Frá því um miðjan september hefur P. Diddy því setið í Metropolitan-afplánunarfangelsinu í Brooklyn og er útlit fyrir að þar verði hann fram yfir áramót hið minnsta.
Lögmaður P. Diddy ræddi við fjölmiðla í gær þar sem hann var meðal annars spurður að því hvað hefði verið erfiðast fyrir tónlistarmanninn í fangelsinu.
„Ég held að maturinn sé sennilega það erfiðasta fyrir hann,“ sagði lögmaðurinn, Marc Angifilo, samkvæmt frétt New York Post.
Post greindi frá því á dögunum að fyrsta daginn í fangelsinu hefði hann getað valið á milli þess að fá sænskar kjötbollur eða svartbaunaborgara. Með þessum máltíðum gat hann svo valið um að fá aukalega eggjanúðlur, grænar baunir eða salat.
Mikið hefur verið rætt og ritað um hegðun tónlistarmannsins að undanförnu, en hann hefur sem kunnugt er verið ákærður fyrir kynferðisbrot, mansal og kynlífsþrælkun. Hafa margar konur stigið fram og sakað hann um brot gegn sér. Er hann meðal annars sagður hafa þvingað konur og kynlífsverkafólk til að taka þátt í kynsvalli sem hann hélt fyrir nafntogaða einstaklinga.
Búist er við því að réttarhöld í máli tónlistarmannsins hefjist í byrjun maí næstkomandi.