Erlendir aðilar kanna nú áhugann á því að koma Secret Solstice tónlistarhátíðinni aftur á koppinn. Hátíðin hefur legið niðri síðan fyrir covid faraldurinn.
„Í sumar eru liðin 10 ár frá því að Secret Solstice hátíðin var haldin í fyrsta sinn og forsvarsmenn hátíðarinnar hafa síðustu vikur og mánuði fundið fyrir stöðugt auknum áhuga bæði frá gestum ásamt innlendum og erlendum listamönnum á að vekja hátíðina til lífsins á nýjan leik. Þá hafa erlendir aðilar sýnt áhuga á að koma að framkvæmd hennar, en hátíðin hefur legið í dvala síðan Covid faraldurinn braust út árið 2020 og hefur því ekki farið fram síðustu fjögur sumur,“ segja forsvarsmenn hátíðarinnar.
Í þau sex skipti sem hátíðin var haldin voru risastór tónlistaratriði flutt í Laugardalnum. Meðal annars Massive Attack, Wu-Tang Clan, Radiohead, Foo Fighters og Black Eyed Peas. Auglýst hafði verið að Cypress Hill, TLC og fleiri tónlistarmenn myndu troða upp á hátíðinni 2020 áður en henni var hætt. Nýtt félag tók yfir en hátíðin hefur ekki verið endurvakin eftir faraldur.
„Það er mjög stór ákvörðun að setja hátíðina aftur af stað enda er Secet Solstice hátíðin gríðarlega stór, flókinn og dýr viðburður í framkvæmd,“ segir í tilkynningunni. „Forsvarsmenn hátíðarinnar ákváðu að kanna hugsanlegan áhuga á hátíðinni verði af henni aftur með því setja af stað herferð þar sem áhugasamir eru hvattir til þess að skrá sig. Þá geta þeir sem það gera einnig komið með tillögur eða óskir um hugsanlega listamenn fyrir hátíðina. Fyrir þá sem taka þátt verða svo ýmis önnur fríðindi ef að hátíðinni verður.“
Hægt er að sýna áhuga á síðunni https://arep.co/w/secret-solstice-signup.
Náist að koma hátíðinni aftur af stað er ekki víst að hún verði haldin í Laugardalnum.
„Vegna breytinga í Laugardal þá er ekki víst að hátíðin geti farið fram þar aftur og því eru ýmsar nýjar staðsetningar til skoðunar – þá eru og allar ábendingar um skemmtilegar staðsetningar fyrir þessa langstærstu tónlistarhátíð Íslandssögunar vel þegnar.“