fbpx
Mánudagur 30.desember 2024
Fókus

Hart tekist á um ákvörðun RÚV og fast skotið fram og til baka – „Ég er hvorki einfaldur né tregur“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Mánudaginn 16. september 2024 12:53

Pálmi Gunnarsson, Friðrik Ómar, Hera Björk og Thelma Byrd.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ákvörðun Ríkisútvarpsins um að taka þátt í Eurovision á næsta ári hefur verið gríðarlega umdeild vegna þjóðarmorðsins á Gaza og þátttöku Ísraels í keppninni. Tónlistarmaðurinn Pálmi Gunnarsson gagnrýndi ríkismiðilinn harðlega í pistli á Facebook og fór fljótlega að sjóða upp úr í athugasemdum, sem eru rúmlega 130 talsins.

Pálmi, sem tók þátt í Eurovision fyrir hönd Íslands árið 1986 með laginu „Gleðibankinn“, fór hörðum orðum um ákvörðun RÚV.

„Að selja skrattanum sálu sína. Þetta kom upp í huga mér þegar ég las um þá ákvörðun RÚV að taka þátt í Söngvakeppni Evrópskra Sjónvarpsstöðva með tilheyrandi útskýringum og afsökunum. Meðal annars vegna þess að söngvakeppnin væri „uppspretta gleði og ánægju hjá stórum hluta þjóðarinnar og vettvangur dýrmætra samverustunda fjölskyldna um land allt.“ Er ekki ráð að fá BíBí í dómnefnd. Hann gæti komið með fjölluna með sér,“ skrifaði hann á Facebook í gær.

Pálmi útskýrði að BíBí væri viðurnefni fyrir forsætisráðherra Ísrael, Benjamin Netanyahu.

Söngvarinn Friðrik Ómar Hjörleifsson tók upp hanskann fyrir RÚV en hann rökræddi við marga í athugasemdakerfi pistilsins.

„Það er akkúrat ekkert rangt við það að Söngvakeppni Evrópskra Sjónvarpsstöðva sé uppspretta gleði og dýrmætra samverustunda fjölskyldna um allt land.  Það er staðreynd. Engu logið,“ skrifaði hann.

Fannst illa vegið að Heru

Friðrik Ómar ræddi nýverið um þátttöku Heru í maí og sagði að honum hafi þótt illa vegið að henni og framkoman ljót í hennar garð.

„Þegar ég horfi á þetta líka, bæði í fjarlægð og nálægð því ég þekki Heru persónulega og fylgist grannt með þessu. Þá skil ég ekki þessa framgöngu í garð hennar því fyrir mér er þetta bara ofbeldi sem hún varð fyrir,“ sagði hann.

Sjá einnig: „Mér fannst þetta skítt og Hera á betra skilið“

Svöruðu Friðriki Ómari

„Hún er það ekki á meðan þjóð sem er að fremja þjóðarmorð í beinni útsendingu fær að taka þátt eins og það sé eðlilegt. Það er staðreynd,“ sagði grínistinn og listakonan Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir við Friðrik Ómar sem svaraði:

„Ég hef ekki hitt neinn sem finnst þetta eðlilegt eða gott. Það er hins vegar hollt að ræða allar þessar hliðar.“

Söngkonan Thelma Hafþórsdóttir Byrd blandaði sér einnig inn í umræðuna og beindi orðum sínum að Friðriki Ómari.

„Ég vil ekki móðga þig Friðrik en spyr í einlægni: Getur verið að einfeldni þín og tregða til að taka skýra afstöðu með Gaza megi rekja til þess að lífsviðurværið þitt er tengt inn í þessa keppni og þú hefur af henni fjárhagslegan ávinning og vinsældir?“

Friðrik Ómar tók þátt í Eurovision fyrir hönd Íslands árið 2008 með laginu „This is my life.“

„Ég flyt This is my life sennilega ekkert oftar en Pálmi syngur Gleðibankann. Ég fór í Eurovision 2008. Fyrir 16 árum síðan. Come on. Ég er hvorki einfaldur og eða tregur. Mitt lífsviðurværi hef ég skapað sjálfur og verið frekar framtakssamur ef þú skoðar feril minn. Getur verið að einfeldni þín og tregða og að hafa ekki fjárhagslegan ávinning af þessari keppni sé ástæða þessarar spurningar?“ svaraði Friðrik Thelmu.

Mynd: Eyþór Árnason

Hitnaði í kolunum

Fleiri höfðu eitthvað að segja við Friðrik Ómar, sem stóð nokkuð einn á báti í athugasemdum.

