fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Fókus

„Ég man þegar ég heyrði í vinkonu minni og sagði henni að ég vildi bara deyja“

Fókus
Miðvikudaginn 11. september 2024 10:09

Mynd/Instagram @rakelhlyns

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Rakel Hlynsdóttir einkaþjálfari segir stöðuga höfnun í menntakerfinu hafa litað æsku sína og að það hafi tekið mörg ár að vinda ofan af því. Rakel, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar, segist aldrei hafa passað inn í kerfið og að hún hafi stöðugt upplifað að hún væri ekki nóg.

„Ég fékk greiningu 10 ára gömul, þá með ADD, en síðar ADHD. Mamma mín, sem átti tvö börn fyrir barðist fyrir því. Hún sá strax að ég var talsvert öðruvísi og mjög aktív. Ég fór ekki á lyf fyrr en ég var 12 ára, en það tók langan tíma að ná einhverju jafnvægi þar, af því að lyfin tóku mikið af persónuleikanum hjá mér og ég varð flöt af þeim. Ég passaði engan veginn inn í skólakerfið og vildi bara vera að hreyfa mig og skapa. En var bara skipað að setjast á stól og gera stærðfræði. Manni leið einhvern vegin alltaf illa í skólanum og það var aldrei verið að vinna með manni. Mér finnst almennt eins og að við hljótum að geta mætt börnum betur inn í skólakerfinu og vinna með styrkleikana þeirra. Það er ekki lögmál að allir þurfi að vera góðir í stærðfræði og þér á ekki að líða illa ef það er eitthvað sem þú átt erfitt með að læra. Ég er mjög fegin að dóttir mín passar betur inn í kerfið en ég, af því að ég man enn eftir höfnuninni sem ég fékk alls staðar og fannst ég aldrei nóg. Ég veit að fólkið sem vinnur inn í kerfinu er að gera sitt besta, en það er ekki gott að barn upplifi stanslausa höfnun inni í menntakerfinu,“ segir Rakel og heldur áfram:

„Mér líður stundum eins og ég hafi farið pínu brotin út í lífið af því að mér var stanslaust sagt að ég væri ekki nógu góð. Það tók mig mörg ár að átta mig á því að ég væri nóg á mjög mörgum sviðum þó að ég hafi ekki passað inn í eitthvað stíft kerfi. Ég trúði því í mörg ár að ég væri heimsk og ómöguleg bara af því að ég var ekki góð í ákveðnum fögum í skólanum. Það má eiginlega segja að íþróttirnar hafi bjargað lífi mínu. Þar fann ég mig og var góð og komst í úrtak í landsliðið og fleira sem fékk mig til að fara að trúa á sjálfa mig.“

Fór aftur á lyf

Rakel æfði handbolta í mörg ár og stundaði alls kyns hreyfingu og á endanum ákvað hún ákvað að mennta sig sem styrktarþjálfari. En vegferð hennar tengd ADHD og lyfjum var alls ekki komin á endastöð:

„Eftir að ég eignaðist stelpuna mína og ákvað að mennta mig í Keili fór ég aftur á lyf og þá fannst mér þau virka vel. En svo fattar maður að lyf eru aldrei nein töfralausn og ef maður tekur ekki á öðrum þáttum samhliða lendir maður í vandræðum. Til að gera langa sögu stutta enda ég á því að fara á of stóran skammt af ADHD lyfjunum í samráði við geðlækni og þá fóru hlutirnir mjög hratt niður á við. Allt í einu var mér farið að líða eins og ég vildi ekki lifa og ég gat ekki sofið og á 3 mánuðum var ég bara komin á mjög slæman stað,“ segir Rakel og heldur áfram:

„Ég man þegar ég heyrði í vinkonu minni og sagði henni að ég vildi bara deyja. Ég var búin að vera með grímu út á við, en vanlíðanin var orðin gríðarleg og svo gat ég bara ekki lengur haldið áfram. Vinkona mín fór með mig á á bráðamóttöku geðdeildar, þar sem ég lagði allar varnir niður og sagði þeim að ég gæti ekki meira. Þar var farið yfir lyfin hjá mér og þau sáu strax að ég hafði verið á of stórum skammti af ADHD lyfjum sem gerðu það að verkum að ég var bara hætt að sofa, víruð og í raun hætt að vera ég sjálf. Ég trúi því að heilbrigðisstarfsfólk sé alltaf að gera sitt besta og að læknirinn sem skrifaði upp á lyfin fyrir mig hafi verið að gera sitt besta. En það er augljóst að þessi risaskammtur af lyfjunum hafði haft mjög slæm áhrif. En eftir þetta hófst alvöru bati hjá mér. Ég komst inn hjá geðteyminu á Selfossi og byrjaði í endurhæfingu og hægt og rólega fór ég að ná alvöru bata. Ég var í endurhæfingu í meira en ár og það er í raun það besta sem hefur komið fyrir mig. Ég fékk tækifæri til að stilla líf mitt upp á nýtt og endurskipuleggja marga hluti.”

Vinnur með eldri borgurum

Rakel starfar sem einkaþjálfari og styrktarþjálfari og vinnur líka með eldri borgurum í Hveragerði. Hún segir fólk kunna að meta hreinskilni og að upp til hópa hafi fólk ekki áhuga á að vera fórnarlömb og vilji taka ábyrgð á lífi sínu.

„Þegar maður hefur upplifað alvöru þunglyndi fær maður aðra sýn á tilveruna og meiri samkennd með öðru fólki. En það er þunn lína á milli þess að vera í sjálfskærleika eða sjálfsvorkunn. Fólk sem festist í þunglyndi þarf stundum á því að halda að gleyma sér og fá heiðarlega endurgjöf. Það sem gaf mér mest þegar lífið var sem erfiðast var að gleyma sjálfri mér og jafnvel vera til staðar fyrir aðra. Maður ber á endanum fulla ábyrgð á sjálfum sér og ég er alltaf að læra það betur og betur að sjálfsábyrgð er lykilatriði í lífinu, enda er það ekki gott til lengdar að festast í að vera fórnarlamb. Þegar ég vinn með fólki vinn ég með það að fólk taki fulla ábyrgð á sjálfu sér, án þess að rífa sig niður fyrir það sem mætti vera öðruvísi. En þegar ég fer yfir vegferðina mína er ég þakklát fyrir allt sem ég hef upplifað og það hefur gert mig að stærri manneskju.“

Hægt er að nálgast viðtalið við Rakel og öll viðtöl og podköst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is

Sjá einnig: „Mig langar að lifa en ég get ekki lifað svona“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

„Maður þarf bæði að leyfa henni að vera og fara, sorginni“

„Maður þarf bæði að leyfa henni að vera og fara, sorginni“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Prestur rekinn eftir að hafa hleypt Sabrinu Carpenter inn í kirkjuna

Prestur rekinn eftir að hafa hleypt Sabrinu Carpenter inn í kirkjuna
Fókus
Fyrir 4 dögum

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það
Fókus
Fyrir 4 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“