Fyrr í dag deildu risarnir þrír á sjónvarpsmarkaði, RÚV, Stöð 2 og Sjónvarp Símans, sömu færslunni samtímis á Facebook-síðum sínum. Skilaboðin voru einföld en óræð, dagsetningin 6. desember 2024.
Deilingin vakti athygli netverja sem að komu með ýmsar kenningar um hvað væri á döfinni. „Hvað er í gangi? Samruni?,“ sagði einn og annar bætti við: „Marteinn Mosdal fær loksins draum sinn uppfylltan! EIN RÍKISRÁS FYRIR ALLA!“
Gísli Marteinn býr leigulaust í höfði margra og að sjálfsögðu henti einn netverji í slíkt grín: „Gísli Marteinn á samtengdum rásum. Þjóðin í Gíslingu.“
Öllu skarpari netverji benti þó á að líklega væri um að ræða kitlu fyrir fjáröflunarþátt Unicef á Íslandi og kann það vel að vera miðað við bakgrunnslitinn á tilkynningunni.
Enn sem komið er hefur þó ekkert heyrst frekar frá stöðvunum um merkingu þessarar dularfullu dagsetningar, en forvitni fólks hlýtur að verða svalað innan tíðar.