fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fókus

Skipulögð brotastarfsemi mikið áhyggjuefni

Fókus
Sunnudaginn 24. nóvember 2024 09:00

Grímur Grímsson, lögreglumaður og frambjóðandi

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Texti: Svava Jónsdóttir

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn á rannsóknarsviði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sem er í framboði fyrir Viðreisn í komandi alþingiskosningum og er þar í þriðja sæti, hefur starfað sem lögreglumaður í 37 ár. Það vakti nokkra athygli þegar greint var frá því að Grímur hafði ákveðið að söðla um og skella sér í framboð en í viðtali við DV ræðir hann um æskuna. ástina og ferilinn í lögreglunni og hvað það er sem hann vill berjast fyrir á Alþingi Íslendinga.  Skipulögð glæpastarfsemi er að hans mati ein helsta ógnin við öryggi þjóðarinnar.

Vill hjálpa börnum á glapstigu

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn á rannsóknarsviði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, er í þriðja sæti í Reykjavík norður fyrir Viðreisn í komandi alþingiskosningum og finnst honum vera kominn tími á breytingar á stjórn landsins. Hann segir að flokkarnir sem hafa verið í stjórnarsamstarfi undanfarin sjö ár hafi ekki náð að vinna almennilega saman vegna þess hve ólíkir þeir eru og þykir það vera tilraun til stjórnarsamstarfs þar sem litrófið er frá vinstri til hægri. Hann bendir á mikinn ágreining varðandi ólíkar stefnur.

Og Grími eru ákveðin málefni hugleikin. Hann hefur unnið hjá lögreglunni í 37 ár og á undanförnum árum hefur hann stjórnað rannsóknum hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þar sem hann ber ábyrgð á rannsóknum á skipulagðri brotastarfsemi og liggur áhugi hans á öryggismálum almennt svo sem löggæslu, tollgæslu og landhelgisgæslu.

Eitt af því sem tengist öryggismálum eru afbrot barna og hefur hann haft áhuga á því að það væri hægt að taka betur utan um börn þannig að þau myndu síður brjóta af sér. Hann segir að meðal annars þess vegna hafi hann farið að horfa til þess að geta kannski boðið sig fram til Alþingis til þess að geta beitt sér þar.

„Fyrir utan að hafa verið kjósandi Viðreisnar tel ég að stefna flokksins sem lítur til dæmis að geðheilbrigði og geðheilbrigði barna passi saman við þennan áhuga sem ég hef á löggæslu og öryggismálum og þar með líka geðheilbrigði, heilbrigði og utanumhaldi um börn. Ég held að við Íslendingar hugsum fallega til barna; við viljum að börn hafi það gott en þau hafa það ekki öll gott og oft er það þannig að börn enda á glapstigu eða lenda úti á jaðrinum. Það eru einhver áföll að baki og áföllin geta verið margvísleg. Það getur til dæmis verið neysla á heimili eða missir foreldris en þá finnst mér að þjóðfélagið þurfi að reyna að samtvinna aðgerðirnar þannig að hægt sé að hjálpa viðkomandi barni til þess að það verði nýtur þjóðfélagsþegn svo maður sé hátíðlegur. En það er þá til hagsbóta fyrir barnið, einstaklinginn og samfélagið.“

Grímur nefnir að það vanti fjármagn í löggæsluna. Hann segir að þegar talað sé um að auka útgjöld sé nauðsynlegt að átta sig á því hvort hægt sé að spara eitthvað á móti eða hvort auka eigi tekjurnar með einhverjum hætti. Hann bendir á að Viðreisn leggi mikla áherslu á nauðsyn þess að vera ábyrg þegar ákveðið er að setja fjármuni í eitthvað málefni og að byrja þurfi á því að takast á við ríkisfjármálin og verðbólguna.

Varðandi fangelsismál nefnir hann að taka þurfi á og skoða málefni þeirra sem taka út refsingu en eru ennþá hættulegir þegar henni lýkur.

Skipulögð brotastarfsemi hefur aukist

Grímur segir eitt framboð til Alþingis nú hafa nefnt loforð um 200 nýja lögreglumenn.

