Hún er nýjasti gestur Einars Bárðasonar í hlaðvarpsþættinum Einmitt og opnar sig um heilablóðfallið og endurhæfinguna.
„Það er ár síðan og mér finnst þetta ennþá ótrúlega óraunverulegt,“ segir hún. „Þú veist hvernig maður hugsar; maður er ungur á besta aldri og það kemur ekkert hræðilegt fyrir. Fyrir mér var það bara gamalt fólk sem fær heilablóðfall,“ segir Manuela.
„Ég hef aldrei drukkið, aldrei reykt, aldrei verið í yfirþyngd. Í rauninni eina boxið sem ég tikka í, sem er talið geta orsakað heilablóðfall er kannski streita. En það er annar hver maður að burðast með streitu. En ég er kannski smá sek um það […] Eins og ég skilgreindi velgengni var að hafa rosalega mikið að gera, segja já við öllum verkefnum og hafa nóg að gera,“ segir hún. „Ég held það séu margir sem tengja við þetta.“
Í desember 2022 vaknaði Manuela með mikinn hausverk. „Þetta var um helgi og ég var með hausverk alla helgina, sama hvað ég gerði og hvaða lyf ég tók. Hann bara fór ekki. Síðan kom virkur dagur og ég fór ekki í vinnu heldur var bara í rúminu með þennan hræðilega hausverk. Ég var ein heima allan daginn, ákvað síðan fyrir einhverja hundaheppni að fara yfir í næsta hús til frænku minnar. Ég var þá búin að taka einhver treo verkjalyf sem sló aðeins á. Við sátum á móti hvor annarri í spjalli og svo sagði hún: „Manuela, Guð, hvernig geturðu gert þetta? Hættu þessu, hættu að fíflast.“ Og ég bara, vissi ekki hvað hún var að tala um. En þarna var ég orðin afmynduð í framan og hún hélt að ég væri að gretta mig. Svo missti ég málið og allan kraft í líkamanum og hneig niður við eldhúsborðið,“ segir Manuela.
„Þessi höfuðverkur sem ég var búin að vera með í tvo til þrjá daga áður, var í rauninni einkennið. Hann var á einum stað og ég gerði mér enga grein fyrir því að þetta gæti verið heilablóðfall […] Það sem bjargaði mér var að ég var ekki ein heima, heldur hjá frænku minni sem hringdi strax í neyðarlínuna og ég komst fljótt undir læknishendur. Það var það sem bjargaði því að þeir náðu að stoppa þannig að einkennin voru ekki varanleg. En ég þurfti samt að vera á spítala í rúmar tvær vikur og yfir jól og áramót.“
„Ég gat mjög fljótt talað aftur þó ég talaði ruglingslega, en gat gert mig skilningslega. Ég gat ekki labbað í örugglega fimm daga á spítalanum.“
Hún fékk heilablóðfallið 21. desember 2023. „Mér hefur fundist þetta mjög erfitt, þetta er risa áfall að lenda í svona veikindum,“ segir hún.
„Líka eins og fyrir manneskju eins og mig, ég á ekkert risa bakland og ég hef alltaf þurft að vera mjög dugleg og haft mikið að gera og verið með stóra drauma og svona, en svo er allt í einu öllu kippt undan manni og maður hefur enga stjórn. Því þegar þú missir heilsuna hefurðu enga stjórn. Ég hef alveg farið í gegnum tímabil þar sem ég verð ógeðslega reið því fólk segir oft við mig: „Þú ert svo heppin að þú varst hjá frænku þinni“ eða „þú varst svo heppin að það fór ekki verr.“ Og stundum hef ég sagt á móti: „Ég er ekki heppin! Ef ég væri heppin þá hefði þetta ekki komið fyrir mig.“
Ég hef alveg tekið tímabil þar sem ég er pirruð yfir þessu öllu. En ég reyni að horfa á þetta sem ákveðna blessun, af því að þegar maður gengur í gegnum svona og horfist í augu við að lífið getur verið búið hvenær sem er þá fer maður að hugsa hlutina öðruvísi og forgangsraða öðruvísi, og hugsa um fólkið sitt. Alls konar sem gerist og í mínu tilfelli fór ég að vinna mikið í mér og hlutum sem ég var kannski búin að ýta frá mér. Og mig langar aldrei að þessi veikindi verði einhver rosaleg sorgarsaga og allir vorkenni mér svo mikið, alls ekki.“
Manuela segir að hún hafi verið í afneitun um alvarleika veikindanna fyrst um sinn og sá fyrir sér að hún myndi snúa til baka í vinnu mánuði eftir heilablóðfallið.
„Ég er það ung og þetta kom bæði mér og öllum í kringum mig svo mikið á óvart,“ segir hún.
„Það er risa verkefni að sætta sig við að eitthvað gerist sem þú getur ekki stjórnað eða breytt, þú þarft að fara í gegnum það. Að ná sáttum við það var held ég lang stærsta skrefið í mínu bataferli. Ég man ég sat uppi á taugadeild, alveg fárveik, gat ekki skrifað SMS og var liggur við lömuð, en ég hugsaði samt með mér: „Ég verð örugglega farin að vinna eftir mánuð.“ Afneitunin var þannig,“ segir hún.
Manuela segist mjög þakklát taugalækninum sínum og heilbrigðisstarfsfólkinu sem hefur komið að bataferli hennar.
Hlustaðu á hlaðvarpsþáttinn hér að neðan.