Chris Harris starfaði á árum áður sem blaðamaður hjá East Hampton Star. Sumarið 1999 hafði hann dag einn verið á leika sér á brimbretti á ströndinni þegar hann heyrði nokkra menn tala grillveislu heima hjá rapparanum P. Diddy.
Harris varð spenntur og ákvað að hlaupa að heimili rapparans til að reyna að sjá hvaða þekktu andlit hann gæti séð í þessari veislu. Hann lenti þá óvænt í því að rekast á unga konu sem spurði hvort hann vildi lauma sér inn í veisluna með henni. Til þess að koma þeim inn lét konan hann þykjast vera maður að nafni Ted Ammon, en sá var skráður á gestalista Diddy. Þannig komst ungi blaðamaðurinn inn í veisluna.
Hann hefur nú lýst því sem fyrir augum bar á heimili Diddy en hann segir í samtali við New York Post að stemningin hafi verið ólík öllu sem hann hafði vanist í lífinu til þessa.
„Loftið lyktaði eins og tónleikarúta Willie Nelson. Sundlaugin var full af konum sem voru ýmist naktar eða berar að ofan. Fyrirsætur gengu á milli með kampavínsglös. Það var löng biðröð til að komast að matnum og hún hreyfðist óbærilega hægt, en biðin varð þess virði enda hef ég enn ekki fengið betri pylsu. “
Harris sá þarna þekkta tónlistarmenn eins og Busta Rhymes og Jay-Z en líka fólk sem var þekkt úr viðskiptalífinu eða fyrirsætugeiranum svo sem Ivanka Trump og Carmen Electra. Harris fékk þó aðeins að fylgjast með því sem átti sér stað í garðinum hjá Diddy enda máttu aðeins ofurstjörnur fara inn á heimilið.
Blaðamaðurinn segist hafa skemmt sér konunglega og ekki séð neitt athugavert. Hann sá hvergi merki um sleipiefni eða barnaolíu, engin kynlífsleikföng og ekkert bleikt kókaín.
Diddy er sem stendur í gæsluvarðhaldi sakaður um að kynferðisbrot, mansal og kynlífsþrælkun. Hingað til hafa 12 konur stigið fram og sakað hann um brot gegn sér en Diddy er eins sagður hafa þvingað konur og kynlífsverkafólk til að taka þátt í kynsvalli sem hann hélt fyrir nafntogaða einstaklinga. Hann tók svo myndbönd af orgíunum og jafnvel notað til að kúga fólk. Meðal annars halda saksóknarar því fram að hann hafi gengið svo nærri kynlífsverkafólkinu og gestum í kynsvallinu að fólk þurfti að fá næringu í æð eftir fíkniefnaneyslu, vökvatap og örmögnun.