„Það kemur verulega á óvart að einhver sé að lofa slíku vegna þess að slíkt er dýrt. Hins vegar held ég að það væri ekkert óraunhæft að bæta við 200 lögreglumönnum við íslensku

lögregluna. En það þarf að gerast í einhverjum fasa. Ég er ekkert endilega að segja að þeir sem eru að lofa 200 nýjum lögreglumönnum séu að segja að það eigi að gerast á stuttum tíma

vegna þess að við þurfum að mennta fólk og koma fólki á þann stað að við getum fjölgað í lögreglunni.“ Þá segir Grímur að það sé nauðsynlegt að greina vel hver núverandi þörf er hvað varðar fjölda lögreglumanna en renna ekki blint í sjóinn með tölu.

Hann segir að varðandi lögregluna þá þætti sér áhugavert að fara í einhvers konar aðgerð þar sem væri reynt að horfa til þess hvað það er sem lögreglan á að gera. „Er eitthvað sem hún getur hætt að gera, er eitthvað sem hún getur gert öðruvísi og getur tæknin hjálpað okkur á einhverjum stað þannig að við getum lagað ferla eftir atvikum, tekið upp nýja ferla og fengið aukna fjármuni inn í lögregluna þannig að þetta væri einhvern veginn blönduð leið? En ég ítreka að til þess að við getum verið á þeim stað að fara að hugsa um einhverja svona aukningu á útgjöldum þá þurfum við að ná fyrst tökum á stöðunni eins og hún er í dag.“

Hvað segir yfirlögregluþjónninn um útlendinga og landamærin í breyttum heimi – hann sem hefur undanfarin ár stýrt rannsóknum á skipulagðri brotastarfsemi?

Grímur segir að einn fylgifiskur mikillar aukningar fólks af erlendum uppruna hér á landi sé að hluti þeirri stundi afbrot. Hann tekur fram að það sé fjarri því að slíkt sé algengt á meðal innflytjenda og bendir á að margir afbrotamenn séu fæddir og uppaldir hér á landi.

Grímur segir að það væri þess virði að reyna að greina vel bakgrunn þeirra sem hingað flytjast svo draga megi úr því að fólk komi hingað til lands í þeim eina tilgangi að stunda hér afbrot.

Hann segir að í sumum tilfellum séu afbrotamenn ekki einu sinni á Íslandi þegar kemur að skipulagðri glæpastarfsemi gagnvart Íslendingum. Hann bendir á að þeir sem eru í netbrotum séu jafnvel í öðrum löndum. „Þetta er vandi við skipulagða brotastarfsemi.“

Neytandinn verður svolítið kærulaus

Grímur segir að eitt af því sem togar hann að Viðreisn sé Evrópusambandsstefna flokksins og að hann sé lengi búinn að vera þeirrar skoðunar að Íslendingar eigi að klára aðildarviðræður við Evrópusambandið og síðan kjósa um það hvort við viljum ganga inn í sambandið.

Hann talar um efnahagsmálin og segir að það blasi við að næsta ríkisstjórn verði að halda áfram að takast á við verðbólgu. „Við verðum að komast á þann stað að hér lækki vextir. Það tengist inn í húsnæðismál þannig að það þarf að byggja meira. Við erum alltaf með einhvern vanda í húsnæðiskerfinu og þessi vandi birtist til dæmis í mjög háu leiguverði sem er auðvitað tengt háu íbúðarverði. Og hátt íbúðarverð tengist því að það hefur ekki verið byggt nógu mikið. Sumir kvarta undan lóðaskorti og fyrst og síðast er það fjármagnskostnaður sem gerir það að verkum að það er lítið byggt og þetta hefur áhrif víða inn í samfélagið. Það hefur auðvitað áhrif á fólk og við finnum það varðandi matarkörfuna en vörur hækka nánast daglega. Þetta er kannski partur af Evrópuumræðunni en ef við myndum ganga í Evrópusambandið myndum við væntanlega stefna að því að taka upp evru. Við hjónin bjuggum í nokkur ár í Hollandi þegar ég vann fyrir Europol og ég tók eftir því að maður borgaði lengi það sama fyrir vöruna. Hérna veit maður varla hvað varan kostar; neytandinn verður kannski svolítið kærulaus í þessu ástandi.“

Grímur segir að skipulögð brotastarfsemi sé sívaxandi og bæði Europol og lögregluyfirvöld á Íslandi lýsi skipulagðri brotastarfsemi sem helstu ógn við öryggi samfélagsins.

