fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fókus

Birna segir að fyrsta heimsókn barnanna í fangelsið til pabba þeirra hafi verið átakanleg – „Þau voru ofsalega hrædd“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Fimmtudaginn 21. nóvember 2024 12:23

Birna Ólafsdóttir er gestur vikunnar í Fókus.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Birna Ólafsdóttir hefur um skeið barist fyrir réttindum aðstandenda fanga, sér í lagi barna fanga, en málefnið stendur henni nærri.

„Þetta snertir mig persónulega því maðurinn minn situr inni, faðir barnanna minna,“ segir hún.

Eiginmaður Birnu, Ólafur Ágúst Hraundal, var dæmdur til tíu ára fangelsisvistar í fyrra fyrir umfangsmikla kannabisræktun. Hann var handtekinn í maí 2022 í saltdreifaramálinu svokallaða og hefur setið inni síðan. Birna og Ólafur Ágúst, kallaður Gústi, hafa verið saman í áratug og eiga átta börn. Hann á fjögur úr fyrri samböndum og hún þrjú, saman eiga þau einn son. Yngstu fjögur eru á aldrinum sjö til fimmtán ára og þau fjögur eldri eru á fullorðinsaldri. Þau eiga einnig þrjú barnabörn.

Birna er gestur vikunnar í Fókus, spjallþætti DV. Þú getur horft á þáttinn hér að neðan eða hlustað á Spotify.

video
play-sharp-fill

Dómurinn er einn þyngsti fíkniefnadómur Íslandssögunnar. Aðspurð hvernig henni hafi liðið daginn sem dómurinn var kveðinn upp segir Birna að það hafi ekkert jafnast á við daginn sem hann var handtekinn.

„Dómurinn féll langt eftir handtöku. Maður var auðvitað kvíðinn og vonaði það besta, en síðan urðu alltaf vonbrigði í rauninni. En það er ekki hægt að líkja því við þegar hann var handtekinn og ég fékk ekki að tala við hann í þrjár, fjórar vikur. Það var mesta höggið. Það er búið að sanna það að sorgin er alveg eins og einhver deyr, það er jafn sárt,“ segir hún.

„Þegar dómur fellur þá er maður kannski meira að fara upp á við og ná bata, frekar en hitt.“

Birna viðurkennir að lengd dómsins hafi komið henni á óvart. „Af því að þetta var varsla sem hann er kærður fyrir, þá var maður viss að um fyrir vörslu fengi hann ekki meira en sjö ár, ég hélt að hann myndi fá sex til sjö ár, það var mín ósk, en mín ósk varð að helvíti þennan dag.“

Gefur þeim rödd

Birna hefur gert það besta úr aðstæðum og beitt sér fyrir réttindum þeirra sem minna mega sín, hóps sem hefur litla sem enga rödd og mikil skömm fylgir að vera meðal þeirra; aðstandendur fanga.

„Þegar ég var orðin aðstandandi og móðir barna fanga þá var Barnakot til dæmis lokað um helgar. Sem þýddi að ég þurfti að taka börnin úr skóla til að fara með þau í heimsókn til pabba síns,“ segir hún.

Birna hafði samband við Jón Gunnarsson, þáverandi dómsmálaráðherra, og Pál Winkel, þáverandi forstjóri Fangelsismálastofnunar. „Þeir voru allir af vilja gerðir og Barnakot var opnað um helgar,“ segir hún.

Gústi sat inni á Hólmsheiði þegar hann var í gæsluvarðhaldi og var síðan fluttur á Litla-Hraun þar sem hann var í átján mánuði. Hann hefur verið á Sogni síðastliðið ár og segir Birna himin og haf að heimsækja hann þar en á hrauninu. Í þættinum segist hún sjá eftir því að hafa farið með börnin í heimsókn á Litla-Hraun. Hún lýsir upplifuninni og segist vona að börnin hennar hafi ekki hlotið varanlegan sálrænan skaða og segir að ef hún mætti ráða myndi hún banna slíkar heimsóknir.

„Þau voru ofsalega hrædd“

„Það voru alveg átök skal ég segja þér, ég vildi óska þess að ég hafi vitað betur. En ég var að mæta með börnin mín upp á Litla-Hran því Barnakot var lokað. Þá var ég kannski að mæta með fjóra drengi,“ segir hún.

Með „upp“ á hún við þegar aðstandendur fara í gegnum öryggisgæsluna, en börn þurfa ekki að fara í gegnum slíkt ferli þegar þau heimsækja Barnakot.

„Hefði ég vitað betur hefði ég aldrei farið með börnin á Litla-Hraun og Hólmsheiði. Af því að það hefur áhrif. Þau voru ofsalega hrædd. Það var vetur þegar við fórum fyrst á Litla-Hraun. Við mættum um tíu um morguninn og það var svolítið myrkur, svo fórum við í svarta myrkri heim. Það voru þvílíku hliðin og drungalegt. Ég vona náttúrulega að sjálfsögðu af öllu mínu hjarta að börnunum mínum verði ekki meint af og þetta verði ekki reynsla sem eigi eftir að sitja í þeim, en ég veit ekki almennilega hvaða áhrif þetta mun hafa. En ef ég fengi að ráða myndi ég banna að börn fari þarna upp og fari í gegnum öryggisleitina,“ segir hún.

