Thalia Graves sakar Diddy um að hafa nauðgað sér árið 2001. Hún hélt blaðamannafund í gær með Gloriu Allred, lögmanni.
TW: Við vörum við lýsingum á kynferðisofbeldi í fréttinni.
Graves sagði að árið 2001 hafi hún verið í sambandi með einum af starfsmönnum Diddy hjá plötufyrirtækinu Bad Boy Records. Hún sagði Diddy hafa „lokkað“ hana á fund með honum og Joseph Sherman, lífverði Diddy á þeim tíma. Wall Street Journal hefur kæruna undir höndum og greinir frá.
Graves sagðist hafa misst meðvitund og heldur að sér hafi verið byrlað ólyfjan. Þegar hún rankaði við sér var hún nakin og bundin. Hún sagði að hún hafi öskrað og þá hafi Sherman skellt andliti hennar í billjarðborð. Hún sagði að síðan hafi Diddy og Sherman nauðgað henni.
Það kemur fram í lögsókninni að þrátt fyrir að hafa öskrað og grátbeðið þá um að hætta þá virtust kvalaóp hennar hafa engin áhrif á þá.
Á meðan þessu stóð kastaði Graves upp og missti hægðir en hún sagði það ekki hafa stöðvað Diddy. „Hann þurrkaði af sér og hélt áfram,“ kemur fram í málsókninni.
Í kærunni er því haldið fram að Diddy hafi tekið árásina upp á myndband og hafi síðan gefið myndbandið út sem klám og sýnt öðrum karlmönnum það til að niðurlægja Graves. Hún hafi ekki vitað á þeim tíma að það væri upptaka í gangi, en hafi komist að því í fyrra að það væri til myndband af þessu atviki. Hana hryllir við tilhugsuninni og fer fram á að öllum eintökum myndbandsins verði eytt.
Sjá einnig: Skuggaleg hegðun Sean Combs:Margra daga orgíur, barnaolía í lítravís og vökvi í æð
Diddy gæti átt þungan fangelsisdóm yfir höfði sér vegna gruns um mansal og skipulagða glæpastarfsemi. Rapparinn var handtekinn í New York fyrir rúmlega viku síðan eftir að niðurstaða ákærudómstóls lá fyrir. Fyrr á þessu ári gerði bandaríska alríkislögreglan, FBI, allsherjar leit á heimilum hans og áður hafði fyrrverandi kærasta hans, Cassandra Venture, stigið fram og sakað hann um ítrekuð kynferðisbrot og ofbeldi.
Fleiri konur hafa sakað hann um hrottalegt kynferðisofbeldi og er Graves sú ellefta til að stíga fram. BBC greinir frá.