Þetta kemur fram í nýrri kæru sem lögð hefur verið fram gegn tónlistarmanninum.
Atvikið er sagt hafa átt sér stað í gleðskap árið 2022 sem haldinn var til að fagna útgáfu á nýjum vodka-drykk frá fyrirtækinu Ciroc.
Fórnarlambið, sem kallast bara John Doe í kærunni, er viðskiptajöfur í Los Angeles sem leigir meðal annars lúxusbíla til viðskiptavina sinna.
Hann segir að Diddy hafi boðið honum inn á einkaskrifstofu sína í gleðskapnum þar sem vafasamir hlutir fóru fram. Segir hann að Diddy hafi klætt sig úr buxunum og berað kynfæri sín áður en hann greip í kynfæri hans utan klæða og „kreisti þau á grófan og kynferðislegan hátt“ eins og það er orðað.
Í stefnunni kemur fram að atvinnumaður í íþróttum, sem ekki er nefndur á nafn, hafi komið að þeim á skrifstofunni og stöðvað það sem þar fór fram. Viðskiptajöfurinn er sagður hafa drifið sig út af skrifstofunni og yfirgefið gleðskapinn í flýti.
Maðurinn sagði að Diddy hefði verið viðskiptavinur hans um árabil og hann fallist á að mæta í gleðskapinn eftir að hann fékk fregnir af því að fleiri stórstjörnur yrðu á svæðinu.
Margar ásakanir hafa komið fram á hendur Diddy að undanförnu en í gær var greint frá því að hann væri sakaður um að brjóta kynferðislega á 13 ára stúlku í gleðskap eftir MTV-verðlaunahátíðina árið 2000.