Ónærgætnir fangaverðir

„Svo var ég orðin frekar grimm, ég var orðin reið út í fangaverðina. Þeir voru að vinna vinnuna sína og ég var bara orðin ógeðslega reið, þeir máttu ekki anda vitlaust þá brjálaðist ég,“ segir Birna og bætir við að eins og í öðrum stéttum séu einhver skemmd epli meðal fangaverða og segir hún að sumum þeirra, sérstaklega þeim yngri, hafi skort nærgætni og samkennd þegar kæmi að því að taka á móti börnum.

„Það voru fangaverðir sem voru ekki hæfir að taka á móti börnum,“ segir hún.

„Við sendum alltaf bréf þegar okkur fannst á okkur brotið og vorum dugleg við það, og mér fannst það skila sér. Ég veit að það var kennt fangavörðum að taka á móti börnum í kjölfarið. Það vilja allir gera vel.“

Eftir að Birna fór að beita sér fyrir réttindum aðstandenda fanga hafa orðið framfarir. Eins og nú eru tíu tíma heimsóknir leyfðar. „Allir fangar sem eru á Hólmsheiði, eða þeir sem eru á Litla-Hrauni fá að fara á Hólmsheiði, í svona litla íbúð og vera þar í tíu klukkutíma með okkur. Það eru mjög dýrmætar stundir fyrir fólk í þessari stöðu,“ segir hún.

Birna Ólafsdóttir er gestur vikunnar í Fókus.

Ákvað að sleppa feluleiknum

„Það er fullt hægt að gera, en það er eins og það vilji enginn gera neitt því þetta eru fangar. Fólk dæmir, ég meina… Bara mitt nánasta fólk gerir það og ég gerði það sjálf, sem er ótrúlega sorglegt að segja,“ segir Birna.

Birna ákvað að vera opin með aðstæður sínar, að það væri ekkert leyndarmál eða skömmustulegur feluleikur að hún ætti mann í fangelsi eða að börnin hennar ættu pabba í fangelsi.

„Ég er að eðlisfari frekar opin og kem til dyranna eins og ég er klædd, það spilaði mikið inn í. En ég las mig mikið til um börn fanga og googlaði þetta allt og skoðaði, og niðurstaða mín var sú að á flestum stöðum væri þetta leyndarmál og að börn lenda í miklu einelti. Besta ákvörðunin var að láta alla vita, því ef þú segir það bara þá er ekki hægt að koma höggi á þig.“

Hún segir að blessunarlega hafi börnunum þeirra aldrei verið strítt vegna málsins. „Ég finn bara fyrir ást og umhyggju og allir eru góðir við okkur,“ segir hún.

Skömm

Birna segir að hún upplifi sömu skömm og allir aðrir aðstandendur, en hún leyfi henni ekki að stjórna sér.

„Auðvitað er þetta skömm, hún er það bara. En við aðstandendur eigum ekki að líða fyrir þeirra gjörðir, og ég á ekkert að skammast mín og ekki heldur börnin mín. En auðvitað er þetta skömm, bullandi skömm. En ef ég tala ekki fyrir þá… það hefur eiginlega enginn komið fram [og barist fyrir þessu málefni].“

Horfðu á þáttinn hér að ofan eða hlustaðu á Spotify.

Birna bendir aðstandendum á félögin Afstaða og Bjargráð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Er steinhissa á því sem hann sér aftur og aftur á Íslandi

Er steinhissa á því sem hann sér aftur og aftur á Íslandi
Fókus
Fyrir 2 dögum

Einkaspæjari afhjúpar nýja leið hvernig makar fela framhjáhald – Forrit sem er í öllum iPhone símum og vekur engar grunsemdir

Einkaspæjari afhjúpar nýja leið hvernig makar fela framhjáhald – Forrit sem er í öllum iPhone símum og vekur engar grunsemdir
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tímamót hjá Helga Ómars – „Af einhverjum óútskýranlegum ástæðum er það rétt“

Tímamót hjá Helga Ómars – „Af einhverjum óútskýranlegum ástæðum er það rétt“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hera Björk varð fyrir hatrammri aðför: „Þetta var í hundraðatali og endaði í þúsundatali og var augljóslega skipulagt“

Hera Björk varð fyrir hatrammri aðför: „Þetta var í hundraðatali og endaði í þúsundatali og var augljóslega skipulagt“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Fyrrum landbúnaðarráðherra og sagnamaður selur miðbæjarperlu á Selfossi

Fyrrum landbúnaðarráðherra og sagnamaður selur miðbæjarperlu á Selfossi
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sérstæð vinátta ræstingakonu og kolkrabba hefur heillað heimsbyggðina

Sérstæð vinátta ræstingakonu og kolkrabba hefur heillað heimsbyggðina
Hide picture