Á árum áður þegar DV kom út á prenti voru einkamálaauglýsingar blaðsins vinsælar. Auglýsendur mættu jafnvel með handskrifaða auglýsingu í Þverholt þar sem fjölmiðilinn var lengi til húsa, greiddu fyrir og mættu svo einhverju síðar til að sækja skrifleg svör sem borist höfðu.
Í dag má segja að Bændablaðið hafi tekið við þessu þarfaverki, að koma einstaklingum saman, sem af einhverri ástæðu, einni eða fleiri, ganga ekki út.
Sjá einnig: Tinder ekki að gefa? – Kannski Bænder sé málið
Í Bændablaðinu sem kom út í dag vill þriggja drengja móðir koma sonum sínum fyrir á góðu heimili, vonandi þó þremur.
„Er með þrjá drengi gefins á gott heimili. 18 ára rafvirkjanema, 21 árs mögulega verðandi bakaranema og 23 ára bakaranema. Vel uppaldir, húsvanir og einstaklega umhyggjusamir. Munu færa kvonfangi kaffi í rúmið stundvíslega kl. 7.20 (er með þá í þjálfun og gengur vel). Fara saman eða í sitthvoru lagi. Áhuga- og umhyggjusamar verðandi eiginkonur, hafið samband við móður á netfangið; tilituskid@gmail.com.“
Hér er því lag að mæla sér í rafvirkja sem löngu hafa verið eftirsóttir til starfa og hver vill ekki fá nýbökuð rúnnstykki með morgunkaffinu?