„FKA Vesturland er vettvangur fyrir konur í atvinnulífinu á Vesturlandi sem hafa gagn og gaman af því að efla tengslanet sitt og styrkja hver aðra,“ segir Alexandra Ýr nýr formaður FKA Vesturlandi. „Markmið deildarinnar er að stuðla að samheldni og samvinnu kvenna og vera hreyfiafl fyrir konur í atvinnulífinu á Vesturlandi. Starf deildarinnar hófst árið 2018 og var stofnfundur haldinn í Stykkishólmi og í dag erum við rúmlega fimmtíu konur sem erum í deildinni núna.“
Ný stjórn tekur við keflinu af stjórn sem heldur betur hefur látið til sín taka innan FKA, mætt á viðburði um land allt og sett mark sitt á starfið. Alexandra Ýr Sigurðardóttir er nýr formaður deildarinnar, Jóhanna Elva Ragnarsdóttir gjaldkeri og Valdís Ósk Margrétardóttir ritari. Þá er Silja Guðbjörnsdóttir samskiptatengill deildarinnar og meðstjórnendur Dr. Eyrún Eyþórsdóttir og Halldóra Guðjónsdóttir.
Aldísi Örnu Tryggvadóttur fráfarandi formanni deildarinnar, Írisi Gunnarsdóttur og Rúnu Björgu Sigurðardóttur er þakkað starf í þágu félagsins. Alexandra Ýr og Jóhanna halda áfram í stjórn.
Viðburðir fyrir vestan á starfsárinu sem leið voru fjölbreyttir. „Sælustund í sveitinni þar sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, þáverandi fjármálaráðherra spjallaði við okkur ,,Frá konu til konu“, Uppskeruhátíð FKA Vesturland var í Hvammsvík í apríl síðastliðnum þar sem Helga Braga var með uppistand,“ segir Alexandra stolt af sínum konum. Aðrir merkisviðburðir starfsársins voru sóttir um landið eins og þegar hópur kvenna úr FKA Vesturlandi fóru saman á Landsbyggðarráðstefnu FKA í Reykjanesbæ þann 6.-7.október. Fræðsluerindin voru eftirminnilega sem og frábær helgi og samvera með félagskonum af landinu öllu til dæmis ,,Trúnó við varðeldinn” í Blush, Jólarölt FKA á Selfossi, Viðurkenningarhátíð FKA 2024 á Grand Hótel Reykjavík og Sýnileikadagur FKA í Arion svo eitthvað sé nefnt.