fbpx
Föstudagur 13.desember 2024
Fókus

Hvunndagshetjan orðheppna

Jakob Snævar Ólafsson
Sunnudaginn 7. janúar 2024 10:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eins og greint var frá fyrr í þessari viku lést rithöfundurinn Auður Haralds 2. janúar síðastliðinn.

Sjá einnig: Auður Haralds fallin frá

Á bókmenntavefnum Skáld segir að í skáldsögum sínum fjalli Auður um kvennakúgun og hlutskipti lágstéttarkvenna og stíll hennar hafi einkennst af íróníu, frumlegum myndhverfingum og sviðsetningum.

Auður kvaddi sér hljóðs á ritvellinum árið 1979 með fyrstu skáldsögu sinni Hvunndagshetjan: þrjár öruggar aðferðir til að eignast óskilgetin börn. Sú bók vakti mikla athygli og ýtti hressilega undir umræðu í íslensku samfélagi um heimilsofbeldi og kvennakúgun sem hafði að talsverðu leyti verið falið vandamál fram að því.

Í sérstökum þætti um Auði sem RÚV sýndi síðasta vor sagði hún að upphaflega hefði hún byrjað að skrifa vegna fjárhagserfiðleika. Hún sagðist einnig hafa rætt um það við vini sína í kaffiboði að hún yrði að skrifa ævisögu sína þar sem hún fengi aldrei að tala til enda þegar hún væri að segja þeim frá einhverju. Í kjölfarið hafi vinkona Auðar, sem viðstödd var kaffiboðið og þekkti til innan bókaútgáfubransans, bent á Auði sem þá var einstæð þriggja barna móðir.  Hafi konan sagt við fólkið í útgáfubransanum að Auður væri svo góður rithöfundur en ætti erfitt með skrifin þar sem hún væri þriggja barna móðir. Samt sem áður hafi vinkonan heimsótt Auði nokkrum dögum síðar og spurt hvernig gengi að skrifa bókina. Á endanum varð Hvunndagshetjan, sem Auður byggði á eigin lífi, til.

Stanslaus áreitni

Hvunndagshetjan vakti mikla athygli en raunin varð að henni fylgdi mikil áreitni í garð Auðar sem var nánast stöðug á áttunda og níunda áratug síðustu aldar þegar hún sendi frá sér alls 10 bækur. Í áðurnefndum þætti á RÚV sagði Auður:

„Ég hafði mig í gegnum þetta. Mér fannst þetta vera mjög slæmur fylgifiskur en ég hafði mig í gegnum þetta. En mér fannst þetta óréttlátt allan tímann.“

Hringt hafi verið heim til hennar á öllum tímum sólarhrings og skvett hafi verið yfir hana úr glösum þegar hún fór út að skemmta sér.

Næst á eftir Hvunndagshetjunni sendi Auður frá sér skáldsöguna Læknamafían, árið 1980, en sú bók bar þess merki að þó nokkuð hafði verið um harkaleg viðbrögð við Hvunndagshetjunni. Á vefnum Skáld segir um þá bók að framan á bókarkápunni hafi staðið ,,Lítil pen bók eftir Auði Haralds“ en þannig hafi Auður vísað til þeirra niðrandi ummæla sem kvenrithöfundar þurftu að þola um skáldverk sín á þessum tíma.

Skáldsagan Hlustið þér á Mozart kom næst, árið 1982, en þar deildi Auður með sínum hreinskilna húmor á innantómt líf heimavinnandi húsmóður sem drepur tímann með því að lesa innihaldsrýrar ástarsögur. Árið 1987 deildi hún á slíkar bókmenntir í skáldsögunni Ung, há, feig og ljóshærð en eftir það lagði hún bókaskrif að mestu leyti á hilluna. En áður en kom að því hafði hún árunum 1983-1986 sent frá sér fimm barnabækur um drenginn Elías og unglingabókina Baneitrað samband á Njálsgötunni.

Margar hurfu af vettvangi bókanna

Auður var ekki eina konan sem ákvað að kveðja bókaskrifin á níunda áratug síðustu aldar og var það ekki síst vegna mikils mótlætis og oft á tíðum hreinnar andúðar sem þessar konur urðu fyrir. Fjárhagslegar ástæður og þá helst þær litlu tekjur sem fengust fyrir skrifin áttu þó einnig sinn þátt í ákvörðun Auðar

Eftir að Auður Haralds sagði skilið við bókaskrif hætti hún þó ekki alfarið að skrifa en hún skrifaði fjölmarga pistla sem birtir voru í hinum ýmsu fjölmiðlum. Hún sá einnig um þýðingar, gerði útvarpsþætti og starfaði sem blaðamaður.

Auður sendi frá sér smásöguna Aðdragandi árið 1994 og 2007 kom barnabókin Litla rauðhærða stúlkan. Í kringum aldamótin var skáldsaga hennar Hvað er drottinn að drolla birt í netheimum. Rúmlega 20 árum síðar var hún horfin eins og stundum vill verða með efni sem bara er birt á netinu. Hún fannst þó aftur og var gefin út í bókarformi 2022 og reyndist það vera síðasta bók Auðar.

