fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Fókus

Varð hissa þegar Sölvi sagði henni frá því sem hann sá lögreglumann gera – „Það kemur mér á óvart að heyra þetta“

Fókus
Mánudaginn 7. október 2024 10:23

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar segir andlega líðan unga fólksins á Íslandi vera eitt stærsta mál samfélagsins. Þorgeður, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar, segir skautun fjarlægja okkur frá mennskunni og MeToo byltingin hafi ekki gefið konum leyfi til að ljúga upp á karlmenn. Hún segir lífsreynslu vanmetna og hún spyrji sig reglulega hvernig hún geti notað eigin reynslu af erfiðum hlutum til að bæta samfélagið.

„Mér finnst gaman að vera í stjórnmálum. Þetta er ofboðslega skemmtilegt starf og ég mun hætta í stjórnmálum um leið og það verður leiðinlegt. Það er mjög mikilvægt að við fáum ferska vinda í öll svið samfélagsins, en mér finnst reynsla vanmetið fyrirbæri. Bæði í pólitík og lífinu almennt. Ég er búin að fara í gegnum alls konar hluti og ég finn hvernig það hjálpar mér að geta sett mig í spor annarra. Ég spyr mig mjög oft þegar ég fer upp í sveitina mína og anda að mér sveitaloftinu: „Hvernig get ég nýtt það sem ég hef upplifað til að bæta samfélagið?“ Sum af þeirri reynslu sem ég hef fengið í lífinu hefur ekki verið skemmtileg og jafnvel mjög krefjandi á köflum, en spurningin er hvernig getur maður nýtt hana til góðs. Ég er búin að vera lengi í stjórnmálum og finnst ég hafa nokkuð góða innsýn inn í það hvað venjulegt fólk á Íslandi er að hugsa og glíma við.“

Andleg líðan unga fólksins

Þorgerður segist finna það þegar hún hitti fólk um allt land að það sem brenni á fólki sé einkum tvennt. Annars vegar efnahagsmálin og fjárhagsáhyggjur hjá venjulegu fólki og svo andleg líðan unga fólksins okkar.

„Það er tvennt í dag sem ég finn að brennur á fólki. Það eru annars vegar efnahagsmálin og svo andleg líðan fólks og ekki síst unga fólksins okkar. Ég finn það alltaf þegar ég fer í framhaldsskólana til dæmis. Andleg líðan unga fólksins okkar er að mínu mati eitt allra stærsta mál samfélagsins og eitthvað sem stjórnmálamenn eiga að láta sig varða. Hluti af því er ástandið í efnahagsmálum og það hvernig venjulegar fjölskyldur eru í fjárhagsvanda sem býr til streitu sem skilar sér síðan til barnanna. Almenningur á Íslandi á rétt á því að þurfa ekki stöðugt að vera að hafa áhyggjur af hækkun afborgana á húsnæðinu sínu og að það verði einhver stöðugleiki,“ segir Þorgerður sem talar líka í þættinum um undirliggjandi reiði og skautun í íslensku samfélagi, sem stundum dragi ekki fram það besta í umræðunni.

„Skautunin veldur því að pendúllinn þarf oft að fara mjög ýkt í báðar áttir. Það er annað hvort eða og svart hvítur veruleiki. Til að mynda MeToo byltingin gaf ekki konum leyfi til að ljúga upp á karlmenn. En hún veitti konum kraft til að segja frá reynslu sinni. Við þurfum að finna leið til að ná alls konar hlutum í jafnvægi, án þess að festast á öðrum hvorum pólnum. Við þurfum að geta tekið á móti öllum með kærleika og sýna fólki með ólíkan bakgrunn skilning og hlustun en ekki bara festast í því að sumir séu góðir og aðrir vondir.”

Boð og bönn

Í þættinum ræða Sölvi og Þorgerður um innflytjendamál, glæpi, ofbeldi og vanlíðan hjá ungu fólki og hvar hið opinbera eigi að stíga inn í og hvar ekki. Þorgerður segist almennt ekki hrifin af samfélagi með of miklum boðum og bönnum, en þó séu undantekningar.

