Sverrir Þór Sverrisson hefur á síðustu árum breyst úr hreinræktuðum sprelligosa sem þjóðin elskaði að horfa á blanda ógeðsdrykki og hlaupa allsber niður niður Laugaveginn í einn ástsælasta leikara þjóðarinnar.
Hann er jafnvígur á útvarp, sjónvarp, kvikmyndir og leiksvið og bara núna í desember mátti sjá hann í verkefnum eins og Veislunni, sjónvarpsþætti í Sjónvarpinu, Kennarastofunni á Sjónvarpi Símans og Áramótaskaupinu. Núí janúar er Sveppi norður á Akureyri þar sem hann tekur þátt í uppsetningu Leikfélags Akureyrar á And Björk of Course. Sveppi er gestur Einars Bárðar í Einmitt í þessari viku og þar ræða þeir félagarnir litríkan og skemmtilegan feril Sveppa.
Einar spyr hann út íhina ýmsu samstarfsfélaga og hlutverk Sveppa eins og hann birtist okkur á þessum rúmlega 20 árum. Stundum er hann í hlutverki krakka-Sveppa með Góa eða Villa. Svo er hann sprelli-Sveppi með gömlu félögunum úr 70 mínútum. Síðan er stundum Sveppa- Sverrir og þá er hann meira hann sjálfur, þannig birtist hann okkur í þáttum eins og þegar hann flakkaði um heiminn með pabba sínum. Fór í tónleikaferð með Jökli og Kaleo og svo var skemmtileg þáttaröð sem Sveppi gerði með Eið Smára Guðjohnsen æskuvini sínum úr Breiðholti.
“Þetta var löng fæðing sko, af því að Eiður Smári er nú ekki beint þægilegasti gæinn sko,” segir Sveppi þegar talið berst að þessum heimsfræga fótboltamanni og sjónvarpsþáttaröð þar sem þeir æskuvinirnir þvældust saman um alla staði þar sem Eiður hafði spilað fótbolta á stórkostlegum knattspyrnuferli hans.
“Eiður er náttúrulega risanafn,” segir Sveppi og lýsir því hversu auðvelt það hafi verið að fá fræga menn eins og Jose Mourinho til liðs við þátttaröðina bara með því að nefna nafn Eiðs Smára. “Þetta var flott verkefni. Þetta voru æðislegir þættir og góður fílingur og mér finnst það skipta miklu máli í sjónvarpi. Því ef að kemestrían er góð þá kemstu alveg rosalega langt,” segir Sveppi.
Í dag er Sveppi hálf partinn fluttur á Akureyri til að undirbúa And Björk, of course sem Leikfélag Akureyrar frumsýnir í febrúar. Aðrir leikarar eru Jón Gnarr, Eygló Hilmarsdóttir, Arna Magnea Danks, Davíð Þór Katrínarson, María Pálsdóttir og María Heba Þorkelsdóttir. Sveppi segist hafa haft mestar áhyggjur af því að honum myndi leiðast einum á Akureyri þannig að hann bað um að hafa afdrep fyrir norðan þar sem hann gæti tekið á móti fjölskyldunni. “Ég er svo mikil félagsvera maður. Þegar það er gaman þá kúka ég bara með opna hurð svo ég missi ekki af neinu,” segir Sveppi.
Í þættinum fara Sveppi og Einar um víðan völl en hægt er að hlusta á hann í heild sinni hér.