Breska sendiráðið á Íslandi stendur fyrir gjafaleik á Facebook-síðu sinni. Óvenjulegt hlýtur að teljast að sendiráð taki sér slíkt fyrir hendur.
Í vinning er 15.000 króna gjafakort í Hagkaup en tilefnið er að í verslunum fyrirtækisins hafa staðið yfir breskir dagar síðan 22. ágúst síðastliðinn. Eru breskar vörur þá í fyrirrúmi í verslunum Hagkaupa og í kynningu á vefsíðu fyrirtækisins segir að ýmsar breskar vörur verði til sölu sem ekki hafi mikið sést áður í verslunum hér á landi.
Það var Bryony Mathew sendiherra Bretlands á Íslandi sem opnaði breska daga formlega en viðstaddur var Chris Barton viðskiptafulltrúi breskra stjórnvalda sem í áðurnefndri kynningu minnti á að viðskipti milli Íslands og Bretlands nemi 2 milljörðum punda (um 363 milljarðar íslenskra króna). Í kynningunni kemur ennfremur fram að breskir dagar í ár séu haldnir að hluta til í samvinnu við breska sendiráðið og að bresk stjórnvöld styðji sérstaklega við þá sem hluta af sérstakri áætlun til að auka útflutning.
Það skýrir væntanlega hvers vegna breska sendiráðið fer þá óvenjulegu leið, af sendiráði að vera, að bjóða upp á gjafaleik, þar sem vinningurinn er gjafakort í Hagkaup. Athygli vekur að dregið verður úr pottinum þann 2. september, sama dag og breskum dögum lýkur. Vinningshafinn mun því hafa nauman tíma til að nýta sér þá.