Horfðu á brot úr þættinum hér að neðan og smelltu hér til að horfa á hann í heild sinni, eða hlustaðu á Spotify.
Steinunn heldur úti vinsæla hlaðvarpinu Skipulagt Chaos ásamt vinkonu sinni, Selmu Soffíu Guðbrandsdóttur. Þættirnir hafa vakið mikla athygli, sérstaklega klippur úr þáttunum sem hafa farið í dreifingu um netheima. Þar má helst nefna myndböndin þar sem Steinunn sagði að karlmaðurinn ætti að borga á fyrsta stefnumóti og þegar þær vinkonurnar sögðust helst vilja sleppa við að taka bensín og að karlmaður sjái um allt bílavesen fyrir þær.
Fólk hafði ýmislegt að segja um samræður vinkvennanna en Steinunn segist ekkert taka það inn á sig. Hún bendir einnig á að það sé hún sem valdi þessar klippur og ákvað að birta þær.
@skipulagt.chaos🥲♬ original sound – Skipulagt Chaos Podcast 💙
„Ég er sú sem birti allar þessar klippur. Þannig það er alveg pæling á bak við það,“ segir hún brosandi.
„Það er hafsjór af alls konar dóti þarna úti, þannig þú þarft einhvern veginn að vekja athygli á því sem þú ert að gera. Og ég veit alveg hvaða klippur eru að fara að ná til fólks. Allt sem vekur tilfinningu, það er það sem fólk bregst við […] Þetta eru bara vangaveltur sem við vinkonurnar erum að spjalla um. En síðan fara [klippurnar] auðvitað á netið og það er alveg að fara að pirra einhvern. En það sem mér finnst svo skemmtilegt við samfélagið er að fólk hefur ólíkar skoðanir og það þarf enginn að taka undir það sem við erum að segja eða finnast það sem við erum að segja rétt, þetta eru bara okkar skoðanir.“
Steinunn er ekki hérna til að þóknast öðrum en það hefur tekið hana tíma að læra að lifa fyrir sjálfa sig.
„Í bæjarfélaginu sem ég ólst upp að hluta til í, þá lenti ég í leiðinlegu umtali. Vott af einelti, bara frekar harkalegum hlutum,“ segir hún.
„Eftir það fannst mér ég þurfa að sanna: „Ég er ekki svona ömurleg eins og þið haldið öll,“ og var í hlutverki að láta alla samþykkja mig og sýna hvað ég væri dugleg.“
Steinunn eignaðist börn ung og reyndi að vera hin fullkomna móðir. Passa að börnin borðuðu rétt, væru klædd í réttu fötin og að allt liti vel út.
„Með tímanum lærði ég að það er alveg sama hvað þú reynir að þóknast öðrum, það bara virkar ekki þannig. Það er alveg sama hvað þú setur mikinn rembing í það. Ef þú ert ekki þú sjálf þá ertu ekki að fara að vera hamingjusöm að reyna að þóknast öðrum.“
Steinunn eignaðist dóttur þegar tvíburadrengir hennar voru átta ára gamlir. Hún segir að það sé mikill munur á hvers konar pressu hún setur á sig sem móður og manneskju.
„Ég er svo miklu slakari, ég veit svo mikið hvað skiptir máli raunverulega. Og það skiptir ekki máli hvort heimilið sé [smart]. Það eru svo allt aðrir hlutir sem skipta máli. Svona lífsreynslur, maður þakkar alltaf fyrir þær eftir á, því þær móta mann svo mikið. Maður fer í svo mikla sjálfsvinnu, ef maður kýs að fara í það. Skoða sjálfan sig, hvað er það sem ég legg áherslu á og hvað er það sem skiptir mig raunverulega máli,“ segir Steinunn.
„Ég hef alveg verið í því að reyna að sýnast vera eitthvað sem ég er svo kannski raunverulega er ekki. En í dag, ég er svo þakklát að ég fagna öllum göllunum mínum, ég er eins og ég er og ég má alveg vera það. Það er enginn sem ég þarf að sanna mig fyrir.“
Steinunn ræðir þetta nánar í spilaranum hér að ofan. Smelltu hér til að horfa á hann í heild sinni eða hlustaðu á Spotify.