fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fókus

Fjölbreytnin verður í fyrirrúmi á RIFF í ár

Ragna Gestsdóttir
Fimmtudaginn 19. september 2024 12:03

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Áhugi og þátttaka á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Reykjavík, RIFF, hefur aldrei verið meiri en í ár, en nefna má sem dæmi að met var slegið í innsendingu íslenskra stuttmynda, eða sem nemur hátt í hundrað verkum sem sýnir ótrúlega grósku á því sviði. Þá er úrval leikinna mynda í fullri lengd og heimildarmynda meira en nokkru sinni í 21. árs sögu hátíðarinnar sem fyrst var haldin í Reykjavík 2004. Dagskrá hátíðarinnar var kynnt í Háskólabíói nú fyrir hádegi.

RIFF hefst 26. september í Háskólabíói og stendur til 6. október 

Að þessu sinni verða sýndar kvikmyndir í fullri lengd auk mikils fjölda stuttmynda frá fjölda landa. Fjöldi Norðurlandafrumsýninga er á RIFF, en sænskar myndir eru í fókus á hátíðinni í ár – og margar myndanna koma hingað frá virtustu hátíðum í heimi á borð við Cannes, Feneyjar, Toronto og Rotterdam þar sem þær hafa notið hylli og verið verðlaunaðar.  

Því er um að ræða einstakt tækifæri til að sjá bestu myndir ársins, en flestar myndanna verða ekki sýndar áfram í bíóhúsum hérlendis!  

Sérstök athygli er vakin á afsláttarkjörum fyrir ungt fólk sem getur nálgast U20 og U30 passa á riff.is  

Hápunktarnir á RIFF í ár 

Åkerlund, Cronenberg, Bong Joon-ho, Kinski, Moodysson, Tsangari 

Það glitrar á margar og litríkar perlur í þeim fjölda kvikmynda sem RIFF býður upp á í ár, stuttra og langra, leikinna og teiknaðra, svo og hinna sem eru byggðar á heimildum og rannsóknum eða bláköldum veruleikanum sem blasir við um jarðarkringluna alla. 

Opnunarmynd hátíðarinnar í ár er Elskuleg (n. Elskling) eftir íslensk-norska leikstjórann Lilju Ingólfsdóttur sem slegið hefur rækilega í gegn sem „egghvasst tilfinningadrama“ eins og tímaritið Variety segir, en myndin vann nýverið fimmfalt á Karlovy Vary hátíðinni í Tékklandi. 

Tíu dögum síðar er hátíðin römmuð inn með lokamyndinni The Room Next Door sem er nýjasta verk Spánverjans Pedro Almodovar með Óskarsverðlaunahöfunum Julianne Moore og Tony Swindon í aðalhlutverkum, en þetta er fyrsta „enskumælandi“ mynd Almodovar.  

Þess á milli iðar Háskólabíó af lífi af jafnt glænýjum úrvalsmyndum og eldri klassík af öllu tagi.  

Það minnir á Veldi tilfinninganna sem RIFF sýnir í ár, bráðum hálfri öld frá frumsýningu hennar, en hún skók allan heiminn – og var víðast hvar bönnuð fyrir „helberan dónaskap,“ að sagt var í þá daga, hvað svo sem nútímanum kann að finnast á annarri öld. 

Það leiðir líka hugann að þunga hnífsins, en strákarnir í Sólstöfum munu reyna á veggi salar 1 í Háskólabíói, föstudagskvöldið 4. október þegar þeir halda þungarokkssýningu á Hrafninn flýgur í tilefni af 40 ára afmæli þessa íslenska spagettívestra Hrafns Gunnlaugssonar.  

Fjöldi heimskunnra leikstjóra setur svip sinn á RIFF, en meðal heiðursgesta hennar er suður-kóreski leikstjórinn Bong Joon-ho sem vann þrenn Óskarsverðlaun fyrir mynd sína Parasite frá 2019, en verk hans The Host og Mother! verða sýndar á RIFF í ár. Hann ávarpar hátíðina.  

Annar heimskunnur leikstjóri og heiðursgestur RIFF í ár er Svíinn Jonas Åkerlund, sem vinnur meðal annars myndbönd fyrir kunnustu poppstjörnur heims, en nýjasta verk hans, dansmyndin DuEls kviknar á tjaldi Háskólabíós, samin af íslenska danshöfundinum Ernu Ómarsdóttur.  

Báðir munu Bong Joon-ho og Jonas Åkerlund ræða við áhorfendur í sal, rétt eins og þriðji heiðursgestur RIFF í ár, gríska kvikmyndagerðarkonan Athina Tsangari, en fáir leikstjórar hafa aflað sér jafn mikillar virðingar og hún hefur gert á síðustu árum fyrir magnaðar myndir.   

Sem leiðir hugann að kattliðugri leikkonu að nafni Nastassja Kinski, sem einnig verður heiðruð á hátíðinni í ár, en í tilefni af komu hennar til Íslands verða sýndar tvær af kunnustu myndum hennar, Cat People eftir Paul Schrader og Paris, Texas úr smiðju Wim Wenders

Og það vantar ekki frægðarmennin í leikstjórastólnum sem eiga myndir á RIFF í ár, en sjálfur David Cronenberg tjaldar líkklæðum í splunkunýrri filmu sinni, The Shrouds, já byrjið að skjálfa. Og ekki óþekktari stjóri er Lucas Moodysson sem leiðir Svíþjóð í fókus á hátíðinni í ár, sem býður einmitt upp á það besta og ferskasta úr sænskri kvikmyndagerð, þar á meðal nýjustu mynd kappans, Together 99 sem The Guardian segir hann hafa leikstýrt í samfelldu hláturskasti! 

Fjöldi íslenskra og erlendra stuttmynda setur sterkan svip sinn á RIFF í ár og þá ekki síður vandaðar heimildarmyndir sem fanga samtímann, hvort heldur þær varða menningu og

listir, loftslagsvána eða málefni flóttafólks og innflytjenda. Má þar nefna sem dæmi Chain Reactions – heimildarmyndina sem var að vinna Gullna ljónið á Venice Film Festival og verður sýnd beint á eftir sjálfri Texas Chain Saw Massacre. 

Loks er vert að nefna Bransadaga RIFF þar sem kvikmyndagerðarfólk fær tækifæri til að hitta hvert annað og ræða fagið, til dæmis hvað gervigreindin muni gera fyrir greinina á komandi árum og hvaða breytingum markaðssetning muni taka á tímum streymisveitna og nýrra miðla. 

Hátíðin hefst sem fyrr segir 26. september í Háskólabíói og stendur til 6. október – og er vakin athygli að klúbbur hátíðarinnar verður á Hotel Parliament við Austurvöll þar sem hamingjustund er í boði alla seinni parta. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ragna á von á barni

Ragna á von á barni
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vissi að hjónabandið væri dauðadæmt þegar eiginmaðurinn sagði þessi tvö orð í brúðkaupinu

Vissi að hjónabandið væri dauðadæmt þegar eiginmaðurinn sagði þessi tvö orð í brúðkaupinu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Taylor Swift sogast inn í stóra Hollywood-dramað – „Ég er Khaleesi og eins og hún þá vill svo til að ég á nokkra dreka“

Taylor Swift sogast inn í stóra Hollywood-dramað – „Ég er Khaleesi og eins og hún þá vill svo til að ég á nokkra dreka“