fbpx
Sunnudagur 01.september 2024
Fókus

„Fyrir aldarfjórðungi týndust tvær litlar systur í óveðri og aldrei hefur neitt til þeirra spurst“

Ragna Gestsdóttir
Sunnudaginn 1. september 2024 17:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Satu Rämö er finnsk en hefur búið lengi á Íslandi. Hildur er hennar fyrsta glæpasaga og sló í gegn í Finnlandi, komst í efsta sæti metsölulista og náði einnig miklum vinsældum í Þýskalandi og víðar. Nú þegar eru komnar út tvær framhaldsbækur á finnsku. Hildur kom nýlega út í íslenskri þýðingu, Erla Elíasdóttir Völudóttir þýddi.

Fyrir aldarfjórðungi týndust tvær litlar systur í óveðri og aldrei hefur neitt til þeirra spurst. En Hildur, stóra systir þeirra, er orðin rannsóknarlögreglukona á Ísafirði og óhjákvæmilega leitar hvarf systranna oft á hugann. Lögreglan fyrir vestan er fáliðuð og fæst við margt. Þegar snjóflóð fellur á sumarhúsabyggð og Hildur og félagar hennar í lögreglunni mæta á staðinn finna þau í rústunum mann sem hefur verið myrtur – í friðsælum bænum er greinilega eitthvað einkennilegt á seyði.

Mögnuð og æsispennandi glæpasaga sem gerist að vetri til á Vestfjörðum – þar sem snjórinn og myrkrið geyma ógnvænleg leyndarmál.

Hér getur þú lesið fyrstu tvo kafla bókarinnar birt með góðfúslegu leyfi Forlagsins:

Móðir mín í kví, kví

kvíddu ekki því, því 

ég skal ljá þér duluna mína

duluna mína að dansa í. 

ÁÐUR 

1.kafli 

Sumarið 1550, Mosfellsheiði 

Sleipnir greikkaði sporið svo að brúnn og þykkur makkinn flaksaðist til og frá. Munnvatn lagaði úr kjaftinum og svört augun glömpuðu af ákefð yfir að halda ferðinni áfram. 

Haraldur sat á baki sporléttum hestinum og andaði að sér svölu síðsumarsloftinu. Með hægri hendi hélt hann um taum Sleipnis en sú vinstri hélt um taum sem festur var í mél tveggja aukahesta sem Haraldur teymdi við hlið sér. Um mitti hans var bundinn hnífur sem slóst við hægra lærið í takt við tölt hestanna. 

Haraldur andaði frá sér og blés löngu, djúpu hljóði í gegnum þykkt, rauðbrúnt skeggið. 

Því var ætlað að róa fákinn en ekki einu sinni þreyta virtist slá á löngun hans til að halda áfram. 

Góður hestur vildi þjóna húsbónda sínum sem best, sýna honum hvað í sér byggi. Bratti Mosfellsheiðarinnar var þó enn fram undan og því vildi Haraldur ekki keyra besta hestinn sinn út alveg strax. 

Haraldur hafði verið ríðandi í þrjá langa daga. Hann hafði haldið af stað með þrjá hesta frá heimili sínu á Fellsströnd við Breiðafjörð og tekið stefnuna suður. Hann ætlaði að vara Njál vin sinn við. Haraldi hafði borist til eyrna að hópur vígamanna hygðist ráða hann af dögum. Njáll var á meðal auðugustu og áhrifamestu bænda á öllu Suðurlandi og það hafði bakað honum óvild manna sem leituðu leiða til að komast yfir auðæfi hans. 

Þar sem Njáll og Haraldur voru systrasynir höfðu þeir verið nánir frá barnsaldri og Haraldur hafði lagt af stað um leið og hann frétti af þessum áformum. 

Kvöldsólin brá roðagullnum ljóma á landslagið. Það var haust í lofti. Söngur fuglanna var ekki lengur eins kappsamur og á pörunartímanum í byrjun sumars og grængresið á engjunum var að taka á sig ljósbrúnan blæ. Rétt áður en sólin settist og rökkrið féll á kom Haraldur að sæluhúsi á Mosfellsheiðinni sem var síðasti áningarstaðurinn á löngu ferðalagi hans. 