Hispurslaus hreinskilni

Auður þótti orðheppin og hikaði ekki við að koma fram af hispurslausri hreinskilni. Það er ekki úr vegi að enda þessa samantekt á nokkrum dæmum um þetta.

Í viðtali við DV árið 1993 sagði Auður meðal annars um þá áreitni sem hún varð fyrir vegna skrifa sinna:

„Það sem gerist er að maður vekur á sér óþarflega mikla athygli svo að þjóðarsálin rís upp. Þetta hefur lengi verið viðloðandi Íslendinga, óttinn við að einhver haldi að hann sé eitthvað. Jafnvel Jesús Kristur hefði verið laminn niður hér fyrir að halda að hann væri eitthvað þótt hann hefði haft pappíra upp á það. Hann hefði ekki þótt sýna nægilega hógværð.“

Árið 2018 sýndi RÚV heimildarþættina Unga Ísland en þar ræddu þekktir Íslendingar unglingsár sín en í hverjum þætti var hver áratugur síðari helmings 20. aldar tekinn fyrir og rætt um hvernig var að vera unglingur á hverjum áratug.

Auður, sem var fædd 1947, var meðal viðmælenda í þættinum sem fjallaði um áratuginn 1960-1970 en hún bar Íslandi unglingsára sinna ekki vel söguna. Staða kvenna hafi um margt verið bágborin. Víða hafi verið ætlast til þess að þær giftu sig og yrðu heimavinnandi húsmæður strax á aldrinum 16-18 ára og það hafi verið talin algjör óþarfi að þær menntuðu sig. Skiptingin frá því að vera barn og yfir í það að vera fullorðinn hafi verið allt of hröð og ótímabær:

„Við vorum svona lítil vélmenni, það var takki á okkur og þegar við fermdumst þá var stillt frá barni yfir í fullorðið,“ sagði Auður.

Auður sagði að foreldrar sínir hafi verið meðal þeirra sem höfðu þessa afstöðu gagnvart stöðu kvenna:

„Ég veit ekki hversu viðloðandi þessi hugmynd var í samfélaginu en þetta var það sem ég upplifði. Skólasystur mínar fóru margar í framhaldsnám en ég fór ekki, ég átti bara að gifta mig. Þurfti ekki menntun, konur þurftu það ekki, það yrði séð fyrir mér sagði mamma.“

Auður sagði einnig að faðir hennar hafi beinlínis haft ímugust á menntun.

Langt í land með að ná jafnrétti

Þetta sama ár, 2018, ræddi Auður við Síðdegisútvarpið á Rás tvö í tilefni af kvennafrídeginum 19. júní. Óhætt er að segja að Auður hafi ekki brugðið upp fagurri mynd af stöðu jafnréttismála við þetta tækifæri. Hún var spurð hvort það væri ekki við hæfi að segja til hamingju með daginn:

„Nei ekki við mig. Þú getur gert það við einhvern annan, en ekki mig. Ég þigg það ekki. Vegna þess að ég vil fyrst fá jöfn réttindi. Og ekki bara að það fréttist til útlanda að við séum með þau, heldur vil ég fá þau.“

Auður átti ekki von á því að barnabörn hennar myndu upplifa það að fullu jafnrétti yrði náð á Íslandi.

Aðspurð hvað hefði breyst í jafnréttismálum á síðustu 40 árum sagði Auður:

„Ég held það sé aðallega það að þegar ég kem í Brynju, þá fæ ég almennilega afgreiðslu. Þegar ég kom í Húsasmiðjuna fyrir 40 árum var komið fram við mig eins og ég væri fífl í bleyju og ekki fjárráða.“

Auður sagði þó að það gerðist enn oft að konur væru hunsaðar af afgreiðslumönnum í verslunum:

„Konur eru ennþá hálf-ósýnilegar. Tala nú ekki um ef þær eru komnar langt yfir tvítugt, til dæmis orðnar 31 árs. Um leið og þær eru komnar yfir fertugt, þá er það bara „Af hverju ferð þú út? Hefurðu ekki sómakennd? Haltu þig heima hjá þér! Þú ert ljót. Ekkert gaman að ríða svona. Burt!“

Af hverju reddar drottinn þessu ekki?

Í tilefni af útgáfu skáldsögunnar Hvað er drottinn að drolla, árið 2022, ræddi Auður við Vísi og var eins og hennar var von og vísa hreinskilin þegar kom að því hvernig hún leit á almættið:

„Hvernig stendur á því að Drottinn kemur ekki og reddar hlutunum þegar fólk er liggjandi á bæn, trúir þessu alveg. Svo gerist bara ekkert. Það heldur bara áfram að steindrepast. Það er það sem við höfum hér.“

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum
Fókus
Í gær

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram