Guðmundur Ingi þekkir fangelsiskerfið vel enda hefur hann afplánað tvo þunga dóma og svo verið formaður Afstöðu, í hagsmunabaráttu fyrir sakamenn, síðasta áratuginn. Hann segir að ólíkt hinum Norðurlöndunum sé rekin refsistefna á Íslandi en ekki betrunarstefna. Hér séu fangelsi geymsla og í raun ekkert gert til að hjálpa brotamönnum að komast á beinu brautina.
Fólk afplánar hér dóma en er svo bara vísað út á götuna, líf þess í mörgum tilvikum rjúkandi rúst, og er þeim ætlað að finna bara út úr hlutunum sjálf án nokkurs stuðnings. Þannig leiðist margir aftur í glæpi, og aftur í vítahring fíknar, andlegra veikinda og heimilisleysis.
„Við þurfum að taka fólk og beina þeim á rétta braut og bjóða þeim að taka þátt í allskonar, hvetja þau áfram og vera með einhver svona gulrótarkerfi, því fangelsin eru bara svolítið eins og leikskóli, þetta er fólk sem á erfitt og þarf að leiða áfram með gulrót.
En síðan þarf að taka á öllum málum í einu. Það þarf að taka á áföllunum. Það er áfall að fremja glæp, það er áfall að vera handtekinn og það er áfall að fara í fangelsi. Það eru svo líklega fullt af áföllum sem þau hafa lent í á undan, áður en þetta ferli byrjar. Og fíknin. Það þarf á taka á fíkninni.“
Svo sé sorglegur veruleikinn sá að sumum hreinlega dreymi um að komast í fangelsi. Þetta er fólk í svo erfiðri stöðu að það sér fangelsið í hyllingum.
„Við erum með hóp af fólki sem er í svo erfiðri stöðu að þeim dreymir um að fara inn í fangelsin. Pældu í því. Það er eitthvað sem að maður bjóst bara ekki við að væri til en það er þannig að fólk er í svo hrikalega erfiðri stöðu, er á götunni, er í vandræðum með vímuefni í æð, vantar geðhjálp eða svona, fær enga aðstoð.
Þau fá ekki að fara í meðferð á Vogi því þau eru með geðrænan vanda. Þau fá ekki að fara í meðferð á geðdeildinni því þau eru með vímuefnavanda. Þau eru bara einhver staðar þarna á milli.“
Jafnvel ef reynt er að koma til móts við þennan hóp þá endar það líklega þannig að þessu fólki er ekki fundið nokkuð pláss. Það er allt fullt.
Guðmundur segir að hér sé um að ræða vanda sem þurfi að nálgast heildstætt.
„Það er ekki bara fangelsiskerfið sem er gallað. Það er líka geðheilbrigðiskerfið. Og skólakerfið. Þetta byrjar þar. Mikið af þessum vanda sem við erum að eiga við í dag, allar þessar hnífstungur og svona.“
Guðmundur og félagar hans í Afstöðu hafa fylgst vel með hinum Norðurlandaþjóðunum. Hvað er að gerast þar í undirheimum og hvað er að gerast í málefnum fanga. Þar tóku þau eftir ákveðinni þróun og vitað að aðeins væri tímaspursmál áður en sambærileg staða kæmi upp hér á landi.
Yfirvöld hafi verið vöruð við því, en ekki var hlustað.
„Allar okkar spár hafa ræst, alltaf. Og kannski einu ári seinna, tveimur árum seinna eða lengra, því miður. Þannig það er svolítið sorglegt að það sé ekki tekið mark á því. Það er aðeins farið að taka mark á því í dag, það verður að segjast en þetta er vandi sem við hefðum getað séð fyrir.“
Hér ganga nú margir heimilislausir um vopnaðir, og ekki af illvilja heldur hræðslu.
Guðmundur segist í um áratug hafa reynt að sannfæra yfirvöld um að horfa til þess sem er að eiga sér stað hjá nágrönnum okkar á Norðurlöndum. Þar eru rekin úrræði fyrir ungt fólk í vanda og fyrir unga afbrotamenn.
„Við vitum að þetta virkar,“ segir Guðmundur en bendir á að um úrræði sé að ræða sem lögreglan getur vísað mönnum í, sem og fangelsisyfirvöld og dómarar. Eins geti brotamenn beðið um að komast í úrræðið að fyrra bragði.
Nú er í gangi vinna á vegum ríkislögreglustjóra, eins konar óformlegur vinnuhópur sem hefur unnið hörðum höndum að því þetta árið að taka á málunum. Þessi hópur hefur kynnt sér hvað er í gangi í öðrum löndum, átt samráð við stofnanir og aðila sem koma að málum fanga, sveitarfélögin og áfram mætti telja. Guðmundur vonar að afrakstur vinnunnar verði úrræði sem dómarar geti jafnvel vísað ungum brotamönnum í, eða úrræði sem grípur fólk við lok afplánunar til að hjálpa þeim að koma undir sig fótum að nýju.
„Það er rosalega sorglegt að horfa upp á það að fólk sé að fara beint úr fangelsi yfir í neyðarskýli Reykjavíkurborgar, það er hrikalega erfitt að sjá það og þá byrjar hringurinn upp á nýtt. Þetta er hringiða glæpa, neyslu, fangelsa og heimilisleysis, það er bara hrikalegt að sjá þetta og við vitum að við getum gert betur, við vitum að við getum fengið þetta fólk til að breyta um stíl og taka á hlutunum en það þarf að vera eftirfylgni og þurfa að vera til úrræði.“
Staðan sé sú að á næstum vikum og mánuðum séu menn að ljúka afplánun sem séu bókstaflega hættulegir, verulega hættulegir. Þeirra bíður ekkert annað en gatan. Þessir menn eru veikir og eiga erfitt en þeirra bíður enginn stuðningur, engin meðferð – ekkert.
„Ef það er ekki tilbúið úrræði fyrir þá, þar sem þeir fá stuðning og þær meðferðir sem þeir þurfa á að halda, þá munu þeir fremja alvarlegri glæpi og það er ekki bara að við höldum að það gerist, við vitum það og ekki bara við heldur allir sem koma að þessum málum og líka sveitarfélögin“
Hlusta má á viðtalið við Guðmund og fyrri þætti Kalda pottsins á tyr.is eða á Spotify.