Hann segir þetta ekki hættulaust og að það geti verið alvarlegar afleiðingar ef fólk fer of geyst í þetta, án þess að undirbúa sig og í umhverfi sem það upplifir sig ekki öruggt. Í þættinum ræðir hann um nýlegt atvik þar sem þekktur einkaþjálfari gekk nakinn um Suðurlandsveg eftir að hafa innbyrt slíka sveppi.
Bjarki er gestur vikunnar í Fókus, spjallþætti DV.
Horfðu á brot úr þættinum hér að neðan. Smelltu hér til að horfa á þáttinn í heild sinni eða hlustaðu á Spotify.
„Ég hef verið að starfa við að aðstoða fólk við undirbúning og eftirvinnu tengt hugvíkkandi ferðalagi eða hugvíkkandi vinnu,“ segir Bjarki.
Hvað er hugvíkkandi ferðalag?
„Þá er ég að tala um þegar fólk tekur „heroic dose“, sem eru fimm grömm af sveppum yfirleitt, og þetta gerir fólk hjá ákveðnum aðilum og það getur komið til mín til að undirbúa sig fyrir það ferli, fyrir athöfnina. Djúpur undirbúningur sem er mikilvægur fyrir svona athöfn. Þú getur alveg farið bara í athöfn án undirbúnings en það eru stórar áhættur sem geta fylgt því ef þú hoppar bara út í þessa djúpu laug, því þetta er rosa stórt,“ segir hann.
Bjarki aðstoðar fólk bæði fyrir athöfnina, þá varðandi undirbúning, og eftir hana, að vinna úr því sem það upplifði á meðan það var á sveppum.
Hann útskýrir nánar hvað felst í þessari undirbúningsvinnu og eftirvinnu í spilaranum hér að ofan. Brotið er hluti af nýjasta þætti af Fókus sem má horfa á í heild sinni hér.
Aðspurður hverjar áhætturnar séu, ef fólk undirbýr sig ekki nægilega vel, segir Bjarki:
„Þær eru alveg þó nokkrar. Við erum náttúrulega að vinna með geðheilsuna þína, þetta er eitt það mikilvægasta sem við eigum, það er geðheilsan okkar og það er alls konar sem getur komið upp. Líkaminn okkar, við erum svo ótrúlega mögnuð að því leyti að ef eitthvað kemur fyrir okkur og það er of sársaukafullt að díla við það, umhverfið okkar gefur ekki rýmið til þess. Við erum kannski börn og höfum ekki færnina, foreldrar okkar eru ekki til staðar þannig að við getum fengið úrvinnslu, þá getum við lokað á atburði.“
Bjarki segist sjálfur hafa gengið í gegnum þetta.
„Ég persónulega hef upplifað þetta, að fá til mín minningu sem að ég… ég þurfti alveg virkilega… Bíddu, var þetta draumur eða gerðist þetta í alvörunni? Því það var búið að þurrka þetta alveg út og í svona ferðalagi getur opnast á svona hluti. Hlutir sem voru of sársaukafullir til að díla við þá. Við getum fengið aðgang að þessu og ef þú ert ekki nægilega vel undirbúinn, kannski ekki í öruggu umhverfi með einhverjum sem þú treystir. Síðan ertu ekki gripinn eftir á og þá getur fólk spíralast inn í mjög alvarlegt ástand.“
Fyrir nokkrum vikum síðan var greint frá því að þekktur einkaþjálfari hafi gengið nakinn niður Suðurlandsveg eftir að hafa tekið sveppi.
Sjá einnig: Gummi Emil er maðurinn sem gekk um nakinn – Rýfur þögnina og útskýrir málið
Margir kenndu aðilunum sem sáu um athöfnina um hvernig fór og sögðu þá bera ábyrgð.
Aðspurður hvort hann þekki til atviksins og aðilanna svarar Bjarki játandi. „Ég þekki til þeirra sem voru með þessum einstaklingi, en ég þekki ekki [einkaþjálfarann]. Ég finn ótrúlega til með þeim öllum en þetta er einmitt það sem gerist þegar fólk kannski heldur að… það er oft ákveðinn hroki sem getur fylgt því þegar þú veist lítið, þá heldurðu að þú getur gert mikið. En þegar þú veist mikið þá [hefurðu varann á]. Þá kemur einhvers konar virðing,“ segir hann.
„Ég held að það hafi ekki verið nógu mikil meðvitund um hvað var verið að fara út í. Þessir einstaklingar sem ég þekki til eru báðir mjög góðir einstaklingar með hjartað á réttum stað og hafa ákveðna reynslu af þessum efnum. En það er þegar menntun og reynsla koma saman þar sem þú getur kannski farið að íhuga að sitja yfir einhverjum öðrum einstakling. Af því að allt í einu ertu kominn með heilan einstakling á þína ábyrgð og það er bara ótrúlega margt sem getur komið upp í svona ferðalagi. Þannig ég held til dæmis, undirbúningur, hafi ekki verið eitthvað sem var hluti af þessari meðferð og alls konar sem klikkaði, sem ég ætla ekki að fara út í einhver smáatriði. En það er akkúrat þetta, umgjörðin var ekki nógu örugg og þeir sem héldu utan um voru kannski ekki alveg fyllilega meðvitaðir um hvað þeir væru að stíga út í og hvers konar ábyrgð væri komin á þeirra herðar.“
Bjarki viðurkennir að það sé vissulega erfitt að fást við eitthvað sem er í raun að undirbúa fólk til að brjóta lögin.
„Það er erfitt. Þetta er líka erfið staða fyrir þá sem eru að sækja þessar meðferðir. Fólk er að reyna að vinna með áföllin sín og er að reyna að betrumbæta líf sitt og það er í rauninni í sjálfu sér að gera mjög jákvæða hluti með því að sækja á þessa staði og vilja gera þetta vel og vandlega, ekki bara kaupa einhvers staðar sveppi og gera þetta heima hjá sér. Heldur sækja þessar meðferðir hjá aðilum sem eru búnir að mennta sig, þannig fyrir alla sem koma að þessu þá er leiðinlegt að þurfa að vera í einhvers konar feluleik og líða eins og maður sé að glæpast. Það er ekki góð tilfinning.“
Bjarki fór í sitt fyrsta sveppaferðalag fyrir sjö árum en hann kynntist hugvíkkandi efnum þegar hann var sjálfur að vinna úr eigin áfallasögu.
Bjarki ræðir nánar um þetta í spilaranum hér að ofan. Smelltu hér til að horfa á þáttinn í heild sinni eða hlustaðu á Spotify.