Aðdráttarafl stórleikkonunnar Trine Dyrholm kom bersýnilega í ljós í Bíó Paradís þegar hún mætti til þess að vera viðstödd frumsýningu á kvikmyndinni Stúlkan með nálina, miðvikudagskvöldið 30. október. Fjöldinn allur af leikurum úr íslensku leikarastéttinni flykktist í bíó til þess að hitta Trine Dyrholm og sjá þessa óhugnanlegu kvikmynd.
Trine Dyrholm klæddist kóngablárri buxnadragt og stillti sér meðal annars upp með Ingvari Sigurðssyni, leikara.
Í kvikmyndinni er klæðaburður hennar öllu drungalegri því Trine leikur glæpakvendi sem var uppi fyrir 100 árum í Danmörku. Sagan byggir á sannsögulegum atburðum og segir frá konu sem var þekkt fyrir að aðstoða fátækar konur við að koma nýfæddum börnum í fóstur. Sagan opnar dyr að heimi leyndarmála og örvæntingar.
Trine lék á als oddi í spjalli við kollega sína í anddyri Bíó Paradísar áður en sýningin hófst en kvikmyndin var frumsýnd hér á landi áður en hún er frumsýnd í Danmörku. Eftir bíósýninguna var boðið upp á Kvöldstund með…., sem er nýr dagskrárliður í Bíó Paradís og stýrði Vera Sölvadóttir, kvikmyndagerðarkona, spjallinu að þessu sinni við Trine Dyrholm.