„Þegar Ísraelsmenn eru vísvitandi [að] skjóta börn í höfuðið með sniper rifflum, sprengja þau í tætlur og að svelta þau til bana…..þá er engin „önnur hlið“ á þessu máli. Engin. Ef þér finnst það, þá ertu ömurleg manneskja. Finnst mér. Þú þarft ekki að vera sammála því,“ sagði einn.

„Það er því miður að gerast víðsvegar um heim á degi hverjum. Er ekki að gera lítið úr því og hef aldrei gert. Er bara að standa vörð um Söngvakeppnina og Eurovision. Er sennilega ekkert ömurlegri manneskja en hver annar? Kannski veist þú betur?“ svaraði Friðrik.

„Það er verið að fremja þjóðarmorð og þér finnst mikilvægast að „standa vörð um Söngvakeppnina.“ Kannski geri ég það bara? Þetta segir mér alla vega svolítið mikið um þig,“ svaraði maðurinn honum.

Standa saman gegn þátttöku Ísraels?

Íslenskukennarinn Helga Þórey spurði Friðrik Ómar: „Væri ekki ráð að standa saman gegn þátttöku Ísrael í keppninni og þá getur fjörið haldið áfram? Það fer varla framhjá neinum að tvískinnungurinn að reka Rússa úr keppni en ekki Ísrael er óboðlegur.“

„Ekkert land er tilbúið í það virðist vera. 30 lönd hafa nú þegar staðfest þátttöku. Hvort að það skipti sköpum að ráðist var inn í Ísrael 7. okt og það sé ástæðan fyrir muninum er ég ekki með 100p á hreinu,“ sagði Friðrik og Helga svaraði um hæl:

„Það skiptir litlu hvað önnur lönd gera, það er augljós klofningur um þetta hér á landi og það ætti að duga.“

Skjáskot/Facebook

Hvetja til sniðgöngu

Ein hvatti Friðrik Ómar til að sniðganga keppnina. „Leiðrétting: Söngvakeppnin VAR uppspretta gleði hjá fjölmörgum fjölskyldum. Því miður getur rétthugsandi fólk með siðferðisáttavitann í lagi ekki glaðst á sviði í keppni sem er fjármögnuð af fólki sem myrðir 16.000 (and counting) börn án þess að blakta auga. Þessi gleði er búin. Það er bara þannig, og ég hvet þig og vini þína til að taka skýra afstöðu með sniðgöngu á keppninni og öllu sem henni tengist.“

Sema Erla Serdar, stofnandi Solaris, tók þátt í rökræðunum. „Ef þér er svona annt um söngvakeppnina, hvers vegna beitir þú þér ekki fyrir því að ríki sem fremur þjóðarmorð, stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni sé vísað úr keppni sem á að snúast um gleði og samverustund? Í grunninn snýst þetta ekki um þátttöku Íslands heldur Ísrael. Og ef þeim væri vísað úr keppni eins og sniðgönguákallið kveður á um þá væri þessi ágreiningur um þátttöku okkar í Eurovision búinn (og hið sama má segja um önnur þátttökuríki).“

Friðrik svaraði: „Það hefur ekki náðst samstaða um það meðal þjóða í keppninni. Það hefur verið markmið keppninnar frá upphafi að keppnin sameini Evrópu frekar en sundri.“

„Það er ekki það sem ég spurði um en það er svo sem hægt að lesa margt út úr þessu svari þínu. Er það rétt skilið hjá mér að þú viljir ekki að Ísrael sé vikið úr keppni?“ spurði Sema fyrir tæpum sólarhring, en Friðrik hefur ekki svarað henni.

Stolt af pabba sínum

Dóttir Pálma, Ninna Pálmadóttir, skrifaði við færslu föður síns: „Er svo stolt af því að eiga pabba með bein í nefinu, með sterka réttlætiskennd og hjartað á erminni.“

Friðrik Ómar tók undir: „Já hann er frábær og hefur tekið þátt í þó nokkur skipti í Söngvakeppninni og síðast 2016! Ávallt flottur.“

„Já en myndi líklegast ekki kjósa það í dag þar sem Eurovision neitar að meina Ísrael þáttöku þátt fyrir aktívt þjóðarmorð (þó Rússum hafi verið meinuð þáttaka)“ svaraði Ninna.

Hera Björk.

„Kannski var munurinn sá að ráðist var á Ísrael þann 7.okt. Þó það hafi ekki verið upphafið af þessum hörmungum í heildarmyndinni allri. Regluverkið hjá EBU er þó í stöðugri skoðun. En þegar öllu er á botninn hvolft þá telja menn sterkara að halda keppnina sem var stofnuð til sameiningar en ekki til sundrungar. Allar þjóðir eru að taka þátt. Eru allir þar svona agalega vitlausir og vondir?“ spurði Friðrik.