Þurfa að læra íslensku

Hælisleitendum á Íslandi hefur fjölgað mikið á undanförnum árum þótt dregið hafi úr fjölda þeirra sem hér óska eftir vernd á þessu ári. Fjöldi fólks frá Venesúela sem hingað hefur leitað hefur dregist mjög mikið saman.

Grímur segir að að sínu mati tengist vandinn því að það taki of langan tíma að vinna í málum þeirra sem hingað leita og að viðkomandi séu jafnvel komin með tengsl við landið og að þá sé erfiðara að senda viðkomandi í burtu. Viðkomandi einstaklingur eða fjölskylda séu búin að vera hérna í tvö til þrjú ár og börn jafnvel fædd eða komin í skóla og farin að mynda tengsl. Hann segir að það skipti máli þegar fólk óskar eftir vernd að mál þess sé unnið hratt.

„Sumar þjóðir eru með kerfi þar sem hægt er að komast fljótlega að þeirri niðurstöðu að viðkomandi eigi ekki rétt á vernd og þá er hægt að klára málið hratt.“

Fjölskyldusameining ber á góma og segir Grímur að þegar um slíkt er að ræða verði að gæta þess að viðkomandi séu raunverulega úr fjölskyldum þeirra sem komið hafa til landsins og óska eftir slíku.

Hann bendir á að þar sem tugþúsundir hafa komið til landsins á tiltölulega fáum árum – bæði fólk sem má koma, það er fólk af Schengen-svæðinu, og fólk sem óskar eftir vernd – þá þurfi að skoða það að innviðir ráði við þann fjölda sem hingað leitar þannig að vel sé tekið á móti þeim sem hingað koma. Þá skiptir máli samfélagsins vegna að fólk aðlagist og að einstaklingurinn njóti þess að vera hérna og verði nýtur þjóðfélagsþegn. „Og það skiptir máli að hann læri íslensku. Við eigum að leggja áherslu á það að fólk sem sest hér að geti talað íslensku. Við erum þjóð sem er mjög fljót að grípa til enskunnar þegar við tölum við útlendinga en við eigum að reyna að hjálpa fólki til þess að bæði læra hana formlega og hafa þolinmæði til að hlusta á og tala við fólk á íslensku þó það sé ekki jafnlipurt í málinu og við hin sem erum hér uppalin.“

Köttur og mús

Grímur ólst upp í Kleppssholtinu, sá fimmti í sjö systkina hópi. Faðir hans var íslenskufræðingur og móðir hans kennari. Ein systir hans er Vigdís rithöfundur.

Hver er fyrsta æskuminningin?

„Maður er orðinn svo gamall; eins og öðrum gömlum körlum finnst mér alltaf hafa verið sól og sumar þegar ég var lítill en ég held að fyrsta æskuminningin sé bóklestur með mömmu þegar ég var fjögurra eða fimm ára. Hún var að lesa fyrir mig bók sem hét Köttur og mús.“

Útileikir voru í uppáhaldi og var farið niður í Sundahöfn, fótbolti spilaður í Laugardal og það var hjólað um hverfið.

Hverjar voru hugmyndir hans um heiminn á þessum tíma?