Hann stöðvaði hestana fyrir utan lágt torfhúsið og steig af baki. Þegar hann hafði brynnt hestunum teymdi hann þá inn á grasblett með hlöðnum grjótgarði umhverfis þar sem þeir gátu hvílt lúin bein. 

Haraldur lauk upp sæluhússdyrunum og steig inn í lág, rökkvuð göng. Hann langaði að leggja sig yfir nóttina áður en hann héldi ferðinni áfram morguninn eftir. Enn var hálf dagleið að bæ Njáls sem stóð við bakka Ölfusár. 

„Þrír hestar og einn maður, til einnar nætur. Er rúm hér?“ rumdi Haraldur í gegnum skeggið og tvísté lítið eitt. Sítt, rautt hár hans rammaði inn andlit með sterkbyggðri höku. 

Inn í göngin steig ung kona, klædd í grátt ullarpils. Hún hélt á lýsislampa. Græn augu hennar virtust enn grænni í daufu skini tírunnar frá lampanum. 

„Það er svefnpláss þarna fyrir innan. Gistingin greiðist í fyrramálið og ekki reyna nein bellibrögð,“ sagði hún ákveðið og kinkaði stuttlega kolli aftur fyrir sig. 

 

Una var á þrítugsaldri og af Suðurlandi. Á veturna var hún vinnukona á bæ í Hvalfirði en á sumrin sá hún um sæluhús á landareign húsbónda síns sem var áningarstaður allra ferðalanga á leið milli Vestur- og Suðurlands. 

Una virti þennan myndarlega mann fyrir sér í dágóða stund. Hún var ekki vön að horfa svona lengi á aðkomumenn. 

„Ertu svangur? Ég get athugað hvað til er í eldhúsinu,“ sagði hún. 

Þau skiptu með sér harðfiskflaki og sölvabrauði. Haraldur sagði henni frá hestunum sem hann hafði meðferðis og frá sauðfjárbúi sínu við Breiðafjörðinn með eyjunum óteljandi. Una sagði honum hve lunkin hún væri að smala. 

Una var síður en svo vön að hleypa ókunnugum ferðalöngum upp í til sín en í þetta sinn gerði hún undantekningu. Haraldur var öðruvísi en aðrir menn. Einhvern veginn sérstakur. Hann talaði við hana eins og jafningja. Innti hana eftir áliti hennar, hlustaði á hana án þess að grípa fram í og sagði henni frá hversdagslegum hlutum úr eigin lífi. 

Morguninn eftir, þegar Haraldur bjóst til brottfarar, spurði hann Unu hvernig henni litist á að hann kæmi að sækja hana í bakaleiðinni. 

„Ef þú lætur ekki bíða of lengi eftir þér getur hugsast að ég komi með,“ sagði Una. Þegar Haraldur var farinn sat hún eftir og fléttaði hár sitt. Heitir morgungeislar síðsumarsólarinnar þrengdu sér inn um ljórann á sæluhúsinu. Ljósræman virtist skipta rýminu í tvennt. Una kom sér fyrir í miðju geislaflóðinu, lét augun aftur og naut þess að finna hitann verma andlitið. 

Haraldur kom að Ölfusá á undan óvildarmönnum Njáls. Sá síðarnefndi var himinlifandi að sjá vin sinn og frænda og endurfundunum var fagnað langt fram á nótt. Njáll fékk nágranna sem hann treysti til að senda sér tvo fíleflda vinnumenn gegn greiðslu og ásamt mönnum Njáls stóðu þeir vörð um bæinn alla nóttina. Þegar Haraldur bjóst til brottfarar á bæjarhlaðinu gaf Njáll honum lítinn leðurpung í þakklætisskyni, fullan af kopar- og silfurpeningum. 

Peningarnir klingdu í vasa hans þegar hann reið upp að sæluhúsinu að loknu tveggja daga ferðalagi. 

Una lét niður fábrotnar eigur sínar, steig á bak yngri merinni hans Haraldar og fylgdi þessum myndarlega manni vestur til Breiðafjarðar og allra hans ótal eyja. 

Þau Haraldur hefðu aldrei átt að hittast en það gerðu þau samt og varð margra barna auðið. 

