fbpx
Miðvikudagur 04.desember 2024
Fókus

„Ég er í raun hellamálverk“ – Heillandi föðurráð Bubba

Ragna Gestsdóttir
Þriðjudaginn 5. nóvember 2024 12:56

Bubbi Morthens

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tónlistarmaðurinn Ásbjörn Morthens, Bubbi eins og við þekkjum hans best, gefur nú sína sjöttu ljóðabók, Föðurráð.

„Bubba Morthens þekkja allir og saga hans hefur verið sögð og skráð en Bubbi er ávallt í samtímanum og viðfangsefnin sífellt ný – og þó sígild. Hér yrkir hann um lífsreyndan föður sem fylgist með ungum dætrum á leið út í lífið, þann ólgusjó sem hann hefur sjálfur siglt, en ráð hans og orð fá ekki alltaf hljómgrunn.

Föðurráð fjallar um ugginn sem býr í brjóstinu en líka ástina og fögnuðinn yfir framrás lífsins, nýjum degi, nýrri veröld, segir í kynningu bókarinnar.“

Í bókinni talar Bubbi eins og heiti bókarinnar bendir til barna sinna, en hann á tvo syni og þrjár dætur á aldrinum 12-34 ára. Eiginkona hans á einnig dóttur frá fyrra sambandi. Ljóðunum er þó í meira mæli beint til dætra hans, og lýsa áhyggjum föður af hvernig dætrum hans mun vegna í lífi og samböndum. 

Bubba og æviferil hans þekkja allir enda hefur hann verið þjóðareign frá því hann steig fyrst á tónlistarsviðið. Kosti og bresti hans getur hann því illa falið fyrir neinum og hvað þá börnum sínum sem hafa lesið um föður sinn á forsíðum fjölmiðla frá barnsbeini.

Bubbi hlífir sjálfum sér ekki og segist sjálfur vera af allt annarri kynslóð, og biðlar til dætra sinna að velja mannsefni sem líkist honum ekkert. 

Hellamálverk

Ég er í raun hellamálverk
líf mitt er lófafar á andardrætti tímans
utangátta fæddur á öld þegar
konan var í hlekkjum

dætur okkar eru að sigra heiminn
háskólinn er þeirra
hafa lagt undir sig gresjuna
þær sitja í hring sækja og deila sögum

ekki velja ykkur mann
sem líkist mér

Bubbi talar fallega til eiginkonu sinnar, Hrafnhildar Hafsteinsdóttur, og segir hana þá mjúku í foreldrahlutverkinu:

Ef þær þurfa huggun
þá er hana að finna
hjá henni
-úr ljóðinu Móðurráð

Hann hvetur þó dætur sínar að marka sér sín eigin spor í lífinu:

Dætur mínar
markið ykkar spor
hjartað mun leiða ykkur áfram
-úr ljóðinu Hjartað lýgur aldrei

Allir foreldrar ættu að tengja við orð Bubba, þegar maður vill miðla góðum ráðum fengnum af eigin reynslu og brestum, en börnin sýna því enga athygli:

Ég reyni stundum að tjá mig um þetta
eina svarið sem ég fæ
er mitt eigið bergmál
-úr ljóðinu Ilmur

Bubbi er góður textahöfundur, enda hafa textar hans lifað með þjóðarsálinni í fjölda ára. Hann er einnig gott ljóðskáld og með stuttum hnitmiðuðum ljóðum kann hann að koma gleði, áhyggjum, og sorgum foreldris fram þannig að allir foreldrar tengja við. 

Föðurráð er falleg ljóðabók, sem hentar öllum foreldrum, þeim sem eiga foreldri eða hafa hug á að verða foreldri.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Móðir birti átakanlega mynd af syni sínum sinna heimanáminu

Móðir birti átakanlega mynd af syni sínum sinna heimanáminu
Fókus
Í gær

Rifjar tárvot upp líkamssmánun fjölmiðla

Rifjar tárvot upp líkamssmánun fjölmiðla
Fókus
Fyrir 2 dögum

Vikan á Instagram – Lúðar að leika sér og skvísur í París

Vikan á Instagram – Lúðar að leika sér og skvísur í París
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sólveig notar vímuefni í æð alla daga – „Ég get ekki meira af þessu lífi“

Sólveig notar vímuefni í æð alla daga – „Ég get ekki meira af þessu lífi“