Ný auglýsing fyrir Eurovision sem birt var núna um áramótin hefur valdið þó nokkru höfuðklóri. Í henni segir að Karíbahafið sé á leiðinni í keppnina.
„Karíbahafið er að koma til Eurovision söngvakeppninnar í Malmö 2024“ segir í stuttu myndbandi sem birt var á samfélagsmiðlum. „Fylgist með, við getum ekki beðið eftir að segja ykkur meira“ segir svo í færslunni með myndbandinu.
Engar aðrar upplýsingar fylgja auglýsingunni. En í myndbandinu eru Eurovision stefið spilað á stáltrommur, sem eru einkennishljóðfæri Karíbahafsins.
Vangaveltur hafa verið um hvort myndbandið merki að Karíbahafseyju eða eyjum verði hleypt inn í keppnina. Í Karíbahafinu eru 13 sjálfstæð ríki auk nokkurra sjálfstjórnarhéraða. Jamaíka, Barbados, Bahama eyjar, Trinidad og Tóbagó og margar fleiri eyjar. Fjöldi þekktra tónlistarmanna hafa komið frá Karíbahafinu. Meðal annars Bob Marley, Wyclef Jean og Rihanna.
Ekki eru allir hrifnir af tilhugsuninni um að hleypa Karíbahafseyjum inn í keppnina.
„Þetta er Eurovision, ekki Worldvision“ sagði einn reiður netverji í athugasemd við færsluna.
„Það eru allt of mörg lönd í Karíbahafinu,“ sagði annar.
„Ég hlýt að hafa verið of upptekinn af því að súpa á stafrænum kókossafa og misst af þeirri stund þegar Karíbahafið ákvað að ganga í Evrópu,“ sagði enn annar netverji með þjósti.
Í frétt bresku fréttastofunnar Sky um málið er hins vegar bent á að Eurovision keppnin hafi ekki alltaf verið bundin við landafræði álfunnar.
Ástralíu var boðið að taka þátt árið 2015 vegna einskærs áhuga andfætlinga á keppninni. Það þróaðist hins vegar út í að Ástralía keppir á hverju einasta ári núna.
View this post on Instagram
Ef þú sérð ekki færsluna hér að ofan getur virkað að endurhlaða síðuna.
Ísrael hefur keppt síðan árið 1973 og unnið tvisvar og Norður-Afríkulandið Marokkó keppti árið 1980. Þá hefur Tyrkland keppt síðan árið 1975 þrátt fyrir að vera að langstærstum hluta í Asíu og Kákasusríkin Georgía, Armenía og Aserbadjan eru oft talin til Asíuríkja frekar en Evrópuríkja.
Alls er óvíst að EBU séu að hleypa einu eða fleiri Karíbahafsríki inn í keppnina sem haldin verður 7. til 11. maí. Hugsanlegt er líka að Karíbahafsríki sendi saman keppendur til Malmö, líkt og þau senda sameiginlegt landslið á stórmót í krikket. Eða þá að auglýsingin þýði eitthvað allt annað.
Hafa ber í huga að þjóðum hefur farið fækkandi í Eurovision á undanförnum árum. 37 þjóðir kepptu árið 2023, sem er það minnsta síðan árið 2014. Í ár er hugsanlegt að Rúmenía detti út vegna fjárhagsörðugleika. Þá eykst þrýstingurinn á að vísa Ísraelum úr keppninni vegna innrásarinnar á Gasa.