„Ég hef stundum haft gaman af því að rifja þetta upp en þegar ég var fimm eða sex ára fóru foreldrar mínir eitthvert á bílnum og ég hljóp á eftir þeim og ætlaði að ná þeim. Ég hljóp alla leiðina niður í Borgartún. Ég vissi ekki hvert ég væri kominn. Ég var einhvern veginn kominn út fyrir endimörk veraldarinnar. Svo labbaði ég heim af því ég var löngu búinn að missa af þeim.“

Árin liðu og það tognaði úr stráknum sem æfði körfubolta og fór stundum í sund með félögum sínum. Heima fyrir las hann stundum spennusögur svo sem bækur um félagana Frank og Jóa.

Hann dreymdi sem strákur um að verða dýralæknir og á unglingsárunum hlustaði hann á þá tónlist sem þá var vinsæl svo sem hljósveitirnar Slade og Human League.

Hvernig unglingur var hann? „Ég held ég hafi verið þannig að ég hafi reynt að láta lítið fyrir mér fara.“

Hlédrægur?

„Já, kannski. Ég hef verið í mínu án þess að það hafi verið tekið mikið eftir því. Ég er ekki endilega að segja að ég hafi alltaf verið að gera það sem ég átti að vera að gera en mér tókst að fela það bærilega.“

Hann fór á náttúrufræðibraut í Menntaskólanum við Sund og dreymdi enn um að verða dýralæknir. Hann útskrifaðist sem stúdent árið 1982 og sótti í kjölfarið einu sinni eða tvisvar um inngöngu í dýralæknanám í Danmörku en komst ekki inn.

Það var á þessum tíma, þegar Grímur var 21 árs, sem hann kynntist eiginkonu sinni og eiga þau þrjú uppkomin börn og sex barnabörn á aldrinum fimm mánaða til 13 ára.

Hvað er ástin? Er hún fiðrildi í maganum eða eitthvað meira en það?

„Það er miklu dýpra. Það er fiðrildi í maganum þegar fólk byrjar að vera saman, byrjar að skjóta sér saman, og síðan er þetta það að vera svo heppinn að hitta á aðila sem maður vill eyða ævinni með. Maður þarf þá að geta eytt öllum tímanum með viðkomandi; maður þarf að geta talað saman, maður þarf að geta þagað saman og maður þarf að geta tekist saman á við

það sem kemur upp. Sem betur fer höfum við verið mjög gæfusöm og ekki þurft að takast á við stórkostleg mál í fjölskyldunni en við höfum verið samstíga í því þegar við höfum þurft að gera það. Við erum búin að vera saman í 42 ár en það gerist ekki öðruvísi en að fólk vilji bæði vera saman og leggi svolítið á sig til þess að sambandið sé gott.“

Hann segir að það hafi verið frábært að verða faðir en hjónin eiga tvo syni og eina dóttur. Lögreglumaðurinn er spurður hvort hann hafi passað börnin sín sérstaklega varðandi hinar ýmsu hættur heimsins. „Ég talaði alveg við þau um það en það var ekki þannig að þau væru ofvernduð. Það var alls ekki þannig. Ég hef hins vegar heyrt í lögreglumönnum sem hafa sagt mér að börnin þeirra hafi liðið fyrir það að vera börn lögreglumanna en ég held að það hafi ekki verið með mín börn. Allavega hafa þau ekki talað um það.“

Reynslubolti í lögreglunni

Grímur vann ýmis störf eftir útskrift úr MS og reyndi fyrir sér í háskólanámi en hvarf frá námi án þess að ljúka prófi. Hann fékk sumarstarf hjá lögreglunni í Reykjavík 1987. Og þá var leiðin fljótlega ákvörðuð.

„Þetta var eitthvað sem hafði blundað í mér að gera; að fara í lögregluna og jafnvel að gera það að ævistarfi. Mér fannst strax mjög gaman að vera í lögreglunni. Ég lenti á tiltölulega lítilli vakt í umferðardeild lögreglustjórans í Reykjavík sem þá var og ákaflega góðir félagar sem þar voru sem eru enn félagar og góðir vinir mínir í dag. Mér leið vel í þessum félagsskap. Mér leið vel í þessum störfum og ákvað að leggja þetta fyrir mig.“

