Rapparinn var handtekinn í New York á mánudag eftir að niðurstaða ákærudómstóls lá fyrir. Fyrr á þessu ári gerði bandaríska alríkislögreglan, FBI, allsherjar leit á heimilum hans og áður hafði fyrrverandi kærasta hans, Cassandra Venture, stigið fram og sakað hann um ítrekuð kynferðisbrot og ofbeldi.
Daily Mail vísar í gögn frá ákæruvaldinu sem virðast sýna vægast sagt syndsamlegt líferni kappans. Hann er sagður hafa haldið fjölmargar orgíur þar sem vændiskonur, eiturlyf og barnaolía í lítravís komu meðal annars við sögu.
Hann er sagður hafa borgað flug undir vændiskonur frá öllum heimshornum til að taka þátt í kynsvallsveislum sem stundum stóðu yfir í nokkra daga. Diddy er sagður hafa skipulagt þessar veislur og stýrt þeim og meðal annars „stundað sjálfsfróun“ á meðan á þeim stóð. Á sama tíma er hann sagður hafa útvegað þessum konum fíkniefni á borð við ketamín og MDMA og efni sem kallast BHB sem á meðal annars að auka úthald.
Þessar orgíur gengu undir nafninu „freak offs“ og voru svo ákafar, samkvæmt ákæruskjölum, að Diddy og „fórnarlömb hans fengu vökva í æð að þeim loknum“. Er Diddy sagður hafa borgað körlum sem tóku þátt í svallveislunum en ekki konum og raunar hótað þeim öllu illu og beitt þær ofbeldi ef þær tækju ekki þátt.
Veislurnar fóru fram víða og ekki bara á heimilum Diddy. Starfsmenn á hans vegum eru sagðir hafa pantað hótelherbergi þar sem ýmislegt misjafnt átti sér stað. Eru starfsmenn sagðir hafa fyllt herbergin, eða íbúðirnar, af barnaolíu, sleipiefnum og auka rúmfötum svo dæmi séu tekin.
Ein veisla sem haldin var árið 2012 er sögð hafa farið rækilega úr böndunum því Diddy var gert að greiða 46 þúsund dollara, rúmar sex milljónir króna, vegna skemmda á húsgögnum á ónefndu hóteli. Voru rúm og sófar sögð vera löðrandi í olíu eftir veislu sem virðist hafa verið haldin þar.
Yfirvöld segjast hafa fundið yfir þúsund flöskur af barnaolíu á heimilum rapparans fyrr á árinu. Þá fundu lögreglumenn þrjú AR-15 skotvopn sem virðast hafa verið ólöglega fengin þar sem búið var að afmá skráningarnúmer þeirra.
Ákæruvaldið metur það svo að Diddy hafi verið einskonar foringi skipulagðra glæpasamtaka sem stunduðu meðal annars mansal, vinnuþrælkun, fíkniefnabrot, mannrán og mútugreiðslur svo eitthvað sé nefnt.
Sem fyrr segir er rapparinn einnig sakaður um að hafa beitt fyrrverandi kærustu sína, söngkonuna Cassie Ventura fólskulegu ofbeldi meðan á sambandi þeirra stóð. Ventura kærði hann í fyrra fyrir nauðgun, líkamsárás og andlegt ofbeldi og segir hún að Diddy hafi þvingað hana til að stunda kynlíf með vændiskörlum. Er Diddy sagður hafa tekið þetta allt upp á myndband og stundað sjálfsfróun meðan á þessu stóð.
Cassie segir að fyrsta „freak-off“-orgían hafi átt sér stað nokkrum mánuðum eftir að þau byrjuðu saman en þá var hún aðeins 22 ára en hann 40 ára. Eftir eina slíka árið 2016 réðst hann á hana eins og fjallað var um á sínum tíma.
Lögmaður rapparans, Marc Agnifilo, segir að skjólstæðingur hans hafi ekki gerst sekur um mansal. Í umræddum veislum hafi fólk tekið þátt af fúsum og frjálsum vilja. „Er það mansal? Nei, ekki ef allir vilja vera þarna. Við erum engu bættari með það að ákæruvaldið mæti inn í svefnherbergið til okkar og það er það sem er að gerast hér,“ sagði hann í gær. Segir hann að ekkert sé líkt með máli Diddy og til dæmis R. Kelly. „Þetta er allt öðruvísi. Þetta var fólk sem hafði veitt samþykki sitt.“