„Það er ekki sameiningartákn að þjóð sem fremur stríðsglæpi taki þátt í gleðikeppni án afleiðinga,“ svaraði Ninna.

„En af hverju viðgengst það alls staðar þá? Ólympíuleikarnir, Þjóðakeppnir etc…? Hvað er að?“ spurði þá Friðrik.

„Mér finnst það fáránlegt að það viðgengst! og hljómar eins og þér þyki það líka og mæli því með góðri mótmælagöngu. Þær eru alltaf fullar af kröftugu fólki sem finnst þetta allt algjör steik! líka alls konar listar til að skrifa undir og að láta í sér heyra. Fullt af tækifærum að vera partur af hópi sem kýs ekki að horfa upp á þessa meðvirkni,“ svaraði Ninna.

Togstreita

Fjölmiðlamaðurinn og almannatengillinn Axel Jón Ellenarson sagðist ekki skilja hvernig hægt væri að halda hátíð „þegar einn af þátttakendunum er að drepa börn, konur og gamalmenni, karla, kynslóðir á sama tíma? Nú hefur þessi ríkisstjórn umræddrar þjóðar drepið yfir 40 þúsund manns, þar af tæp 17 þúsund börn og 11 þúsund konur. Og menn tala um þessa meðvirku og skrýtnu hátið sem friðar og gleðihátíð.“

Einar Þór Jóhannsson, gítarleikari, sagðist upplifa togstreitu og tengja við báðar hliðar. „Ég ætla að fara út á flughálan ís og segja að ég er sammála mörgu sem Pálmi segir og ég er líka sammála sumu sem til dæmis Friðrik Ómar hefur sagt. Sem samkvæmt pólunum tveimur gerir mig þá að Gyðingahatara og barnamorðingja býst ég við. Hversu crazy, ekki satt?“

Magga Stína.

Segir Heru hafablekkt þjóðina

Söngkonan Magga Stína gagnrýndi Friðrik Ómar og sagði Heru hafa blekkt þjóðina. „Getur verið að maður sem talar um að Heru Björk Þórhallsdóttur hafi þurft að „styðja í gegnum erfitt tímabil“ á meðan verið var að murka lífið úr 16000 börnum og fjölskyldum þeirra ætti að halda örlítið aftur af sér í fullyrðingum um einfeldni og tregðu annars fólks? Gæti verið að sá hinn sami ætti mögulega að þegja og einbeita sér að því að skammast sín? Ég ráðlegg þér Friðrik Ómar Hjörleifsson, að fara heldur að huga að Fiskideginum mikla á Dalvík en að tjá þig opinberlega um þjáningar vinkonu þinnar Heru Bjarkar.“

Friðrik svaraði: „Ég var spurður og ég svaraði. Hef verið kurteis í skrifum mínum eftir fremsta megni. Hef ekki verið einfaldur eða tregur. Persónulega finnst mér þú dónaleg og reyna að gera lítið úr mér og minni atvinnu td. Fiskidaginn Mikla. Ég sé ekki hvernig þetta hjálpar nokkrum?“

„Því fer fjarri að ég geri lítið úr vinnu þinni nema þegar hún fer að snúast um að taka málstað þeirra sem taka afstöðu með þjóðarmorði eins og Hera Björk Þórhallsdóttir gerði þegar hún gekk gegn þjóðarvilja með því að taka þátt í Eurovision. Tók þátt í lagakeppni sem lagahöfundurinn vildi sniðganga. Blekkti þjóðina vísvitandi þegar hún ítrekaði vilja sinn um að „taka samtalið“ sem hún svo auðvitað aldrei gerði. Hef það ekki lengra í bili,“ svaraði Magga Stína.

Þetta er aðeins hluti af samtalinu sem átti sér stað undir pistil Pálma. Hægt er að lesa allar athugasemdir á Facebook.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Björn Ingi með hlutverk í stórmynd Marvel

Björn Ingi með hlutverk í stórmynd Marvel
Fókus
Fyrir 3 dögum

Heiðrún um hollt mataræði – „Þumalputtareglan mín er einföld, mjög umdeild og klárlega ekki í tísku“

Heiðrún um hollt mataræði – „Þumalputtareglan mín er einföld, mjög umdeild og klárlega ekki í tísku“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Nóttin sem aldrei gleymist – Hinn óvænti jólafriður í miðju blóðblaðs og hryllings skotgrafanna

Nóttin sem aldrei gleymist – Hinn óvænti jólafriður í miðju blóðblaðs og hryllings skotgrafanna
Fókus
Fyrir 5 dögum

Hvað í ósköpunum er Skibidi toilet?

Hvað í ósköpunum er Skibidi toilet?