Eiginkona Kolbeins Más Guðjónssonar, sem var með krabbamein, var send heim fárveik af spítala vegna plássleysis. Eftir að hann lét í sér heyra var búið til pláss fyrir hana á bráðamóttökunni og henni komið fyrir þar.
„Ég hef fylgt foreldrum mínum, mínum besta vini og eiginkonu minni gegnum krabbameinsmeðferðir og þau eru öll látin,“
segir Kolbeinn Már, en eiginkona hans, Þórhalla Gunnarsdóttir, lést 14. júlí 2022, 58 ára að aldri.
Kolbeinn Már segir sögu sína í tilefni af Bleiku slaufunni, árlegu árvekni- og fjáröflunartátaki Krabbameinsfélagsins, sem jafnan fer fram í október. Bleika slaufan er komin út í 25 sinn, hönnuð af Sigríði Soffíu Níelsdóttur, Siggu Soffíu, sem greindist brjóstakrabbamein árið 2020 og þurfti að fara í lyfja- og geislameðferð og aðgerð.
„Viku áður en Þórhalla lést var hún lögð inn á spítala vegna veikinda og verkja og það var ekkert pláss og þurfti að senda hana heim. Það var ekki fyrr en ég lamdi í borðið og við létum í okkur heyra að þetta væri ekki boðlegt, að þá var hún send með bíl á bráðamóttökuna af því það var ekki pláss á dagdeildinni og hún svaf á bráðamóttökuni eian nótt eða tvær. Síðan var hún færð til og búið til pláss.
Þetta er eitthvað sem þú vilt ekki vera að hugsa um: „Er pláss fyrir konuna mína af því að hún er kannski að deyja?“ Þetta er eitthvað sem þú vilt ekki þurfa að fara í gegnum”.
Kolbeinn Már segir leiðinlegt að þurfa að gefa krabbameinssjúklingum það ráð að leika sig veikari til að fá þá þjónustu sem þeir þurfa. Hann vill líka leggja áherslu við þá sem eru að ganga í gegnum þetta að vera þakklát fyrir það sem þau hafa.
,,Ég er ofboðslega stoltur af börnunum mínum fyrir að hafa haldið áfram með sitt líf, fjölgað mannkyninu og bætt við sig menntun, í öllu sem gekk á. Ég hvet fólk til að horfa í kringum sig og þakka fyrir það sem þú hefur.
Eins og tilfinningar það er það mikið sem gengur á í hausnum á þér að þú þarf einhvern veginn hjálp til að kortleggja það niður. Það er ágætt að muna að þú ert ekki ein eða einn, leitaðu þér hjálpar og sérstaklega til þeirra sem hafa reynslu.“