fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fókus

Bókarýni: Ljóslifandi 200 ára gömul harmsaga

Jakob Snævar Ólafsson
Laugardaginn 16. nóvember 2024 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrir utan Guðmundar- og Geirfinnsmálið frá áttunda áratug síðustu aldar eru morðin á Illugastöðum í Húnaþingi árið 1828 og í kjölfar þeirra síðasta aftakan á Íslandi líklega sögufrægasta sakamál í Íslandssögunni. Þótt um 200 ár séu liðin er mikill áhugi til staðar á málinu enda um mikla og harmræna sögu að ræða. Um það hafa verið m.a. skrifaðar fræðibækur, fræðigreinar, skáldsögur og gerð a.m.k. ein kvikmynd. Málið er umfjöllunarefni nýrrar bókar Öxin, Agnes & Friðrik. Síðasta aftakan á Íslandi – aðdragandi og eftirmálar sem Bjartur-Veröld gefur út. Höfundurinn er Magnús Ólafsson fyrrum bóndi á Sveinsstöðum í Húnaþingi en hann og fjölskylda hans eiga mun persónulegri tengingu við málið en margir aðrir.

Magnús segir frá því í bókinni að í raun hafi það verið næsta skref fyrir hann að skrifa bók en undanfarin ár hefur hann gert mikið af því að fara í ferðir með hópa að aftökustaðnum á Þrístöpum, sem eru í landi ættaróðals fjölskyldunnar að Sveinsstöðum, og segja frá aftökunni, aðdragandanum og eftirmálum. Þar að auki hefur hann verið með sýningu, undir sama heiti og bókin, á Landnámssetrinu í Borgarnesi.

Fyrir þau sem ekki vita um hvað málið snýst þá, í sem stystu máli, voru menn að nafni Natan Ketilsson bóndi á Illugastöðum og Pétur Jónsson, gestur hans, myrtir þar á bæ árið 1828. Í upphafi árs 1830 voru Friðrik Sigurðsson og Agnes Magnúsdóttir tekin af lífi fyrir morðin en dómur yfir Sigríði Guðmundsdóttur var mildaður úr dauðadómi í lífstíðarfangelsi.

Persónuleg tenging

Hin persónulega tenging Magnúsar og fjölskyldu hans við málið er einkum tilkomin vegna þess að faðir og afi Magnúsar voru beðnir árið 1934, 104 árum eftir aftökuna, að grafa upp bein Friðriks og Agnesar, sem voru grafin í námunda við aftökustaðinn, og flytja þau í kirkjugarð. Komið var að Sveinsstöðum með beiðni þessa efnis sem sögð var frá miðli sem hafði að sögn fengið skilaboð frá Agnesi sjálfri með leiðbeiningum um hvar beinin var að finna og að biðja ætti afa Magnúsar um að sjá um leitina. Afi Magnúsar hafði ekki mikla trú á þessu en svo fór að í krafti þessara leiðbeininga þá fundust beinin.

Þessi aðkoma afa hans og föður að því að finna bein hinna líflátnu og koma þeim í vígða mold gerir bókina í raun að mun persónulegri bók en oft er raunin með fræðibækur um löngu liðna tíma. Við þetta bætast frásagnir Magnúsar í bæði formála og eftirmála.

Magnús kynnir sögusviðið mjög vel með korti þar sem er að finna alla helstu bæi sem við sögu koma og með myndum af öllu svæðinu eins og það lítur út í dag. Eins og góðum fræðimanni sæmir fer hann vel yfir í upphafi hvaða aðrar bækur hafa verið ritaðar um málið og helstu heimildir sem hann nýtir sér. Hann varpar fram þegar í upphafi kenningu sinni um hvaða ástæður lágu að baki morðinu og leitast síðan við í bókinni að færa rök fyrir henni. Það er aðferð í sagnfræðilegum skrifum sem hefur sína kosti og galla en fyrir mann sem hefur persónulega tengingu við málið og hefur sökkt sér jafn mikið ofan í það þá er þessi nálgun líklega sú eina rétta.

Sterk rök

Óhætt er að segja að Magnús færi sterk og sannfærandi rök fyrir kenningu sinni um hvað lá helst að baki morðunum. Kenningin verður ekki reifuð hér nema að litlu leyti til að lengja ekki þessa rýni um of og skemma ekki lesturinn fyrir lesendum en hún snýst meðal annars um að Natan Ketilsson hafi ekki verið eins saklaus og hin opinbera niðurstaða málsins gaf til kynna.

Magnús gerir grein fyrir helstu persónum sem birtast í raun ljóslifandi á síðum bókarinnar og harmur þeirra er nánast áþreifanlegur. Einna dýpst rista lýsingar hans á aftökunni sjálfri sem hann byggir á mjög góðum frumheimildum. Við lestur þess kafla er ekki laust við að maður sé sleginn nokkrum óhug.

Magnús setur atburðina í gott samhengi við þjóðfélag þess tíma en það hefði verið áhugavert að fá enn dýpri greiningu á því en það er vissulega ekki meginmarkmið þessarar bókar.

Heimildir og tilvísanir

Bókin er góð en ekki gallalaus. Helstu gallarnir eru að í heimildaskrá er aðeins getið helstu heimilda og engin tilvísanaskrá er til staðar. Í textanum vísar Magnús oft beint til heimilda en ekki alltaf og í þeim tilfellum liggur oft ekki í augum uppi í hvaða heimildir verið er að vísa.

Hverju sem göllunum líður þá mælir undirritaður hiklaust með bókinni og þá ekki síst fyrir þau sem eru ekki eða lítið kunnug málinu. Það styrkir óneitanlega kenningu Magnúsar um morðin að eftir lesturinn kemst maður varla hjá því að hugsa sem svo að það hafi líklega verið mesta ógæfa lífs Agnesar Magnúsdóttur og Sigríðar Guðmundsdóttur að kynnast Natani Ketilssyni. Hvað Friðrik Sigurðsson varðar þá er sú spurning eilítið flóknari.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ragna á von á barni

Ragna á von á barni
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vissi að hjónabandið væri dauðadæmt þegar eiginmaðurinn sagði þessi tvö orð í brúðkaupinu

Vissi að hjónabandið væri dauðadæmt þegar eiginmaðurinn sagði þessi tvö orð í brúðkaupinu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Taylor Swift sogast inn í stóra Hollywood-dramað – „Ég er Khaleesi og eins og hún þá vill svo til að ég á nokkra dreka“

Taylor Swift sogast inn í stóra Hollywood-dramað – „Ég er Khaleesi og eins og hún þá vill svo til að ég á nokkra dreka“