Gríska kvikmyndagerðarkonan Athina Tsangari verður heiðruð á RIFF í ár sem upprennandi meistari og er vel að þeirri nafnbót komin, svo afkastamikil og ástríðufull sem hún hefur verið í listsköpun sinni og fræðimennsku í faginu.
Hún hefur jöfnum höndum unnið sem kvikmyndaframleiðandi og handritshöfundur, en er hvað þekktust fyrir að leikstýra stuttmyndum og leiknum myndum í fullri lengd allar götur frá því í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar. Meðal kunnustu verka hennar eru The Slow Business of Going frá 2000, Attenberg sem frumsýnd var 2010 og Chevalier frá 2015. Hún var einnig meðframleiðandi í myndum landa síns Yorgos Lanthimos og má þar nefna Kinetta frá 2005, Dogtooth sem fullgerð var fjórum árum síðar og Alps sem kom fyrir sjónir kvikmyndaunnenda 2011.
Tsangari er hámenntuð í fagi sínu og hefur sótt sér námið í bæði heimalandi sínu og við Háskólann í New York þar sem hún lærði kvikmyndaframleiðslu, sem og við Texasháskólann í Austin í Bandaríkjunum þar sem hún lagði stund á leikstjórnarfræðin. Hún hefur á seinni árum verið vinsæll gestafyrirlesari, meðal annars við Harvard-háskólann vestanhafs, ásamt því að stofna til og stjórna Alþjóðlegu stuttmyndahátíðinni í Austin í Texas.
Tsangari er aufúsugestur á RIFF í ár, en auk hennar verður suður-kóreski leikstjórinn Bong Joon-ho heiðraður á hátíðinni ár, svo og heiðursgestirnir Jonas Åkerlund og Nastassja Kinski.
RIFF alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík fer fram 26. september til 6. október.