2.kafli 

Nóvember 1994, Ísafirði 

Ef litið var út um stofuglugga hússins sást vindurinn þyrla snjónum í garðinum hingað og þangað. Hríðin var að færast í aukana. 

Kviðurinn á Lóu var mjúkur og hlýr viðkomu. Húðin á henni er eins þunn og silkipappír, hugsaði Björk á meðan hún strauk syfjulegu dýrinu rólega. Læðan malaði lágt. Fram hjá húsinu ók snjóplógur; á þakinu blikkaði appelsínugult ljós sem varpaði daufri birtu inn í stofuna. Stórt ökutækið ruddi fönninni af veginum og ýtti henni í stóra skafla á auðri lóðinni við hliðina. Plógurinn skrapaði stéttina með skrölti og ískri sem heyrðist inn í húsið. 

Kötturinn vaknaði og teygði úr framloppunum á riffluðu flauelsáklæði sófans, lét rifa örlítið í augun og gjóaði þeim ánægður á hina ungu gæslukonu sína. 

Björk fannst leiðinlegt að geta ekki átt kött. Mamma hennar var með ofnæmi, líka fyrir hundum. Þau áttu hesta en þeir voru alltaf úti og það var ekki hægt að leika við þá í stofusófanum eins og kött. 

Hún hafði orðið himinlifandi þegar Jón, gamall kunningi móður hennar, bað hana og Rósu systur hennar að annast köttinn sinn meðan hann færi til Reykjavíkur að fá sér ný gleraugu. Lóa var farin að eldast og hefði tæpast orðið sátt við bílferð suður eða gistingu á hóteli. Hún undi sér illa í kattarbúri í aftursætinu og varð iðulega bílveik. 

Þennan dag höfðu Björk og Rósa flýtt sér heim til Jóns strax eftir skóla að passa kisu. 

Þegar þangað kom gáfu þær Lóu gellur að éta og skömmtuðu henni einn desilítra af þurrmat í matardallinn. Nú tímdi Björk ekki að víkja frá dormandi læðunni. Hún var svo mjúk og hlý. 

„Við verðum að drífa okkur, í alvörunni. Skólabíllinn kemur rétt bráðum,“ rak Rósa á eftir litlu systur sinni. 

„Ég ætla bara að klóra henni aðeins lengur. Henni finnst það svo gott, sjáðu hvernig hún nuddar hausnum upp við mig. Kisa, kisa, kis.“ 

Rósa stóð tilbúin í forstofunni með rauða skólatösku með póníhestamyndum á öxlinni. Eftir fimm mínútur átti skólabíllinn að leggja af stað frá gulri skólabyggingunni áleiðis yfir fjallið til Flateyrar og Rósa vissi að bílstjórinn biði ekki eftir neinum. Björk var bara í fyrsta bekk og hafði ekki gott tímaskyn. Gerði engan greinarmun á fimm mínútum eða fimmtán. Rósa var hins vegar komin í þriðja bekk. 

Það var að minnsta kosti heppilegt að Jón skyldi búa rétt hjá skólanum. Mamma hafði sagt þeim að hann ætti líka annað hús, gamalt býli einhvers staðar uppi í sveit. Kisan Lóa undi sér víst betur þar, fjarri bílaumferð. 

„Ég er allavega farin. Þú getur bara orðið eftir hér ef þú vilt ekki koma heim,“ sagði Rósa og gekk að útidyrunum. „Mamma ætlaði að baka lummur í dag, manstu,“ sagði hún lokkandi röddu við systur sína. Lummur með sírópi og rabarbarasultu voru það besta sem Björk vissi. Mamma kunni líka að steikja þær þannig að þær urðu í laginu eins og blóm og hjörtu. 

Björk stóð upp af sófanum með semingi og klappaði kettinum einu sinni enn. 

„Jæja þá, komum. Ég ætla bara að skreppa á klósettið fyrst.“ 

Rósa lokaði útidyrunum á eftir þeim og gætti þess að þær læstust örugglega með smelli, því hún vissi að annars gæti vindurinn feykt þeim upp svo að snjóaði inn. 

