Hún er nýjasti viðmælandi hlaðvarpsins Sterk saman.
Aþena ólst upp á tveimur heimilum, foreldrar hennar skildu þegar hún var ung og voru heimilin ólík.
„Ég fékk allt sem ég bað um hjá mömmu. Hún keypti bara kökur og nammi svo ég var orðin þung sem krakki. Það hafði mikil áhrif á mína sjálfsmynd,“ segir hún.
Tólf ára gömul var Aþena farin að þróa með sér átröskun, þrettán ára var hún komin með mikla þráhyggju og farin að sýna mikla áhættuhegðun.
„Ég var tólf, þrettán ára farin að reykja gras og hanga með eldri strákum. Það fór allt hratt niður á við,“ segir hún.
Aþena hætti að mæta í skólann í áttunda bekk því hún sá ekki lengur tilgang með því og var komin í mikla neyslu.
„Ég var mikið að strjúka og Gummi lögga leitaði mikið að mér. Ég var ekki hrædd við neitt og var bara fjórtán ára þegar strákar og menn voru farnir að misnota mig og nauðga mér,“ segir hún.
Á þeim tíma var hún komin í harða neyslu og farin að nota vímuefni í æð. Stuðlar og þau úrræði sem hún var send í höfðu ekki lausnir fyrir þessa miklu fíkn sem hún var í og upplifði hún Stuðla sem geymslu.
Aþena rifjar upp nokkur atvik þar sem eldri strákar og menn nýttu sér bæði aldur og yfirburði til þess að brjóta á henni.
„Ég sagði alltaf bara að þetta væri ekkert mál og hefði engin áhrif á mig, svona væri þetta bara,“ segir hún.
Aþena á tvö ofbeldissambönd að baki. Annað, það fyrra var aðallega andlegt ofbeldi.
Seinna sambandið var hrottalegt, hún segir að hann hafi beitt hana líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi, auk miklu andlegs ofbeldis.
„Ég reyndi einu sinni að kæra hann en hann eftir eitt af þessum stóru atvikum en mamma hans hringdi í mig og sagði að hann vildi heyra í mér úr fangelsinu til að biðja mig afsökunar. Ég féll fyrir því. Hann hótaði mér og fjölskyldunni minni svo ég dró kæruna til baka,“ segir hún.
Aþena segir frá hrottalegu ofbeldi, barsmíðum úti á götu þar sem maður varð vitni en gerði ekkert. Hún var frelsissvipt og pyntuð og segir að ofbeldismaðurinn hafi sagt við hana: „Ég elska að sjá þig þjást.“
Eftir að hún hætti neyslu og varð edrú hélt hún að það væri nóg en vissi ekki að hún þyrfti að vinna úr öllum þessum áföllum, sem kom í bakið á henni. Í dag hefur hún unnið mikla sjálfsvinnu og er á góðum stað.