Í gær voru tvær nýjar stefnur lagðar fram gegn Diddy en hann er annars vegar sakaður um að hafa misnotað tíu ára dreng á hótelherbergi árið 2005 og hins vegar um kynferðisbrot gegn 17 ára pilti sem hugðist taka þátt í raunveruleikaþáttunum Making the Band árið 2008.
Verjendur tónlistarmannsins hafa hafnað þessum ásökunum og segja að Diddy hafi „aldrei brotið gegn neinum kynferðislega eða stundað mansal – ekki á konum, fullorðnum einstaklingum eða börnum,“ eins og það er orðað í umfjöllun AP.
Tíu ára drengurinn sem Diddy er sagður hafa brotið gegn var upprennandi leikari og rappari og ferðaðist hann til Kaliforníu með foreldrum sínum. Hann er sagður hafa farið í einhvers konar áheyrnarprufu á heimili Diddy og fengið drykk sem búið var að setja ólyfjan út í.
Þegar drengurinn missti meðvitund er hann sagður hafa verið misnotaður og á Diddy að hafa hótað því að valda foreldrum hans skaða þegar hann vaknaði ef hann kjaftaði frá.
Sautján ára pilturinn er sem fyrr segir sagður hafa verið í áheyrnarprufum fyrir raunveruleikaþáttinn Making the Band árið 2008. Samkvæmt kærunni á Diddy að hafa brotið gegn honum kynferðislega ásamt lífverði sínum. Áheyrnarprufan stóð yfir í þrjá daga og þegar drengurinn lýsti yfir vanþóknun á meðferðinni var hann sendur heim úr prufunni.
Frá því um miðjan september hefur Diddy setið í Metropolitan-afplánunarfangelsinu í Brooklyn og er útlit fyrir að hann verði þar eitthvað fram á næsta ár hið minnsta. Hann hefur verið ákærður fyrir kynferðisbrot, mansal og kynlífsþrælkun en búist er við því að réttarhöld í máli hans hefjist í byrjun maí næstkomandi.