Systurnar klofuðu yfir fönnina í garðinum. Undanfarna tvo daga hafði fallið í það minnsta hálfur metri af snjó. Þær námu staðar til að dást að sköflunum sem vindurinn hafði blásið snjónum í og ákváðu að renna sér á sleða í brekkunni bak við húsið þegar heim kæmi. 

Þegar þær komu út að veginum með skóna fulla af snjó þaut skólabíllinn hjá. Rósa hljóp smáspöl á eftir honum og veifaði báðum höndum til merkis um að bílstjórinn ætti að stansa en allt kom fyrir ekki. Annaðhvort sá hann þær ekki eða nennti ekki að stoppa. 

„Við verðum að komast heim. Hvað eigum við að gera?“ spurði Björk skelfd. „Það er snjór í skónum mínum. Mamma segir að maður fái kvef af því að vera blautur í fæturna úti,“ sagði hún áhyggjufull. Tár þrengdu sér fram í augnkróka hennar og röddin varð loðin. 

Rósa braut heilann. Það var búið að loka skólanum. Hin börnin höfðu ýmist gengið heim, verið sótt eða farið með skólabílnum. Á þessum tíma var mamma úti að gefa hestunum og væri ekki væntanleg inn næsta klukkutímann. Pabbi var á sjónum. Togarinn kæmi ekki að landi fyrr en um helgina. 

„Við getum heimsótt einhvern,“ stakk Björk upp á. 

„Mamma verður ekki ánægð ef hún þarf að koma og sækja okkur,“ sagði Rósa hugsi. 

Björk datt annar möguleiki í hug. 

„Hvað ef … ef við löbbum bara?“ 

Björk vissi að þær máttu ekki ganga heim. Í stórhríð var auðvelt að villast og enn átti eftir að opna nýju, flottu jarðgöngin. Þegar þau yrðu opnuð mætti heldur ekki fara þar um fótgangandi. 

Undanfarin tvö ár höfðu staðið yfir framkvæmdir við gerð jarðganga milli Ísafjarðar og Flateyrar. Þau voru nokkurra kílómetra löng og myndu bæði stytta ferðatíma milli bæjanna og gera leiðina öruggari. Brátt þyrfti ekki lengur að aka um brattan og krókóttan fjallveginn sem var einkum háskalegur yfirferðar í verstu vetrarveðrum. 

„Það má ekki labba inn í göngin, svo eru þau heldur ekki tilbúin,“ sagði Rósa smeyk. 

„Ég heyrði mömmu segja við pabba að það væri hægt að komast í gegnum fjallið núna. Vegurinn er tilbúinn. Ég er alveg viss,“ sagði Björk með sjálfstrausti sex ára barns og horfði ákveðin í augu systur sinnar. 

„Já, einhvern veginn verðum við að komast heim,“ sagði Rósa hugsi. „Og fyrst göngin eru ekki opin eru heldur engir bílar þar.“ 

„En ég er myrkfælin og það er svo dimmt inni í göngunum,“ andmælti Björk, þótt hún hefði stungið upp á því að ganga heim. Hún var orðin hrædd. 

„Við förum bara hægt og ég skal labba á undan,“ sagði Rósa hughreystandi. „Ég held í höndina á þér alla leiðina og sleppi ekki fyrr en við komum heim. Við getum gengið meðfram veginum. Hugsaðu um lummurnar.“ 

Viðnám Bjarkar minnkaði og hún greip um hönd systur sinnar. Þær lögðu af stað í átt að göngunum. 

Telpurnar gengu meðfram malbikaðri vegbrúninni áleiðis að gangaopinu. Það fór aftur að snjóa. Síðdegisbirtan var á undanhaldi og rökkrið féll hratt yfir. Brátt yrði jafndimmt úti og inni í göngunum. 

„Það snjóar að minnsta kosti ekki í göngunum. Komdu, förum inn,“ sagði Rósa og teymdi litlu systur sína áfram. 

Rósa og Björk leiddust inn í myrkvuð göngin og það síðasta sem sást af þeim var rauður bakpoki með póníhestamyndum. Svo voru þær horfnar. 

