Anna Karen ræðir um streitu í pistli á Vísi. Hún hefur lokið BA gráðu í félagsráðgjöf og mastersdiplómu í uppeldis- og menntunarfræði, og segist hafa einstakan áhuga á vellíðan einstaklinga.
„Streita er orð sem við heyrum oftar og oftar i og eflaust eru sum okkar komin með nóg af umfjöllunum er varða streitu. Streita er þó orðin stór heilsufarsvandi í samfélaginu okkar. Ég hef af persónulegum ástæðum þurft á síðastliðnu ári kynna mér þetta fyrirbæri betur. Ég er ein af þeim sem hef þörf á að skilja rót vandans til þess að finna viðeigandi lausn. Streita og áhrif hennar hefur því verið þráhyggju viðfangsefnið mitt og haft mikil áhrif á sýn mína á lífið síðustu misseri,“ segir hún.
„Kulnun og streita tóku yfir líf mitt í október 2023. Kulnuntengja flest við sem afleiðingu af of mikilli langvarandi streitu, sem er rétt, en færri tala um streitu í tengslum við líkamleg veikindi. Líkamleg einkenni mín vegna kulnunar hafa verið af margvíslegum toga og ég sem áður þurfti lítið á heilbrigðiskerfinu okkar á að halda til, var nú orðinn stór þjónustuþegi og er enn.“
„Ég hef velt því fyrir mér hversu mikið íslenskir skattgreiðendur hafa greitt fyrir mín veikindi og endurhæfingu. Ég spyr mig einnig að því hvað ætli séu margir sem hafa endað í kulnun eða veikindaleyfi vegna annarra heilsuvandamála sem hefði mögulega verið hægt að koma í veg fyrir. Víða er talað um að áætla megi að yfir helming læknisheimsókna eiga rætur sínar að rekja til skaðlegrar streitu. Það má því gefa sér að afleiðingar streitu taki mikið pláss í heilbrigðiskerfinu og hafi þar með áhrif á biðtíma og biðlista til læknisþjónustu,“ segir hún.
Anna Karen segir að það sé ekki nóg að hafa gott kerfi sem grípur þig þegar allt er komið í skrúfuna. „Flest okkar sækjumst eftir því sama í lífinu, við viljum þak yfir höfuðið, góða heilsu, andlega og líkamlega og síðast en ekki síst viljum við að tekjur okkar dugi til rekstur heimilisins. Þegar aðstæður þjóðfélagsins eru orðnar þannig að verið er að ganga á getu okkar til þessa að standast þessar væntingar, þá má gefa sér það að aukin skaðleg streita mun hafa áhrif á heilsu og líðan okkar allra. Þegar fólk hefur minna á milli handanna þá hafa ekki allir þann munað að geta greitt fyrir heilsubætandi úrræði.“
Hún segir að tekjur heimilisins ættu ekki að stýra aðgengi fólks að mikilvægari heilbrigðisþjónustu og segir aðkomu næstu ríkisstjórnar geta haft gríðarleg áhrif á streitustjórnun heimilanna.
Anna Karen segir að það sé hægt að fækka streituvöldum heimilanna með því að ráðast í verðbólguna og létta greiðslubyrði, og þar með draga úr áhyggjum og streitu. Hún segir að næsta skref sé að tryggja að öllum heilsubrestum verði mætt af heilbrigðiskerfinu, bæði andlegum og líkamlegum.
Hún ræðir nánar um hvað hún vill sjá verða gert og hvern hún vill sjá í ríkisstjórn á næsta kjörtímabili í pistlinum.