Grímur lauk námi frá Lögregluskóla ríkisins 1989. Hann vann í umferðardeildinni í fjögur ár. Þá flutti fjölskyldan til Ísafjarðar þar sem hann var lögreglumaður á árunum 1991 til ársloka 1997. Síðan starfaði hann sem lögreglumaður í Reykjavík til ársins 2004 en þá sótti hann um starf í efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra og vann þar í fjögur ár. Á þessum tíma stundaði hann með vinnu viðskiptafræðinám við Háskólann í Reykavík og eftir útskrift vann hann í eitt ár hjá endurskoðunarfyrirtæki og hóf svo aftur störf hjá lögreglunni árið 2008 og vann þá hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Hann vann eftir það hjá sérstökum saksóknara.

Eftir það vann hann í nokkra mánuði hjá héraðssaksóknara þangað til hann fór aftur til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og tók þá við deild varðandi skipulagða brotastarfsemi og alvarleg brot. Íslenska lögreglan er alltaf með einn fulltrúa hjá Europol og var Grímur sá fulltrúi á árunum 2018-2021. Eftir það fór hann í núverandi starf sem yfirlögregluþjónn á rannsóknarsviði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Inn á borð þeirrar deildar kemur skipulögð brotastarfsemi, manndráp, kynferðisbrot, mansalsmál og fjármunabrot og svo má nefna að undir því sviði er öll stoðþjónusta við rannsóknir svo sem tæknideild, tölvurannsóknardeild og rafeindadeild svokölluð en þessar síðastnefndu deildir hafa svokallað landsvísuumboð og fara til dæmis starfsmenn tæknideildar út um allt land ef þarf hvort sem það tengist til dæmis bruna, alvarlegum umferðarslysum eða manndrápsmálum.

Grímur segir að einn fylgifiskur mikillar aukningar fólks af erlendum uppruna hér á landi sé að hluti þeirri stundi afbrot. Hann tekur fram að það sé fjarri því að slíkt sé algengt á meðal innflytjenda og bendir á að margir afbrotamenn séu fæddir og uppaldir hér á landi.

„Ef við tölum almennt um þessi mál að þá er það þannig að ég hef auðvitað tekið það að mér að vera í samskiptum við fjölmiðla þegar þessi mál hafa komið upp og það má ekki gleyma því að oft og tíðum erum við að óska aðstoðar almennings; sum mál sem hafa komið upp hafa verið með þeim hætti og þess vegna hefur maður kannski undir slíkum kringumstæðum sagt töluvert mikið um málavöxtu til þess að geta opnað á það að það komi aðstoð frá almenningi. Og það hefur stundum skilað árangri.“

Grímur segir að það hafi verið áhugavert að vinna hjá Europol, bæði að kynnast starfseminni og að geta verið fulltrúi Íslands þar. Hluverk Europol er að langmestu vegna skipulagðrar glæpastarfsemi og stofnunin hefur líka hlutverk varðandi hryðjuverk.

Grímur segir að skipulögð brotastarfsemi sé miklu skipulagðari heldur en fólk gerir sér grein fyrir.

„Ég var þarna úti í Covid-heimsfaraldrinum og þá varð mikil breyting. Þá fóru brotamenn mikið inn á netið og hafa síðan verið þar áfram þó þeir hafi aftur farið í sína hefðbundnu starfsemi. Þannig að í heimsfaraldrinum þegar fólk var ekkert að hittast náðu brotamenn„árangri“ – með neikvæðum formerkjum – í því að svíkja á Internetinu; svíkja fólk í alls konar svikastarfsemi. Þannig að það var raunverulega mesta breytingin sem var á þessu tímabili.“

Grímur segir að það sem hafi staðið upp úr á árunum hjá Europol sé að á þeim tíma hafi erlend lögregluyfirvöld komist yfir dulkóðuð samskipti brotamanna. Lögregluyfirvöld í Frakklandi, Hollandi, Belgíu og svo Europol komust inn í þessi samskipti sem varð bylting varðandi rannsókn á afbrotum; að það væri hægt að komast inn í samskipti sem þessi. Hann segir að brotamenn þurfi að gera sér grein fyrir að mögulegt sé að ná í samskipti þeirra. Víða í Evrópu hafa mál verið upplýst vegna upplýsinga sem fengust með þessum hætti svo sem manndrápsmál.