 NÚNA 

1.kafli 

Október 2019, Ísafirði 

Sjórinn andvarpaði lágt. Öldurnar komu langt að, alla leið frá Grænlandi. Þegar stormur geisaði á Grænlandshafi skilaði hann sér nokkrum dögum seinna í ókyrrum sjó og öldugangi sem skall á hrjúfri norðvesturströnd Íslands. Þegar boðaföllin buldu á fjörugrjótinu breyttust öldurnar í hvíta froðu sem rigndi yfir op hellanna sem myndast höfðu í eldgosum í fyrndinni. 

Öllum var nauðsynlegt að finna af og til tengingu við undirstöðuna, það sem hélt tilverunni saman. Hildur Rúnarsdóttir rannsóknarlögreglukona var vön að uppfylla þessa þörf með því að fara á brimbretti. Hafið var til alls víst og ómögulegt að sjá hræringar þess fyllilega fyrir. Í vatninu bjó alltaf eitthvað dimmt og kalt; eitthvert óljóst, óafmarkað svæði sem var óútreiknanlegt og þurfti því að varast. Það var hættan sem heillaði Hildi. Henni fannst hún aldrei meira lifandi en þegar hún lék sér á mörkum þessa ófyrirsjáanlega sorta. 

Hildur festi þykka hárfléttuna, sem náði henni niður á mitt bak, upp í hnút í hnakkanum svo að hettan á blautbúningnum sæti sem þéttast. 

Hitastig vatnsins var á að giska fimm gráður. Sex í hæsta lagi. Blautbúningurinn var úr sterku neoprene-efni, gervigúmmíi af þykkustu gerð. Ermar og skálmar voru síðar en efnið var fáeinum millimetrum þynnra í handvegunum og við nárann til að auðveldara væri að hreyfa handleggi og fótleggi. Hún notaði líka sérstaka brimbrettahanska og -skó í köldu vatninu. 

Svartur blautbúningurinn lá þétt upp að húð hennar. Of rúmur búningur myndi hleypa of miklu vatni inn og þá gæti líkaminn kólnað um of. Væri hann of þröngur ætti hún aftur á móti erfitt með hreyfingar og á brimbretti var nauðsynlegt að geta hreyft sig óhindrað. 

Gráleit birta októbermánans lýsti í gegnum skýjatjásur. Á veturna skein sólin alls ekki á þessum slóðum. Fjallahringurinn hélt henni í skefjum frá nóvember og fram í febrúar. Nú var einmitt að koma að þeim árstíma þegar sólin léti sig hverfa og sneri ekki aftur fyrr en undir vetrarlok. 

Hildur tók grænt brimbrettið undir handlegginn og steig út í vatnið. Þrátt fyrir þykkan gúmmíbotninn á brimbrettaskónum fann hún fyrir hvössu storkuberginu undir iljunum. Eftir nokkur varfærnisleg skref lagðist hún á magann á brettið og byrjaði að svamla með höndunum frá fjörunni, í átt að opnu hafinu. Vöðvastæltir handleggirnir báru hana áfram með taktföstum tökum og andardrátturinn varð smám saman örari. 

Þegar komið er út á sjó er hægt að halda áfram eins lengi og hugurinn orkar. Þennan dag vildi Hildur fara eins langt og hún mögulega kæmist. Öldurnar voru lágar en langar. 

Dæmigerðar rytjur af Grænlandsstormi. Það tók á kraftana að berjast áfram á móti öldunum og einmitt þess vegna naut Hildur þess svo mikið. Það að eyða líkamlegri orku á brimbrettinu gaf henni endurnýjaðar birgðir af andlegri orku. 

Brettið mjakaðist æ lengra og andardráttur Hildar varð smám saman tíðari. Út undan sér kom hún auga á kolsvartan hrafn á flugi fyrir ofan. Hún leit snöggvast upp og sjórinn greip hana um leið. Á næsta andartaki var andlit hennar undir sjávarborðinu. Munnfylli af sjó smaug ofan í hana og olli snörpu hóstakasti. 

Þegar hún hafði svamlað áfram nokkur hundruð metra sneri hún brettinu við og beið eftir næstu öldu. Uppi á landi var engan að sjá. Í bæ á stærð við Ísafjörð voru ekki margir sem stunduðu brimbretti og hún sat ein að sjónum þennan daginn. 

