Gaddakylfan, verðlaun fyrir bestu glæpasmásögunna sem berst í samnefnda samkeppni Hins íslenska glæpafélags, verður afhent í bókabúðinni Skáldu á morgun, 19. nóvember, kl. 17.30. Léttar veitingar verða í boði og allir unnendur íslenskrar (glæpa)sagnaritunar eru velkomnir!
Rétt eins og áður, þá hlýtur sigurvegarinn sjálfa Gaddakylfuna að launum; keramikvasa í formi þessa forna skaðræðistóls. Gaddakylfan er í senn stofuprýði og stórhættulegt vopn úr smiðju leirlistarkonunnar Koggu, sem á allt í senn hönnun, gerð og hugmyndina að baki þessum einstaka verðlaunagrip.
Auk Gaddakylfunnar fær höfundur sögunnar í 1. sæti útgáfusamning hjá Storytel og passa á hina æsispennandi alþjóðlegu (glæpa)bókmenntahátíð Iceland Noir, sem hefst formlega á miðvikudag. Þar mun hann taka þátt í pallborðsumræðum, ásamt höfundum sagnanna sem lenda í 2. og 3. sæti.
Verðlaunasögurnar þrjár verða svo gefnar hjá Storytel ásamt öðrum þeim sögum sem bárust í keppnina og dómnefnd og ritstjórar Storytel velja til birtingar.
Hið íslenska glæpafélag hélt þessa ágætu keppni árlega frá 2006 til 2013, í samstarfi við hin ýmsu útgáfufyrirtæki. Í tilefni af 25 ára afmæli félagsins var ákveðið að blása lífi í hana að nýju, að þessu sinni í samstarfi við Storytel og hina merku (glæpa)bókmenntahátíð Iceland Noir. Keppnin er jafnframt hluti af hinni metnaðarfullu afmælisdagskrá HÍG, Glæpafár í 25 ár.
Viðbrögðin létu ekki á sér standa – 37 sögur frá 33 höfundum bárust í keppnina að þessu sinni, og ljóst að glæpa(smá)sagan lifir enn góðu lífi meðal skrifþyrstra Íslendinga.
Dómnefndina skipa rithöfundarnir Stefán Máni Sigþórsson (formaður) og Margrét Höskuldsdóttir, og Arnór Hjartarson, ritstjóri hjá Storytel.