Helsta ógnin

Grímur segir að skipulögð brotastarfsemi sé sívaxandi og bæði Europol og lögregluyfirvöld á Íslandi lýsi skipulagðri brotastarfsemi sem helstu ógn við öryggi samfélagsins. Hann bendir á að í einni skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra segi að skipulögð brotastarfsemi sé sú ógn sem íslensku samfélagi stafar mesta hætta af umfram náttúruhamfarir. „Það er raunverulega staðan. Og skipulögð brotastarfsemi birtist hérna í stórum dráttum í fíkniefnainnflutningi – framleiðslu og dreifingu. Hún birtist í mansali – bæði kynferðismansali og vinnumalsali. Og hún birtist í peningaþvætti.“

Hann segir að þetta hafi aukist mjög mikið og nú sé staðan þannig – og eins og kom nýlega fram á fundi forsætisráðherra Norðurlandanna – að vandinn er orðinn mikill í Svíþjóð í tengslum við skipulagða brotastarfsemi og sá vandi hefur verið að teygja sig til Danmerkur og Noregs; það er að segja að sænskir brotamenn hafa verið fengnir til að framkvæma afbrot í þessum löndum. Nú allra síðast hefur þetta teygt sig líka til Finnlands. „Við ættum að horfa á þetta og undirbúa okkur undir það að þetta gæti líka teygt sig hingað. Og við eigum jafnvel kannski dæmi um það. Þetta er mikið áhyggjuefni.

Einhvern tímann mat greiningardeild ríkislögreglustjóra að hér á landi væru um 15 hópar í brotastarfsemi en við verðum að átta okkur á því að það eru ekki alltaf sömu aðilarnir í sama hópnum. Þetta er bara fólk sem vinnur saman að einhverju verkefni og svo getur það unnið með öðrum í öðrum verkefnum þannig að það geta verið tengsl á milli hópa eða á milli einstaklinga í hópunum.“

Grímur bendir á að árið í ár sé sérstakt að því leyti að mörg manndrápsmál hafa komið upp eða átta mál á landinu öllu. Fjögur þessara mála eru til rannsóknar hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Þar af tengjast þrjú mál börnum. Hann segist vona að þessi staða sé afbrigði frá hinu venjulega og manndrápsmál verði áfram fá hér á landi; helst engin.

Þegar Grímur er spurður hvað hafi haft mest áhrif á hann og hvernig mál nefnir hann snjóflóðin á Vestfjörðum á 10. áratugnum en þá var hann starfandi lögreglumaður á Ísafirði og tók meðal annars þátt í leit að fólki. Þá segir hann að manndrápsmál hafi öll kannski haft einhvers konar áhrif á sig og að það geti haft enn meiri áhrif þegar börn eiga í hlut.

„Þegar maður er í svona málum þarf maður að gæta hlutlægni og maður þarf að geta passað það að málin séu rannsökuð eins vel og mögulegt er og maður getur ekki hleypt tilfinningunum að á meðan. Það er held ég hluti af þessu. Svo kannski koma þær með einhverjum hætti þegar frá líður. Maður ætti náttúrlega að reyna að vinna með það eins og öll áföll; maður þarf að vinna með áföll en maður kannski gerir það ekki. Maður ætti kannski að gera meira af því að vinna með áföllin sín af því að áföll eru náttúrlega þannig að þau hafa áhrif á mann.

Það er nú þannig í lögreglunni að jafnvel þó við tökumst á við erfið verkefni þá höfum við stuðning hvers annars. Það hefur sérstaklega á seinni árum verið reynt að gæta vel að því þegar fólk lendir í erfiðum aðstæðum; það fær stuðning. Við erum náttúrlega með félagastuðning og síðan er hægt að fá stuðning frá fagaðilum. Og fólk notar þetta ágætlega. Það er erfitt að átta sig á því hvort og þá hvaða áhrif þetta hefur haft á mann í gegnum lífið en þetta er ekki þannig að ég sé eitthvað voðalega deprimeraður dags daglega. Ég held ég sé ágætlega lífsglaður og ég held ég nái einhvern veginn að snúa mér frá verkefnunum þegar ég er ekki í vinnunni.“

Grímur er spurður hvort hann sé aldrei hræddur um að einhver sæki að honum í hefndarhug.