Rúmri klukkustund síðar gekk Hildur með brettið undir handleggnum út á Arnarnes, þar sem hún hafði lagt jeppanum sínum um morguninn. Eins og vanalega leið henni betur eftir að hafa gleymt öllu öðru um stund. Þennan morgun hafði hún skyndilega verið gripin miklum kvíða. Eftir brimbrettaferðina leið henni skár en hún hafði þó enn á tilfinningunni að sér myndu brátt berast slæmar fréttir. 

Hildur var rannsóknarlögreglufulltrúi á Vestfjörðum – sú eina á svæðinu með þann starfstitil – og stýrði jafnframt þeirri deild hjá embætti ríkislögreglustjóra sem hafði barnshvörf í dreifbýli á sinni könnu. 

Þegar hún kom að jeppanum heyrði hún farsímann hringja. Hún fletti þröngum brimbrettahönskunum af sér, opnaði bíldyrnar og greip símann sem blikkaði í framsætinu. 

„Hildur.“ Hún heyrði að hún var dálítið andstutt. Hún þerraði sjó af enninu og tók þykka gúmmíhettuna ofan. 

Í símanum var yfirmaður hennar, Elísabet Baldursdóttir, kölluð Beta, og erindið var brýnt. Það kom Hildi ekkert sérstaklega á óvart. 

„Ég er á leiðinni. Kem bara við heima að skipta um föt.“ 

Flest fólk virtist eiga von á að framtíðin bæri eitthvað gott í skauti sér. Það fannst Hildi skrýtið. Sjálfri fannst henni best þegar ekki þurfti að búast við neinum uppákomum yfirhöfuð. Þegar hlutirnir gerðust bara og hversdagurinn gekk sinn örugga vanagang. Um leið og sú tilfinning vaknaði innra með henni að eitthvað óvanalegt væri á næsta leiti vissi það á eitthvað slæmt og kvíðvænlegt. 

Hildi hafði ekki alltaf liðið svona. Í æsku hafði hún verið fær um að finna til eftirvæntingar vegna þess sem koma skyldi. Þá hlakkaði hún til jólanna, afmælisveislna hjá 

bekkjarsystkinum, langra reiðtúra um helgar og þess að fyrsti snjórinn félli. Svo breyttist allt og þá hætti hún að búast við því að nokkuð gott gerðist framar. 

Hildur fleygði þykku handklæði yfir leðurklætt bílstjórasætið og settist inn. Svo ræsti hún bílinn og ók af stað svo ískraði í dekkjunum áleiðis að miðbæ Ísafjarðar, þar sem hún bjó og starfaði. 

2.kafli 

Köflótt áklæðið á hægindastólnum var gróft viðkomu. Á stofugólfinu var óhreinn, ljósbrúnn línóleumdúkur sem ískraði viðbjóðslega í undan sólunum á Vans-strigaskónum hans Péturs. 

Hann dró svarta lopahúfuna lengra niður á ennið og reyndi að róa sig með því að beina athyglinni að svarti, ferningslaga Ikea-hillueiningu við vegginn andspænis sér. Í hillunum var allt á rúi og stúi. Í þær hafði verið troðið stöflum af gömlum auglýsingapésum og haug af tómum eldhúsrúllum og pítsukössum. Innan um þetta voru fáeinar postulínsstyttur af kúm og eintak af Sölku Völku. Þunnt lag af ryki hafði lagst yfir gamalt óhreinindaklístur. 

Pétur var svangur. Undanfarna tvo daga hafði hann aðeins borðað eina dollu af jarðarberjajógúrt sem hann stal úr bensínstöðvarsjoppu á leiðinni vestur en þessa stundina gat hann þó ekki hugsað um mat. Hann var of stressaður. 

