Sunnudaginn 27. október komu aðdáendur bandarísk/franska leikarans Timothée Chalamet saman í Washington Square Park í New York þar sem fór fram keppni um hver líktist leikaranum mest. Viðburðahaldarar auglýstu tvífarakeppnina með veggspjöldum víðsvegar um borgina og eftir að hún hófst og myndböndum var dreift á samfélagsmiðlum fjölgaði enn frekar í hópnum.
Samkvæmt fréttum söfnuðust hundruð manna saman klukkan 13:00, þar á meðal aðdáendur klæddir upp sem frægar persónur leikarans eins og Willy Wonka úr Wonka og Bob Dylan úr væntanlegri kvikmynd um ævi hans.
Það ætlaði þó allt um koll að keyra þegar Chalamet mætti sjálfur óvænt á svæðið. Sást hann veifa til viðstaddra, heilsa aðdáendum og stilla sér upp með þeim fyrir myndatöku.
@jadiecakes_ timothee chalamet at his lookalike contest 😭😭 #timotheechalamet ♬ original sound – jadiecakes_
Þar sem ekki hafði verið sótt um leyfi til að halda viðburðinn mættu lögreglumenn fljótt á svæðið til að dreifa mannfjöldanum. Að minnsta kosti einn var handtekinn og fengu skipuleggjendur viðburðarins sekt upp á 500 dali. Aðdáandi sem klæddist fjólubláum Willy Wonka búning var að lokum krýndur sigurvegari, en ekki er staðfest hvort viðkomandi fékk þá 50 dali sem lofað var sem aðalverðlaunum.
Kvikmyndin A Complete Unknown, þar sem Chalamet leikur aðalhlutverkið, sjálfan Bob Dylan er nú í lokaframleiðslu, en myndin verður frumsýnd um jólin.