Leikkonan Valorie Curry, sem sló í gegn í þáttunum The Boys, biður aðdáendur um að virða mörk eftir mjög óþægilega uppákomu. Curry, sem leikur ofurhetjuna Firecracker í fjórðu seríu þáttanna, var á teiknimyndasögu ráðstefnu í Belfast nýlega, en reynslan varð til þess að hún er alvarlega að íhuga að mæta ekki aftur á slíka ráðstefnu.
Curry deildi myndbandi á Instagram um helgina þar sem hún brst í grát er hún lýsti því hvað henni leið illa eftir samskipti við aðdáanda á ráðstefnunni. Í myndbandinu byrjaði hún á því að þakka fyrir „venjulega“ aðdáendur sem komu vel fram við hana.
„Heilt yfir voru allir æði. Ég byrjaði sjálf bara nýlega að mæta á þessar ráðstefnur og í flestum tilvikum eru allir mjög indælir, góðir og virða mig. Þetta er búið að vera stórskemmtilegt. En við þurfum að tala um mörk og hvað er viðeigandi hegðun.“
Leikkonan fór ekki nánar í saumana á því hvað einn aðdáandi og vinur hans gerðu á þessari tilteknu ráðstefnu í Belfast en hún tók þó fram að þessi uppákoma hafi engan veginn verið í lagi. Firecracker persónan tók þátt í nokkuð svæsnum kynlífs-senum í þáttunum. Firecracker er öfga hægri sinnuð ofurhetja og allt við persónuna mjög ýkt. Má ætla að þessir aðdáendur sem leikkonan nefnir hafi mætt á ráðstefnuna klæddir sem persónur úr The Boys, og leyft sér að klæmast eða tala með óviðeigandi hætti við Curry, líkt og persónur þeirra gerðu við Firecracker í þáttunum.
„Ég veit að fólk sá persónu sem ég lék gera öfgafulla hluti í The Boys og mér er alveg sama þó að þú sért búinn að klæða þig í búning, eða ef þú ert að spila hlutverkaleik – það er ekki í lagi, og það er ekki fyndið að heimta þessa hluti af mér í eigin persónu á básnum mínum á svona ráðstefnu. Manneskjunni sem gerði þetta ítrekað við mig í dag gerði ég ljóst að þetta væri ekki í lagi en það virtist bara gera þessa manneskju og vin hennar reið. Ég held að það þurfi ekki að útskýra það sérstaklega en þetta lét mér líða mjög óþægilega – og það var mjög augljóst hversu illa mér leið.“
Curry tók fram að henni langar að eiga gott samband við aðdáendur sína og halda áfram að mæta á ráðstefnur en ef aðdáendur koma fram með þessu hætti þá sé það ekki í myndinni. Hún þakkaði þeim aðdáendum sem myndu ekki láta sér detta til hugar að koma svona fram og bað þá sem telja viðeigandi að tala við hana með ýktum kynferðislegum hætti bara út af persónu sem hún lék, að hugsa ráð sitt betur.
„Ef þú ert að íhuga þetta, ef þú heldur að þetta verði fyndið, ef þú heldur að þú sért bara í hlutverkaleik, þá skaltu vita að það virkar ekki þannig og þú munt bara láta mér líða illa.“
Aðstandendur ráðstefnunnar tóku fram í yfirlýsingu til BBC að leikarar og gestir á ráðstefnum komi þangað í eigin persónu.
„Þau eru ekki í hlutverki og ekki að leika hlutverkin sem þið sáuð þau leika á stóra skjánum. Vinsamlegast komið fram við alla gesti og hvert annað að virðingu og verið meðvituð um að það er ekki í lagi að segja óviðeigandi hluti, þó að þið séuð í búningum og þó þið séuð í hlutverkaleik. Að láta gesti eða annarri manneskju líða óþægilega þér og vinum þínum til skemmtunar er óásættanlegt. Við höfum enga þolinmæði fyrir slíkri hegðun og ef einhver ráðstefnugestur eða almennur borgari upplifir áreitni þá biðjum við að viðkomandi geri öryggisdeildinni viðvart.“