Hann hafði haft heppnina með sér þegar ungur afleysingalæknir tók hann upp í við þjóðveginn og féllst á að skutla honum til Ísafjarðar. Þetta var Pólverji sem hafði dvalið í landinu um skamma hríð og kunni ekki íslensku. Pétri fannst það ekkert verra, hann var góður í ensku. Hann hafði þó ekki lært mikla ensku í skólanum, hafði ekki einu sinni lokið grunnskóla. Honum fannst hann hafa öðlast alveg næga tungumálakunnáttu á YouTube og spjallþráðum á netinu og hann hafði átt auðvelt með að halda uppi samræðum við pólska lækninn. Það var gott að fá far hjá útlendingi. Einhverjum sem þekkti hann örugglega ekki. Meiri áhætta fólst í samskiptum við aðra Íslendinga. Þótt hann þekkti ekki manneskjuna gæti vel verið að viðkomandi þekkti einhvern sem þekkti hann. 

Pétur ók sér til í hægindastólnum og leit varfærnislega í átt að stóra borðinu í miðri stofunni. Jón sat við borðsendann, klæddur rauðri flónelskyrtu sem þrengdi að kviðnum á honum, og var að troða maríjúana í vatnspípu. Hann setti upp lesgleraugu með brotinni umgjörð og virti handaverk sitt fyrir sér. Djúpar hrukkurnar á enninu, sem markað var stóru öri, urðu enn dýpri þegar hann rýndi ofan í pípuna. 

„Ég var farinn að bíða eftir þér. Hvað tafði þig eiginlega?“ spurði hann piltinn og festi rörið á pípuhausinn. „Ég varð fyrir vonbrigðum með þig,“ hélt hann áfram. Hann stóð upp og lagði vatnspípuna ásamt kveikjara á sófaborðið, beint fyrir framan flóttaleg augu Péturs. „En engar áhyggjur, stráksi. Þú ert ágætur. Og við hljótum að finna upp á einhverju til að hressa mig við, ekki satt?“ 

Jón settist aftur niður, teygði hendurnar aftur fyrir hnakkann og hallaði sér aftur í sætinu. 

Hann starði á unglingspiltinn í hægindastólnum og virtist skemmt. Að lokum framkallaði stingandi augnaráð hans svar frá piltinum. 

„Já, sko. Það var djöfull erfitt að komast burt. Starfsfólkið þarna er rosalegt.“ 

„Við sáum sem betur fer við því, ekki satt,“ sagði Jón glottandi og kinkaði kolli í átt að pípunni. Pilturinn brást strax við. 

Hann fór vönum höndum um pípuna, kveikti upp í henni og dró að sér reykinn af áfergju. 

Um stund heyrðist ekkert nema lágt suð og smellir í pípunni og æ þyngri andardráttur Jóns. Loksins, hugsaði Pétur. Lungu hans fylltust af þægilega svölum reyknum og það slaknaði á líkamanum. Hann klæjaði ekki lengur í handleggina. 

„Sjúgðu nú pípuna almennilega og ekkert stress, stráksi. Það er svo gott og slakandi. 

Ekki satt? 

Jón starði á unglingspiltinn með pípuna og byrjaði að losa um beltið sitt með yfirmáta hægum hreyfingum. 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Gengu aðeins of langt í sparnaði og komu sér í vandræði á Íslandi

Gengu aðeins of langt í sparnaði og komu sér í vandræði á Íslandi
Fókus
Fyrir 2 dögum

Björn Jörundur segir áskoranir miðaldra manna margar – „Hjalti er við allir. Allir karlar á miðjum aldri með alla sína fordóma og sína vanþekkingu”

Björn Jörundur segir áskoranir miðaldra manna margar – „Hjalti er við allir. Allir karlar á miðjum aldri með alla sína fordóma og sína vanþekkingu”
Fókus
Fyrir 4 dögum

Harry sagður hafa fundið nýja föðurímynd 

Harry sagður hafa fundið nýja föðurímynd 
Fókus
Fyrir 4 dögum

Hefur ekki efni á bensíni eftir mannætuskandalinn

Hefur ekki efni á bensíni eftir mannætuskandalinn
Fókus
Fyrir 4 dögum

Hulda fékk „sturluð“ skilaboð um Þorstein frá ungum karlmanni

Hulda fékk „sturluð“ skilaboð um Þorstein frá ungum karlmanni
Fókus
Fyrir 5 dögum

Ágúst er peppdólgurinn – „Ég vil biðja Þórdísi innilegrar afsökunar“

Ágúst er peppdólgurinn – „Ég vil biðja Þórdísi innilegrar afsökunar“