Á Facebook-síðu flokksins má sjá Bjarna taka bekkpressu með kraftlyftingamanninum og fasteignasalanum Júlían J.K. Jóhannssyni, en Júlían skipar 13. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík suður.
Í færslu flokksins kemur fram að Bjarni reyni að lyfta einu kílói „fyrir hvern milljarð sem Samfylkingin boðar í skattahækkanir” eins og það er orðað pent.
Í byrjun sést Bjarni lyfta 60 kílóum og gera það mjög auðveldlega. Hann færir sig svo upp í 70 kíló og svo 80 kíló og klárar báðar þyngdir með stæl. „Þetta er enn þá light weigt,” segir Bjarni svo þegar hann reynir við og klárar 90 kílóin.
Bjarni er augljóslega enginn aukvisi þegar kemur að lyftingum því í myndbandinu sést svo þegar hann rífur 100 kíló upp í tvígang. Róðurinn fór þó að þyngjast í næstu þyngd fyrir ofan.
„Nú erum við að fara í 110 og það eru svona efri mörkin á þessum skattahækkanatillögum og það er auðvitað bara rugl að láta sér detta það í hug. En ég ætla samt að reyna við þetta hér og þó að ég geti mögulega lyft þessu þá held ég að það væri þvæla fyrir þjóðina að fá þá skatta í andlitið,” sagði Bjarni.
Skemmst er frá því að segja að hann kom 110 kílóunum ekki upp þrátt fyrir tvær tilraunir.
„Þetta eru bara of miklar skattahækkanir,” sagði hann í kjölfarið.
Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Bjarni reynir fyrir sér í bekkpressu því hann gerði það árið 2021 og þá gat hann komið 120 kílóum upp. Bjarni hafði sagt í viðtali í Brennslunni á FM957 að hann gæti lyft 120 kílóum en einhverjar efasemdarraddir fóru á kreik. Varð það til þess að hann birti myndband af sér í ræktinni sem sönnunargagn.
Miðað við nýjasta bekkpressumyndbandið er Bjarni því aðeins farinn að gefa eftir í bekknum.
Til að bregðast við efasemdaröddum neyðist ég til að birta sönnunargögn. Stenst þetta skoðun @JkjJulian og @gislimarteinn? pic.twitter.com/Ym3tIg14Yl
— Bjarni Benediktsson (@Bjarni_Ben) February 3, 2021