Rapparinn Sean „Diddy“ Combs var handtekinn í gær í anddyri hótels í New York. NBC greinir frá. Ríkissaksóknarinn Damian Williams sagði við NBC að ákæran væri innsigluð að svo stöddu.
„Við reiknum með að ákæran verði gerð opinber á morgun og þá getum við tjáð okkur frekar um málið,“ sagði Williams.
Lögmenn rapparans segja hann saklausan. Í samtali við New York Times sagði Marc Agnifilo, einn lögmaður Combs, að hann haldi að ákæran varði mansal og skipulagða glæpastarfsemi.
Gert er ráð fyrir að Combs mæti fyrir dómara í dag.
Combs hefur verið til rannsóknar hjá alríkisyfirvöldum í Bandaríkjunum um tíma og gerðu alríkisfulltrúar allsherjar leit á heimilum hans í mars á þessu ári.
Tónlistarmaðurinn hefur verið sakaður um hrottalegt kynferðisofbeldi og í febrúar var fimmta kæran lögð fram gegn honum fyrir dómstólum.
Áður hafði fyrrverandi kærasta Diddy, Cassandra Venture, stigið fram og kært rapparannn fyrir ítrekuð kynferðisbrot og ofbeldi í nánu sambandi. Fjórar aðrar konur hafa sakað rapparann um brot gegn sér. Diddy hefur allan tímann haldið fram sakleysi sínu.
Í maí birti CNN myndband úr öryggismyndavél á hóteli frá árinu 2016 sem sýnir Diddy beita fyrrverandi kærustu sína, söngkonuna Cassie Ventura, hrottalegu ofbeldi. Myndbandið vakti mikinn óhug meðal almennings.
Sjá einnig: Myndband sýnir hrottalegt ofbeldi Diddy gegn fyrrum kærustu sinni
Myndbandið styður frásögn hennar en hún kærði hann í fyrra fyrir ítrekuð kynferðisbrot og ofbeldi í nánu sambandi. Þau komust að samkomulagi utan dómstóla en hann hélt fram sakleysi sínu. Eftir að CNN birti myndbandið baðst hann afsökunar á hegðun sinni.