Dagur B. Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóri, hljóp hálfmaraþon um helgina. Hann segir það stóran áfanga fyrir sig í ljósi þess að hann gat varla gengið fyrir nokkrum árum vegna gigtar.
„Sjálfum mér og öðrum til nokkurrar furðu hljóp ég hálf-maraþon um helgina! Þetta var góðgerðarhlaup – Great Northern Run – sem er raunar fjölmennasta hálf-maraþon í heimi,“ segir Dagur í færslu á samfélagsmiðlum.
Hlaupið er haldið í borginni Newcastle í Bretlandi. Það var fyrst haldið árið 1981.
Dagur segist hafa látið plata sig til að hlaupa því það var fyrir gott málefni, Bergið – Headspace, með slagorð þeirra „Tölum um tilfinningar“ á bolnum. Bergið er hins vegar ekki skráð góðgerðafélag í Bretlandi og því var ekki hægt að heita á félagið í rauntíma. Dagur hvetur vini sína til að styrkja félagið beint hér.
„Ég var satt að segja ekki viss um að ég gæti þetta – en viti menn – ég bar gæfu til að fara á mínum hraða, leið vel allan tímann og kom brosandi í mark, án þess að hafa þurft að grípa til þess ráðs að ganga eða hægja á mér þessa 21 kílómetra sem hlaupið stóð,“ segir Dagur en þetta var ekki sjálfgefið. „Fyrir mér var þetta satt best að segja býsna stór áfangi. Það eru auðvitað ekki mörg ár síðan ég gat varla gengið og þurfti að styðjast við staf vetrarlangt vegna gigtarinnar. Nú hefur mér tekist að vera lyfjalaus sl. tvö ár með hjálp míns frábæra gigtarlæknis og líður framúrskarandi vel. Já, ég hef sannarlega margt til að vera þakklátur fyrir – meðal annars frábæra vini sem draga mann út í svona vitleysu!“
Þá listar Dagur tónlistarfólkið sem kom honum í gegnum hlaupið, það er greip athyglna og færði hana frá leggjum og lærum þegar á leið. Lagalisti Dags innihélt: GusGus, SYKUR, Unu Torfa, ClubDub, Inspector Spacetime, Trabant, FM Belfest, Prins Póló, Retro Stefson, Ný Dönsk, Motion Boys, Hjaltalín, Birnir, Páll Óskar, Vök, Björk, Kendrick Lamar, The Weeknd, Tame Impala, Daft Punk, Diana Ross, Sísý Eir, HAM, Fred again, Four Tet og Massive Attack.