„Ég tel að við þurfum að vera miklu harðari þegar kemur að glæpum og ekki bara hlusta á lögregluna, heldur verðum við að auka sýnilega löggæslu. Við þurfum að vera töff þegar kemur að glæpum. Hvort sem um er að ræða íslenska eða erlenda glæpamenn,“ segir Þorgerður, sem segir þó að það komi sér á óvart þegar Sölvi segist hafa ítrekað séð lögreglumenn með sýnilegar skammbyssur á veitingastöðum og öðrum opinverum stöðum.

„Það kemur mér á óvart að heyra þetta og ég vissi reyndar ekki að lögreglumenn á Íslandi væru með skammbyssur svona sýnilegar. En þó að það sé kannski ekki endilega æskilegt, þá finnst mér bara að við verðum að taka harðar á glæpum en við höfum verið að gera. Við erum bara 400 þúsund og eigum að geta haft betri stjórn á þessum hlutum.”

Sími í skólum

Annað mál þar sem Þorgerður telur tíma til kominn á að settar verði einhvers konar skorður og reglur vera símanotkun í skólum.

„Það er ítrekað verið að sýna fram á hluti sem við getum ekki lengur látið eins og við heyrum ekki. Ég var í mörg ár á því að það ætti ekki að vera með boð og bönn til dæmis þegar kemur að símum, samfélagsmiðlum og snjalltækjum. En nú erum við bara að sjá börnin okkar missa sig inn í eitthvað sem við vitum ekki hvað er. Ég held eftir að hafa talað við fullt af skólafólki að við verðum að setja reglur. Það er ástæða fyrir því að það er verið að setja skorður við samfélagsmiðla- og símanotkun í skólum í mörgum löndum. Það er augljóst að við verðum að gera eitthvað í þessu.“

Liverpool

Sölvi bauð Þorgerði að drekka kaffi úr Liverpool bolla í þættinum við mikla hrifingu hennar, enda hefur hún verið eindreginn stuðningsmaður þeirra rauðu úr Bítlaborginni síðan hún var barn.

„Ég er búin að halda með Liverpool síðan ég var sjö ára, en gerði þau mistök að leyfa Kristjáni (Arasyni) að ráða. Ég var búinn að kaupa Liverpool búning á fyrsta barnið og það var allt klárt þegar hann setur upp hvolpaaugu og spyr hvort hann megi ekki fá að ráða og ég gaf eftir. Svo auðvitað vissi hann að elsta barnið ræður, þannig að ég er föst á heimili með Manchester United skara í kringum mig. Þegar það gekk sem verst hjá Liverpool var iðulega beðið eftir því að ég kæmi heim og svo fékk ég það óþvegið frá þeim. Þetta var miklu verra en eittvhað at í þinginu og ég kveið því iðulega að mæta heim. En svo þegar töflin snerust og Liverpool fóru að valta yfir United sýndi ég þeim nú bara mildi, þó að ég hafi aðeins strítt þeim og leyft þeim að finna sitt eigið meðal. En þetta er eitt af því sem er gaman í fjölskyldum, að hafa eitthvað þar sem ekki allir eru með sömu skoðun.“

Hægt er að nálgast viðtalið við Þorgerði og öll viðtöl og podköst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Móðir segir Ísland ekki lengur barnvænt og kallar eftir hugarfarsbreytingu – „Þetta er alvarlegt vandamál. Við þurfum hjálp!“

Móðir segir Ísland ekki lengur barnvænt og kallar eftir hugarfarsbreytingu – „Þetta er alvarlegt vandamál. Við þurfum hjálp!“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ómar leitar að leigjanda yfir jólahátíðina fyrir 600 þúsund krónur

Ómar leitar að leigjanda yfir jólahátíðina fyrir 600 þúsund krónur
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ragnhildur segir að þessi spurning valdi fólki miklum kvíða um jólin

Ragnhildur segir að þessi spurning valdi fólki miklum kvíða um jólin
Fókus
Fyrir 4 dögum

Búllukóngur selur 330 milljóna króna höll á Arnarnesinu

Búllukóngur selur 330 milljóna króna höll á Arnarnesinu