Linda Pétursdóttir, lífsþjálfi og fyrrum Ungfrú Ísland og Ungfrú Heimur, fjallar um samband sitt og kærasta síns, Jamie, í nýjasta þætti hlaðvarps síns, Podcast með Lindu Pé.
„Mig langar að koma aðeins inn á það hvernig ég hef til dæmis unnið með mitt ástarsamband og sambandið við kærastann minn,“ segir Linda í þættinum sem ber heitið Ástin og aldursmunur.
„Hann er úr öðrum menningarheimi, hann er suðrænn Spánverji og svo er hann töluvert yngri en ég. Við erum ólík, mjög ólíkar týpur en það hefur bara verið, hvað á ég að segja? Blossinn hjá okkur, til að láta ástina okkar að blómstra, við leyfum hvort öðru bara að vera nákvæmlega eins og við erum og svo komum við bara saman. Við hugsum um þetta, hann sem einstakling, mig sem einstakling og svo sambandið okkar í rauninni sem annan einstakling og reynum að næra það þannig,“ segir Linda.
Hún segir ýmsar áskoranir fylgja því að vera í sambandi með einhverjum sem er svona ólíkur manni en líka gjafir. „En við höfum gefið hvort öðru rými til að vera nákvæmlega eins og við erum“.
Parið opinberaði samband sitt í lok sumarsins 2023, en þau kynntust á Spáni.
Sjá einnig: Linda Pé gengin út
Í þættinum ræðir Linda um aldursfordóma sem hún segir ríkja í samfélaginu. Jamie er yngri en hún og tekur Linda dæmi um fordóma, sérstaklega gagnvart konum sem eiga yngri menn.
„Ég hef til dæmis alveg upplifað það núna að það hefur komið í fjölmiðlum fyrirsagnir eins og „Linda og ungi kærastinn“, eins og það sé sérstaklega áhugavert að ég eigi yngri kærasta en mér finnst svo gott að koma inn á þetta því í gegnum tíðina hef ég yfirleitt verið með mönnum sem eru eldri en ég og jafnvel þó nokkuð eldri en ég. Þetta er svona í fyrsta skipti sem ég á yngri kærasta og ég svo sannarlega féll ekki fyrir honum út af aldrinum hans, við urðum bara einfaldlega ástfangin og aldurinn er ekki eitthvað sem ég læt stoppa mig í að lifa mínu draumalífi. Ég get til dæmis tekið dæmi, bara með barnsföður minn. Ég get alveg sagt það hér að barnsfaðir minn er til dæmis 14 árum eldri en ég en það hefur aldrei verið skrifað „Linda og gamli barnsfaðir hennar“ eða „Linda og gamli kærastinn“.
Hlusta má á þáttinn í heild sinni hér.