasta hans, Auður Ester, von á stúlku og geta þau ekki beðið eftir nýju hlutverki.

Horfðu á þáttinn hér að ofan eða hlustaðu á Spotify.

Fylgdu Aroni á Instagram og smelltu hér til að fylgja Götustrákum og horfa á þættina.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Hannes Hólmsteinn opnar sig um sambúðina í Brasilíu – 47 ára aldursmunur

Hannes Hólmsteinn opnar sig um sambúðina í Brasilíu – 47 ára aldursmunur
Fókus
Í gær

Fékk þær erfiðu fréttir að hann yrði líklega ófrjór eftir meðferðina – „Við fengum einn mánuð til að reyna“

Fékk þær erfiðu fréttir að hann yrði líklega ófrjór eftir meðferðina – „Við fengum einn mánuð til að reyna“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna
Fókus
Fyrir 2 dögum

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Einn af helstu kvikmyndahöfundum sögunnar og maður sem bjó til ný viðmið í sjónvarpi“

„Einn af helstu kvikmyndahöfundum sögunnar og maður sem bjó til ný viðmið í sjónvarpi“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Það er þjóðarharmur þegar heilt byggðarlag á Íslandi verður fyrir slíkum náttúruhamförum“

„Það er þjóðarharmur þegar heilt byggðarlag á Íslandi verður fyrir slíkum náttúruhamförum“
Hide picture