„Ég get svarað spurningunni með því að segja nei, ég er ekki mjög hræddur um það. En það gerðist samt sem áður í fyrra að hingað kom maður og spreyjaði bílinn minn sem stóð í innkeyrslunni. Hann skemmdi hann. Þetta var óþægilegt. Það er óþægilegt þegar maður starfsins vegna verður fyrir einhvers konar ofbeldi, einhvers konar skemmdarverkum. Á maður að taka því sem einhvers konar hótun?“ segir Grímur og bætir við að málið hafi verið til rannsóknar hjá héraðssaksóknara.

„Það er enginn vondur þegar hann fæðist“

Hvað hefur Grímur Grímsson lært á þessum 37 árum í lögreglunni? Hver er lærdómurinn af þessu?

„Ég held að það megi segja það að auðvitað snýst löggæsla náttúrlega um fólk. Við erum að vinna með fólk, bæði þá sem eru brotaþolar og þá sem brjóta af sér. Ég held að maður geti sagt það þannig að fólk er alls konar. Flest fólk er nú bara ágætis fólk. Það eru margir sem kannski hafa í sér einhverja vonda þræði en það er enginn vondur þegar hann fæðist.“

Grímur var tæplega þrítugur þegar faðir hann lést 62 ára gamall.

Hvað er dauðinn í huga Gríms Grímssonar, yfirlögregluþjónsins sem vill taka sæti á Alþingi Íslendinga?

„Endalok. Þegar maður fylgist með einhverjum nákomnum deyja þá er maður svo sem sannfærður um að það sé líf eftir dauðann. En ef maður notar skynsemina þá finnst mér það nú ekki vera líklegt.“

Hvernig er hægt að vinna úr sorg?

„Það er kannski frasi að segja svona en minningar eru náttúrlega eitthvað sem hjálpa manni í gegnum sorg. Minningar um viðkomandi.“

Þögn.

„Og það er þannig að við vorum ágætir vinir, ég og pabbi, þannig að mér fannst ég missa mjög mikið þegar ég missti hann. Ég gleymi honum aldrei. Hluti af þessu er að ég hugsa stundum um hvernig pabbi myndi bregðast við ýmsu sem upp kemur hjá mér.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Er steinhissa á því sem hann sér aftur og aftur á Íslandi

Er steinhissa á því sem hann sér aftur og aftur á Íslandi
Fókus
Fyrir 2 dögum

Einkaspæjari afhjúpar nýja leið hvernig makar fela framhjáhald – Forrit sem er í öllum iPhone símum og vekur engar grunsemdir

Einkaspæjari afhjúpar nýja leið hvernig makar fela framhjáhald – Forrit sem er í öllum iPhone símum og vekur engar grunsemdir
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tímamót hjá Helga Ómars – „Af einhverjum óútskýranlegum ástæðum er það rétt“

Tímamót hjá Helga Ómars – „Af einhverjum óútskýranlegum ástæðum er það rétt“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hera Björk varð fyrir hatrammri aðför: „Þetta var í hundraðatali og endaði í þúsundatali og var augljóslega skipulagt“

Hera Björk varð fyrir hatrammri aðför: „Þetta var í hundraðatali og endaði í þúsundatali og var augljóslega skipulagt“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Fyrrum landbúnaðarráðherra og sagnamaður selur miðbæjarperlu á Selfossi

Fyrrum landbúnaðarráðherra og sagnamaður selur miðbæjarperlu á Selfossi
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sérstæð vinátta ræstingakonu og kolkrabba hefur heillað heimsbyggðina

Sérstæð vinátta ræstingakonu og kolkrabba hefur heillað heimsbyggðina