fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fókus

Bókarýni: Brotakennt baksvið stjórnmálanna

Jakob Snævar Ólafsson
Laugardaginn 16. nóvember 2024 16:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Meðal bóka í flokknum fræðibækur og bækur almenns eðlis sem koma út nú fyrir jólin er bók sem bókaforlagið Bjartur & Veröld gefur út og ber titilinn Fólk og Flakk. Sagnakvöld af baksviði stjórnmálanna. Höfundurinn er landsþekktur, Steingrímur J. Sigfússon fyrrum þingmaður og ráðherra fyrst Alþýðubandalagsins og síðan Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs.

Í bókinni segir Steingrímur sögur einkum af ferðum sínum á stjórnmálaferlinum og af fjölda fólks sem hann hefur kynnst eftir hann hóf afskipti af stjórnmálum. Steingrímur segir strax í upphafi bókarinnar að ekki sé um að ræða ævisögu heldur bók sem sé í anda þess sem kallað var sagnakvöld á æskuheimili hans á Gunnarsstöðum í Þistilfirði. Sagnakvöld snýst um að segja margar litlar sögur og þá ekki endilega í neinni tímaröð og án þess að vera smeykur við útúrdúra.

Steingrímur segir hins vegar í bókinni sögur frá flestum æviskeiðum sínum og eins og fræðimenn sem rannsakað hafa ævisöguformið hafa bent á þá getur bók um hluta ævi einstaklings flokkast sem ævisaga og því má alveg skilgreina þessa bók sem ævisögu.

Ekki ítarleg

Ítarleg ævisaga er bók Steingríms hins vegar ekki. Hann fer ekki mikið út í sína pólitísku lífsýn eða störf sem ráðherra en þó er nokkuð um frásagnir af ráðherrastörfum hans, þó fyrst og fremst um árin 1988-1991 þegar hann var landbúnaðar- og samgönguráðherra en um seinni ráðherratíð hans frá 2009-2013 var ritað í bókinni Frá hruni og heim sem Björn Þór Sigbjörnsson skrifaði.

Í þeim brotum í Fólk og flakk þar sem minnst er á ráðherraárin skrifar Steingrímur fyrst og fremst um það sem vel gekk en síður það sem verr gekk eins og búast má við af stjórnmálamanni. Hann bregður þó ekki upp mynd sem er alfarið fögur heldur lætur t.d. flakka með eina sögu af því þegar hann var í embættiserindum sem samgönguráðherra í Egyptalandi og stakk sér til sunds í ánna Níl en náði að komast við illan leik upp úr. Steingrímur segist í bókinni ekki vera stoltur af þessu uppátæki sínu og er þessi saga eilítið hressandi tilbreyting frá dæmigerðri ævisögu stjórnmálamanns.

Óbreytt alþýðufólk

Fólk og flakk skiptist nokkurn veginn í tvo hluta. Í þeim fyrri eru sagðar ýmsar sögur af ferðum Steingríms um hið gamla Norðurlandskjördæmi eystra og kynnum hans af fólki þar en einnig af öðrum stjórnmálamönnum bæði samherjum og andstæðingum. Í seinni hlutanum eru einkum sagðar sögur af störfunum á Alþingi og í ríkisstjórn og af ýmsum embættismönnum og erlendum stjórnmálamönnum sem Steingrímur hefur kynnst.

Sögurnar eru misáhugaverðar og misskemmtilegar en einna hæst rís bókin þegar Steingrímur segir frá ýmsu fólki sem hann kynntist á Norðurlandi eystra við störf sín. Alþýðufólki sem starfaði margt hvert í Alþýðubandalaginu og sumt síðar í Vinstri grænum og var flest einkum þekkt í sinni heimabyggð og nærsveitum. Sögurnar af þessu fólki eru þó flestar það stuttar að mann langar í mörgum tilfellum að vita meira eins og t.d. um hinn danska Einar Georg Petersen sem endaði sem einbúi í íslenskum torfbæ.

Brotakennd

Þarna er kominn helsti gallinn við form bókarinnar. Það liggur fyrir frá upphafi að ætlunin sé að segja margar litlar sögur en þær eru það margar og það stuttar að þær rétt ná að gára yfirborðið. Það á t.d. við um kynni Steingríms af öðrum stjórnmálamönnum sem minnst er á til að mynda kafar hann ekkert sérstaklega djúpt í samband sitt við sínu helstu pólitísku samherja eins og t.d. Svavar Gestsson heitinn. Það er síðan flakkað fram og aftur í tíma og á endanum verður bókin full brotakennd en það er kannski óhjákvæmilegt þegar lagt er upp með að hafa hana í þessu formi.

Þegar á heildina er litið er bókin skemmtileg aflestrar og auk þess að kynna lesendur fyrir ýmsu fólki sem var og er margt hvert ekki þekkt á landsvísu er einn helsti kostur hennar að hún er fín heimild um hvernig stjórnmálastarf var fyrir þingmenn landsbyggðarkjördæmanna þegar það snerist, auk þingstarfanna, fyrst og fremst um að ferðast um kjördæmið og hitta fólk. Þó þingmenn geri það að sjálfsögðu ennþá eru önnur yfirborðskenndari fyrirbrigði í dag eins og framkoma á samfélagsmiðlum sem hafa sitt að segja.

Loks ber að minnast á annan kost bókarinnar en hún varpar ágætu ljósi á það að nokkurn veginn fram á fyrsta áratug þessarar aldar voru rætur þingmanna í og tök þeirra á íslensku máli almennt sterkari en í dag. Gætu þeir sem munu ná kjöri sem alþingismenn í kosningunum 30. nóvember t.d. safnað saman í lið til að senda á hagyrðingakvöld eins og gert var og Steingrímur segir frá í bókinni. Það kæmi verulega á óvart.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ragna á von á barni

Ragna á von á barni
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vissi að hjónabandið væri dauðadæmt þegar eiginmaðurinn sagði þessi tvö orð í brúðkaupinu

Vissi að hjónabandið væri dauðadæmt þegar eiginmaðurinn sagði þessi tvö orð í brúðkaupinu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Taylor Swift sogast inn í stóra Hollywood-dramað – „Ég er Khaleesi og eins og hún þá vill svo til að ég á nokkra dreka“

Taylor Swift sogast inn í stóra Hollywood-dramað – „Ég er Khaleesi og eins og hún þá vill svo til að ég á nokkra dreka“